Bjarki Gunnlaugsson, umboðsmaður hjá Stellar Group.
Bjarki Gunnlaugsson, umboðsmaður hjá Stellar Group. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarki og Magnús sömdu við umboðsmannaskrifstofuna Stellar Group.
„Hér er ekki atvinnumennska og við höfum ekki beint Ísland sem heimamarkað eins og flest önnur lönd hafa,“ segir knattspyrnuumboðsmaðurinn Bjarki Gunnlaugsson sem hefur ásamt Magnúsi Agnari Magnússyni starfað undir merkjum Total Football undanfarin ár, en tilkynnt var í síðustu viku að þeir félagar hefðu samið við stærstu umboðsmannaskrifstofu í heimi á sviði íþrótta, Stellar Group. Í ítarlegu viðtali á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag er fjallað um starf knattspyrnuumboðsmanna hér á landi, en íslenskar umboðsmannaskrifstofur búa við annan veruleika en gengur og gerist annars staðar fyrir þær sakir að hér er ekki atvinnumannadeild. Greiðslur íslenskra félaga til umboðsskrifstofa, innlendra sem erlendra, námu fimm milljónum króna frá apríl 2017 til apríl 2018. Er það sáralítið í samanburði við Danmörku, svo dæmi sé tekið, en greiðslur danskra knattspyrnuliða til umboðsskrifstofa námu 66 milljónum danskra króna, um 1,2 milljörðum króna árið 2018. „Veltan á markaðnum er mjög óveruleg hérna heima. Við tökum aðeins eitthvað fyrir ef leikmaður er að koma frá útlöndum. Þetta er nokkuð sem við byrjuðum að gera á síðustu tveimur árum. Þá eru kannski þrjú til fjögur lið að berjast um leikmanninn og það getur verið mikil vinna á bak við það fyrir okkur. Íslensku liðin eru að borga erlendum umboðsmönnum fyrir sömu vinnu og ég sé ekki af hverju við ættum að gefa þá vinnu,“ segir Bjarki í samtali við ViðskiptaMoggann.