Þór Þorsteinsson
Þór Þorsteinsson
Eftir Þór Þorsteinsson: "Stefna félagsins er fyrst og fremst sú að standa undir merkjum og hafa fjárhagslega burði til þess að slysavarna- og björgunarstarf geti áfram þrifist í landinu með hag almennings að leiðarljósi."

Þegar rennt er yfir rúmlega aldarlanga sögu skipulagðs slysavarna- og björgunarstarfs á Íslandi má finna ýmsar vörður sem rétt er að staldra við. Ein þeirra er stofnun Slysavarnafélagsins Landsbjargar fyrir 20 árum við sameiningu Landsbjargar og Slysavarnafélags Íslands, 2. október árið 1999. Þessi sameining markaði mikil tímamót því upp frá þeim hafa aðeins ein samtök sjálfboðaliða komið að skipulagi og framkvæmd leitar og björgunar á landinu og í kringum það.

Hvar stendur félagið í dag?

„Hvaðan kom hann, hvert er hann að fara, hver er hann?“ er setning Adolfs Inga íþróttafréttaritara frá árinu 2010 sem síðan er orðin að orðatiltæki í íslenskri tungu. Þessi orð voru sögð í hita leiks en innihalda þó þær þrjár lykilspurningar sem samtök eins og Slysavarnafélagið Landsbjörg þurfa reglulega að spyrja sig.

Hvaðan við komum er spurning sem ekki er hægt að svara í lítilli blaðagrein enda hefur henni áður verið svarað skilmerkilega. En hver erum við? Félagið hefur náð miklum árangri síðustu áratugina í að efla björgunar- og slysavarnastarf í landinu og leggur síaukna áherslu á aukið samspil þessara tveggja þátta sem í fljótu bragði kunna að sýnast ólíkir en eru í raun órjúfanlegir. Unglingastarf félagsins er einnig í miklum blóma og hefur félagið haft uppbyggileg áhrif á gríðarlegan fjölda ungra einstaklinga í gegnum tíðina með því starfi. Rekstur Slysavarnaskóla sjómanna er einnig stór þáttur í starfi félagsins og ein af skrautfjöðrum þess. Samvinna félagsins við aðra viðbragðsaðila á landinu fer einnig vaxandi samhliða auknu og gagnkvæmu trausti og skilningi.

Hvert stefnir félagið?

Slysavarnafélagið Landsbjörg byggir á félagslega mjög sterkum grunni. Aðildarfélög þess eru rúmlega 90 björgunarsveitir og hátt í 40 slysavarnadeildir um allt land. Stefna þess er ekki ákveðin af stjórn félagsins hverju sinni heldur af aðildareiningum þess sem koma reglulega saman til að skilgreina starfið og verkefnin framundan. Þau verkefni hafa bæði vaxið að umfangi og fjölda í takt við fjölgun erlendra ferðamanna sem og aukna útivist Íslendinga síðustu ár bæði hvað varðar björgunarstörf og slysavarnir.

Annað verkefni sem framundan er tengist björgunarskipaflota félagsins. Þörfin fyrir endurnýjun þeirra eykst með hverju ári og nú stefnir félagið að endurnýjun þeirra á næstu árum. Ef áætlanir ganga eftir verður um að ræða stærsta fjárfestingarverkefni í sögu félagsins og því verður ekki hrundið í framkvæmd án mikils stuðnings ríkisins sem og annarra aðila.

Fjárhagslegt öryggi félagsins er og verður alltaf stór hluti af stefnu þess. Ríkið leggur félaginu til ákveðið fjármagn á ári hverju til ýmissa samningsbundinna verkefna og þó svo að félagið sé þakklátt fyrir þann stuðning hrökkva þær upphæðir skammt til rekstrar þess og aðildareininganna.

Það er ekki hægt að velta því fyrir sér hvert félagið stefnir án þess að nefna tengsl þess við samfélagið. Helstu fjáraflanir félagsins og eininga þess byggjast á velvild fólks í okkar garð og við gerum okkur fulla grein fyrir því að sú velvild er því háð að við stöndum undir merkjum okkar.

Nokkrar blikur eru þó á lofti er kemur að rótgrónum fjáröflunum félagsins og meðal annars á sú langstærsta þeirra undir högg að sækja þessi misserin. Innflutningur og sala flugelda er háð sífjölgandi innlendum og evrópskum reglugerðum og hefur félagið ávallt fylgt þeim í einu og öllu. Félagið hefur einnig oft á tíðum haft frumkvæði að ýmsum aðgerðum til að minnka umhverfisáhrif af þeirri rótgrónu hefð okkar að kveðja árið með flugeldum og mun halda þeirri vinnu áfram.

Félagið gerir sér fulla grein fyrir því að flugeldanotkun á gamlársdag veldur mengun sem þó minnkar ár frá ári. Stærstu tækifæri til þess að draga enn meir úr mengun á þessum degi ársins liggja hinsvegar sennilega á öðrum sviðum og mætti horfa til bæði fjölda og staðsetninga áramótabrenna í því samhengi. Svo skulum við ekki gleyma þeim þáttum í umhverfi okkar sem menga líka alla hina daga ársins.

Stefna félagsins er fyrst og fremst sú að standa undir merkjum og hafa fjárhagslega burði til þess að slysavarna- og björgunarstarf geti áfram þrifist í landinu með hag almennings að leiðarljósi. Því má segja að félagið og þjóðin séu hvort öðru háð og geti ekki hvort án annars verið. Mér þykir það góð tilfinning.

Að lokum langar mig að óska félagsfólki Slysavarnafélagsins Landsbjargar til hamingju með 20 ára afmæli félagsins í þeirri mynd sem við þekkjum það sem og að þakka þjóðinni fyrir ómetanlegan stuðning við starf okkar í gegnum tíðina. Vinnuveitendur sjálfboðaliða okkar fá einnig sérstakar þakkir fyrir þeirra magnaða framlag að hleypa björgunarsveitafólki okkar síendurtekið úr vinnu til að sinna útköllum.

Höfundur er formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar.

Höf.: Þór Þorsteinsson