[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Sigurðarson fæddist 2. október 1939 á Sigurðarstöðum í Bárðardal og ólst þar upp til þriggja ára aldurs.

Sigurður Sigurðarson fæddist 2. október 1939 á Sigurðarstöðum í Bárðardal og ólst þar upp til þriggja ára aldurs. Hann átti heima að Keldum á Rangárvöllum til sjö ára aldurs, síðan á Selalæk í sömu sveit en flutti þaðan á tíunda ári að Hemlu í Vestur-Landeyjum og átti þar heima fram yfir tvítugt.

Sigurður gekk í Skógaskóla, lauk stúdentsprófi frá MA 1961, dýralæknisprófi frá Norges Veterinærhögskole í Ósló 1967, M.Sc.-prófi í meinafræði búfjár við Dýralæknaskólann í London 1970, og sérfræðiprófi í sjúkdómum sauðfjár og nautgripa í Ósló 1995. Þá var hann við framhaldsnám og fór í náms- og fyrirlestraferðir í dýralæknisfræðum á Suður-Grænlandi og í ýmsum fleiri löndum.

Sigurður var rannsóknarmaður hjá Sauðfjárveikivörnum sumrin 1963-67, gegndi embætti héraðsdýralæknis hér á landi og í Drammen í Noregi meðfram námi, kenndi við Bændaskólann á Hvanneyri 1968 og 1975-2000, sinnti rannsóknum við Tilraunastöðina á Keldum 1968, var sérfræðingur sauðfjársjúkdómanefndar 1969-73 og framkvæmdastjóri hennar 1976-78, sérfræðingur hjá embætti yfirdýralæknis frá 1973, var settur yfirdýralæknir 1987, var forstöðumaður rannsóknardeildar Sauðfjárveikivarna á Keldum 1969 og 1970-93 og síðan hjá yfirdýralækni, sérfræðingur í sauðfjár- og nautgripasjúkdómum á Keldum frá 1995 og var fenginn út að til vinna baráttu gegn gin- og klaufaveiki í Englandi og Wales 2001. „Það vantaði dýralækna með reynslu af sjúkdómum í jórturdýrum.“ Sigurður var einnig í Finnmörku í Noregi til að kynna sér sjúkdóma í hreindýrum 2003-2004. „Mig grunaði að riðuveiki gæti fundist í hreindýrum og það reyndist vera rétt síðar.“ Sigurður hefur verið sérfræðingur við Matvælastofnunina á Selfossi frá 2006.

Sigurður sat í dýraverndarnefnd, í Tilraunaráði landbúnaðarins, í fóðurnefnd, í stjórn félags til verndar íslenska fínullarfénu frá Skriðuklaustri, hefur beitt sér gegn innflutningi fósturvísa úr norskum kúm og fyrir varðveislu íslenska kúakynsins. Hann er virkur félagi í Kvæðamannafélaginu Iðunni og Kvæðamannafélaginu Árgala á Selfossi og kom að stofnun Kvæðamannafélagsins Snorra í Reykholti.

„Ég hef aldrei hætt að vinna. Ég hef verið að leita að og staðsetja miltisbruna um allt land í 14 ár ásamt Ólöfu Erlu konu minni og fljótlega er von á skýrslu frá okkur.

Á næstunni eru að koma út tveir hljómdiskar með 60 sönglögum eftir mig og þar af eru 40 með textum eftir mig. Elsta lagið á disknum er 58 ára og yngsta lagið er samið á þessu ári. Ég er svo heppinn að vera með 28 úrvals einsöngvara á plötunni og þrjá kóra sem flytja lögin. Betri er enginn hefur verið Guðmundur Eiríksson, söngstjóri Hörpukórsins, sem hefur aðstoðað margháttað við útgáfuna, og Karl Þór Þorvaldsson sá um upptöku flestra laganna og margir þeirra komu að því líka.

Ég hef verið heilsuhraustur en fékk gáttaflökt sem læknaðist ekki með vélum svo ég ákvað að reyna að gleðja a.m.k. einn á dag með gamansögum, og þá læknaðist þetta, en starf mitt hefur orðið til þess að ég þekki fólk um allt land.“ Hólar hafa gefið út bækurnar Sigurður dýralæknir I og II og Sigurðar sögur dýralæknis. Sigurður fagnar afmælinu á bökkum Dónár.

Fjölskylda

Sambýliskona Sigurðar er Ólöf Erla Halldórsdóttir, f. 11.10. 1940, frá Búrfelli í Grímsnesi, fyrrverandi bankastarfsmaður. Eiginkona Sigurðar var Halldóra Einarsdóttir, f. 21.3. 1942, d. 26.9. 2000, handíðakona og hönnuður. „Lífshamingja mín hefur falist í því að ég hef verið einstaklega kvenheppinn.“

Börn Sigurðar og Halldóru eru 1) Sigurður Sigurðarson f. 1.6. 1969, tamningamaður, reiðkennari og hrossaræktarbóndi á Fosshólum í Holtum, giftur Sigríði Arndísi Þórðardóttur talmeinafræðingi, f. 3.12. 1977, börn þeirra eru Vilborg María, f. 1999, Sigurður Matthías, f. 2004, og Dagur, f. 2008. Börn Sigurðar með fv. sambýliskonu, Anítu Pálsdóttur, eru Róbert, f. 1992, og Rakel Dóra, f. 1998; 2) Ragnhildur Sigurðardóttir, f. 21.6. 1970, grunnskólakennari og golfkennari á Íslandi og Spáni, búsett í Mosfellsbæ ásamt sambýlismanni sínum, Jóni Andra Finnssyni smið, f. 11.3. 1973, börn hennar með fv. sambýlismanni, Þorvarði Friðbjörnssyni, eru Hildur Kristín, f. 1992 og Lilja, f. 1994. Dætur Jóns Andra eru Alexandra, f. 1995, og Sara Sif, f. 2001; 3) Einar Sverrir Sigurðarson, f. 3.9. 1973, bifvélavirkjameistari og rekur Bifreiðaverkstæði Reykjavíkur, giftur Steingerði Ingvarsdóttur, líffræðingi og fjármálastjóra, f. 15.1. 1974. Börn þeirra eru Daníel Freyr, f. 1994, Elísabet Líf, f. 1999, Ingvar Sverrir, f. 2005, og Halldór Sverrir, f. 2013; 4) Sölvi Sigurðarson, f. 12.1. 1978, reiðkennari og tamningamaður, nýfluttur heim frá Danmörku. Sambýliskona Sölva var Álfhildur Leifsdóttir og börn þeirra eru Halldóra, f. 2006, Sindri, f. 2007, og Katla, f. 2013.

Bróðir Sigurðar er Skúli Jón Sigurðarson, f. 20.2. 1938, fyrrv. framkvæmdastjóri hjá Flugmálastjórn og fyrrv. formaður Rannsóknarnefndar flugslysa, kvæntur Sjöfn Friðriksdóttur kennara.

Foreldrar Sigurðar voru hjónin Sigurður Jónsson, f. 8.1. 1909, d. 24.10. 1939, bóndi og smiður á Sigurðarstöðum i Bárðardal, og Kristín Skúladóttir, f. 30.3. 1905, d. 13.6. 1995, farkennari í Landeyjum og Flóa og síðast í Hemlu. Síðari maður Kristínar var Ágúst Andrésson, bóndi í Hemlu.