[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2020 Víðir Sigurðsson vs@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik hefur í dag undankeppni Evrópumótsins þar sem leikið er um sæti í lokakeppninni sem fer fram í Danmörku og Noregi í desember 2020.

EM 2020

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik hefur í dag undankeppni Evrópumótsins þar sem leikið er um sæti í lokakeppninni sem fer fram í Danmörku og Noregi í desember 2020.

Leikið er gegn Króötum í Osijek í dag en viðureign liðanna hefst klukkan 16 að íslenskum tíma. Hin tvö liðin í riðlinum eru Frakkland og Tyrkland og þau eigast við í Amiens í Frakklandi í kvöld. Íslenska liðið tekur síðan á móti Frökkum í Laugardalshöllinni í annarri umferð riðilsins á sunnudaginn kemur.

Arnar Pétursson, fyrrverandi þjálfari ÍBV, tók við íslenska landsliðinu 1. ágúst af Axel Stefánssyni og stýrir því fyrsta skipti í Osijek í dag. Verkefnið er erfitt en til að komast á EM þarf að ná öðru tveggja efstu sætanna. Frakkar eru langsigurstranglegastir í riðlinum, enda ríkjandi heims- og Evrópumeistarar. Króatar hafa verið með á síðustu átta Evrópumótum en ekki gengið vel og endað í þrettánda til sextánda sæti í fjórum þeim síðustu. Króatíska liðið var í umspili um sæti á HM í sumar og tapaði þar með fjórum mörkum samanlagt fyrir Þjóðverjum eftir 24:24 jafntefli á heimavelli og 21:25 tap í Þýskalandi.

Möguleikar íslenska liðsins til að komast áfram standa væntanlega og falla með árangrinum í leikjunum við Króata.

Þá var Tyrkland styrkleikaflokki ofar en Ísland þegar dregið var í riðlana. Ísland vann hinsvegar stórsigur, 36:23, þegar liðin mættust í undankeppni HM á síðasta ári. Íslenska liðið á að hafa alla burði til að ná í fjögur stig úr innbyrðis leikjum liðanna.

Arnar er með níu leikmenn frá erlendum félagsliðum í sautján manna hópi, þar af sex sem leika í efstu deildum Frakklands, Þýskalands, Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar. Það eru Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir (Bourg-De-Péage), Hildigunnur Einarsdóttir (Leverkusen), Birna Berg Haraldsdóttir (Neckarsulmer), Rut Jónsdóttir (Esbjerg), Thea Imani Sturludóttir (Oppsal) og Eva Björk Davíðsdóttir (Skuru). Þá leika þrjár í B-deildum á Norðurlöndunum og hinar átta á Íslandi. Þórey Rósa Stefánsdóttir og Karen Knútsdóttir úr Fram eru leikjahæstar í hópnum með 102 og 98 landsleiki.