Pillur Aukning á ávísunum lyfjanna var marktæk í kringum hrun.
Pillur Aukning á ávísunum lyfjanna var marktæk í kringum hrun. — Morgunblaðið/Sverrir
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Á árunum í kringum efnahagshrunið 2008 jukust ávísanir til ungs fólks á róandi lyf og svefnlyf umtalsvert en aukning á ávísunum þunglyndislyfja varð ekki veruleg fyrr en árið 2011.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Á árunum í kringum efnahagshrunið 2008 jukust ávísanir til ungs fólks á róandi lyf og svefnlyf umtalsvert en aukning á ávísunum þunglyndislyfja varð ekki veruleg fyrr en árið 2011.

Þetta kemur fram í grein eftir Árna Arnarson, Jón Steinar Jónsson, Margréti Ólafíu Tómasdóttur og Emil Lárus Sigurðsson sem birtist í nýútkomu Læknablaði.

Þar er greint frá rannsókn um ávísanir á ofangreind lyf til ungs fólks fyrir og eftir efnahagshrunið árið 2008.

Í ályktunum greinarinnar segir að ofangreint bendi til þess að skammvirkum fljótvirkum lyfjum hafi frekar verið ávísað vegna erfiðra persónulegra aðstæðna í kringum hrunið.

Virkni lyfjanna er þess eðlis að þau gætu verið lausn á vandamáli sjúklings sem leysa þarf hratt og er jafnvel talið tímabundið.

„Þó að rannsóknin geti ekki sýnt fram á orsakasamband er ekki ólíklegt að breytingar á ávísunum á svefnlyf og róandi lyf tengist aðstæðum tengdum hruninu. Hvort aukning á ávísunum á þunglyndislyf undanfarin ár sé með einhverjum hætti seinkomin áhrif hrunsins á ungt fólk á Íslandi er óljóst.“

Aukning ávísana á svefnlyf og róandi lyf í aðdraganda hrunsins var sérstaklega mikil hjá körlum.

Þó fengu fleiri konur ávísað þunglyndislyfjum og róandi lyfjum á tímabilinu 2006-2016.

Aukning hjá 18-35 ára

Magn ávísaðra þunglyndis-, róandi- og svefnlyfja til einstaklinga á aldrinum 18-35 ára jókst „mjög mikið“ á árunum 2006-2016 hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu.

Átján ára einstaklingar sem fengu fyrrgreindum lyfjum ávísað voru 223% fleiri árið 2016 en á árinu 2006.

Hjá öllum árgöngum 18-22 ára fjölgaði einstaklingum sem fengu fyrrgreindum lyfjum ávísað um meira en 85% á árunum 2006-2016.