Bleikur listamánuður hefst í Bústaðakirkju í dag og stendur út október. Boðið verður upp á ýmsa listviðburði með það að markmiði að minnast þeirra sem glímt hafa við krabbamein og til stuðnings þeim sem standa í glímunni miðri. Í dag kl. 12.05 koma fram Jóhann Friðgeir, Hlöðver Sigurðsson, Marteinn Snævarr og Örn Árnason undir yfirskriftinni „Tenórar í stuði“.
Á sunnudaginn kemur Karlakórinn Tónbræður fram í messu kl. 14 og flytur tónlist úr óperum og söngleikjum þar sem mikið fer fyrir drama og ást. Sérstakur gestur er Kristján Jóhannsson tenór. Um miðjan mánuð, sunnudaginn 13. október, verður haldin Listahátíð barnanna. Og í hádeginu 16. október kl. 12.05 minnist Kammerkór Bústaðakirkju Atla Heimis Sveinssonar tónskálds.