Hæfileikarík Jessye Norman var ein merkasta óperusöngkona 20. aldarinnar.
Hæfileikarík Jessye Norman var ein merkasta óperusöngkona 20. aldarinnar. — AFP
Bandaríska óperusöngkonan Jessye Norman er látin, 74 ára að aldri. Norman var ein virtasta og dáðasta sópransöngkona tuttugustu aldarinnar og hlaut m.a. Grammy-verðlaun á ferli sínum.

Bandaríska óperusöngkonan Jessye Norman er látin, 74 ára að aldri. Norman var ein virtasta og dáðasta sópransöngkona tuttugustu aldarinnar og hlaut m.a. Grammy-verðlaun á ferli sínum.

Norman fæddist í Georgíu árið 1945 og var einn fárra þeldökkra söngvara sem náðu frægð og frama í óperuheiminum. Hún vakti fyrst athygli fyrir glæsilegan söng og túlkun á óperusviðum í Evrópu á áttunda áratugnum og þreytti frumraun sína í Metropolitan-óperunni í New York árið 1983, að því er fram kemur í frétt breska ríkisútvarpsins, BBC, um andlát hennar. Hún lést á sjúkrahúsi í New York eftir að hafa glímt við langvarandi veikindi.

Norman byrjaði ung að syngja, aðeins fjögurra ára í kirkjukór, og hlaut skólastyrk á táningsaldri til söngnáms við Howard-háskóla í Washington. Þaðan hélt hún svo í nám við Peabody-tónlistarháskólann og síðar Háskólann í Michigan. Frumraun sína í óperu þreytti hún í Berlín árið 1969 og heillaði í kjölfarið heimsbyggðina með einstakri raddfegurð sinni. Á ferlinum hlaut hún fjölda verðlauna, m.a. Grammy-verðlaun fyrir ævistarfið og heiðursorðu franska ríkisins.