Háskólatónleikar hefjast á ný í dag eftir sumarfrí og á þeim fyrstu, sem fram fara á Litla torgi Háskólatorgs í Háskóla Íslands kl. 12.30, flytur þjóðlagasextett Ásgeirs Ásgeirssonar íslensk þjóðlög í útsetningum með austrænum áhrifum.
Sextettinn skipa Ásgeir Ásgeirsson, sem leikur á ýmis strengjahljóðfæri, Haukur Gröndal á klarínett, Matti Kallio á harmóníku, Þorgrímur Jónsson á kontrabassa, Erik Qvick á slagverk og Sigríður Thorlacius sem syngur.
Á tónleikunum hljóma íslensk þjóðlög, sum vel þekkt, önnur síður, að því er fram kemur í tilkynningu. Leikin verða lög af einleiksplötum Ásgeirs, Two sides of Europe og Travelling through cultures en á þeim má finna nýja kafla við íslensk þjóðlög sem Ásgeir samdi og útsetti með austrænan hljóðheim í huga og í samstarfi við Borislav Zgurovski frá Búlgaríu og Yurdal Tokcan frá Tyrklandi. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis.