Samstíga Brettunum staflað upp við vinnsluhús á Akranesi. Starfsfólk Brims hefur verið ánægt með umhverfisstefnuna og þykir sjálfsagt að flokka í vinnunni rétt eins og heima hjá sér.
Samstíga Brettunum staflað upp við vinnsluhús á Akranesi. Starfsfólk Brims hefur verið ánægt með umhverfisstefnuna og þykir sjálfsagt að flokka í vinnunni rétt eins og heima hjá sér. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Torfi hjá Brimi telur sennilegt að áður en langt um líður verði það bæði venja og skylda í sjávarútvegi að huga að umhverfismálum með sama hætti og félagið hefur gert að reglu.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Þegar svipast er um í íslenskum sjávarútvegi fer ekki milli mála hversu mikinn metnað greinin hefur á sviði sjálfbærni og umhverfisverndar. Fyrirtækin keppast við að draga úr umhverfisáhrifum sínum, huga vel að endurvinnslu og ábyrgri sorpmeðferð, og allir hafa skilning á þeim mikilvægu sameignlegu hagsmunum sem standa þarf vörð um.

Nokkur fyrirtæki hafa leitt þessa þróun og þannig hefur t.d. Brim (áður HB Grandi) vakið verðskuldaða athygli fyrir það hve vel er þar staðið að öllum þáttum umhverfismála, og ekki hvað síst hvað snertir flokkun og lágmörkun sorps á starfsstöðvum félagsins. Torfi Þ. Þorsteinsson, forstöðumaður samfélagsmála hjá Brimi, segir brýnt fyrir stærsta matvælaframleiðanda landsins að sýna gott fordæmi. Þá geri kaupendur um allan heim æ ríkari kröfur til framleiðenda um að þeir umgangist auðlindir jarðar af virðingu og ábyrgð. „Umhverfismálin hafa verið í forgrunni hjá okkur um langt skeið en segja má að síðustu fimm til tíu árin höfum við gefið töluvert í, og leitað allra leiða til að gera enn betur,“ útskýrir hann.

Mælt og rakið

„Við vorum í hópi 107 fyrirtækja og stofnana sem komu saman í Höfða árið 2015 til að undirrita yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum, í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í París. Um svipað leyti settum við á laggirnar umfangsmikið verkefni sem við köllum „HVS“ eða hrein virðiskeðja sjávarútvegs. Er þetta verkefni bæði umfangsmikið og heildstætt og felur m.a. í sér að tryggja þekkingaruppbyggingu á öllum þáttum umhverfisáhrifa frá starfsemi félagsins í gegnum alla virðiskeðjuna; draga með markvissum hætti úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi félagsins; minnka úrgangsmyndun og tryggja betri flokkun á úrgangi og tryggja mælanleika og markmiðasetningu í umhverfismálum.“

Sem dæmi um þann árangur sem náðst hefur hjá fyrirtækinu nefnir Torfi fjárfestingar í búnaði sem gerði mögulegt að nota grænt rafmagn í stað olíu í fiskimjölsverksmiðjum, og breytingar á hafnarbakkanum í Reykjavík á síðasta ári þar sem skip tengjast núna bæði rafmagni og heitu vatni svo ekki þurfi að keyra vélarnar á meðan þau liggja við landfestar. „Svo má ekki gleyma þeim ávinningi sem falist hefur í því að endurnýja skipaflotann með stærri og öflugri skipum sem eyða minni olíu og eru hagkvæmari í rekstri,“ segir hann og bendir á að þar spili inn í betra ástand fiskistofna með öflugu fiskveiðistjórnunarkerfi. „Árið 1985, við samruna Bæjarútgerðar Reykjavíkur og Ísbjarnarins, sem síðar varð að því félagi sem við þekkjum í dag, voru þessi tvö fyrirtæki með níu skip í notkun. Nú eru skipin átta talsins, langtum fullkomnari, og veiða þrefalt meiri afla svo augljóslega hefur kolefnisfótsporið á hvert kíló af fiski snarminnkað. Hefur olíunotkun félagsins dregist saman um 46% frá árinu 2005.“

Umhverfisstefnan fléttast saman við stefnu Brims á fleiri sviðum en fyrirtækið hefur verið í fararbroddi íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja með útgáfu á ársskýrslu um samfélagsábyrgð, sem fyrst kom út árið 2017. Einn veigamesti hluti samfélagsskýrslunnar fjallar um umhverfismál og þar er þungamiðjan umhverfisuppgjör félagsins og koltvísýringslosun frá starfseminni. „Brim hefur verið með umhverfisuppgjör frá árinu 2015 þar sem sjá má hvernig þróunin hefur verið frá einu ári til annars,“ segir Torfi.

Allir leggjast á eitt

En að leggja mikinn kraft í umhverfismálinn kostar sitt, og jafnvel þó að fyrirtækið fái greitt fyrir sorp sem það endurvinnur og spari sér urðunar- og endurvinnslugjöld, þá útheimtir umhverfisstarfið bæði mannafla og útgjöld. „Á móti kemur fjárhagslegur ávinningur af minni orkunotkun. Þá erum við, með þessari stefnu okkar, að horfa til framtíðar og reiknum með að áður en langt um líður verði það orðið bæði venja og skylda að huga að úrgangi, orkunotkun og umhverfisáhrifum með svipuðum hætti og við gerum í dag,“ segir Torfi. „Árið 2010 hófst sorpflokkun á Vopnafirði að frumkvæði starfsmanna og gaf strax góða raun. Fimm árum seinna opnuðum við nýja sorpflokkunarstöð í Reykjavík, og fékk hún nafnið Svanurinn. Loks var flokkuninni komið í sama horf hjá starfsstöð okkar á Akranesi árið 2017,“ útskýrir Torfi.

„Allar deildir og allt starfsfólk vinnur saman að því að draga úr sorpi og flokka sem best þann úrgang sem til fellur. Sjómennirnir á skipunum gæta þess að taka saman allan netaúrgang, og allt annan úrgang vegna veiðanna, svo skila megi til endurvinnslu. Allt rusl sem kemur upp með veiðarfærunum er líka tekið í land og má nefna að frystiskip okkar sem var við veiðar við Noreg í sumar kom með í flokkunarstöðina þvottavél sem lent hafði í trollinu. Verulegur árangur hefur náðst og á síðasta ári var flokkað sorp til endurvinnslu 76% en flokkaði sorp á borð við járn, timbur, pappa, plast og fleira er í raun hráefni til annarrar notkunar.“

Frauðplastið endurunnið

Á síðasta ári var fárfest í sérstakri pressu til að minnka umfang urðunar á EPS-frauðkössum en mikið magn fiskikassa fellur til hjá Norðanfiski, dótturfélagi Brims, vegna kaupa á ferskum laxi til vinnslu fyrir innanlandsmarkað. Í samstarfi við Íslenska gámafélagið náðist samkomulag við kínverskt fyrirtæki sem hefur starfsstöðvar í Kína og Malasíu og óskaði það eftir að kaupa til endurvinnslu allt pressað EPS-frauðplast tsem fellur til hjá Brimi.

„Brim er matvælaframleiðslufyrirtæki sem selur afurðir sínar, sem unnar eru úr villtum fiski, á kröfuharða markaði um allan heim og kaupendur gera sífellt meiri kröfur um að fá að vita meira um fyrirtækin sem þeir kaupa vörur af,“ segir Torfi um áherslur félagsins. „Þá er rétt að nefna að starfsfólkið verður stoltara af vinnustaðnum og ánægt með að fá að taka virkan þátt í að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Það kom stjórnendum þægilega á óvart hversu vandræðalaust það var að innleiða ný vinnubrögð: Allir reyndust boðnir og búnir að leggja sitt af mörkum og mikil jákvæðni fyrir þessu verkefni. Voru viðbrögðin við bættri sorpflokkun oft á þá leið, að fyrst við flokkum sorp heima hjá okkur því skyldum við ekki gera það líka í vinnunni?“