Jófríður Guðmundsdóttir, Fríða, fæddist í Reykjavík 3. september 1966. Hún lést á blóðsjúkdómadeild Landspítalans á Hringbraut 19. september 2019.

Foreldrar hennar voru hjónin Guðmundur Óskar Jónsson, f. 23. september 1929, d. 25. maí 2013, og Margrét Júlíusdóttir, f. 17. apríl 1935, d. 29. júní 2010, bændur á Bjarnastöðum í Hvítársíðu.

Systur Fríðu eru Hrefna Halldórsdóttir, f. 25. september 1955, búsett í Reykjavík. Arndís, f. 6. september 1968, gift Sigurði Rúnari Gunnarssyni, búsett á Bjarnastöðum. Hrafnhildur, f. 29. september 1972, gift Jóhannesi Kristleifssyni búsett á Sturlureykjum.

Hinn 3. maí 2013 gekk Fríða í hjónaband með Davíð Guðmundi Sverrissyni Röed, f. 19. janúar 1965, en þau hófu sambúð 6. apríl 1991. Foreldrar Davíðs voru Sverrir Kjartansson, f. 8. maí 1924, d. 28. ágúst 2013, og Ragnhild Johanne Röed, f. 26. júlí 1924, d. 27. mars 2015.

Dóttir Jófríðar og Davíðs er Hulda Rún, f. 7. mars 1997.

Fríða ólst upp á Bjarnastöðum og stundaði grunnskólanám í Varmalandsskóla þar sem hún var í heimavist. Hún fór til náms við Fjölbrautaskóla Vesturlands og lauk útskrift þaðan vorið 1986. Árið 1987 hóf hún nám við hótelskóla, IHTTI School of Management, í Sviss þar sem hún dvaldi frá árinu 1987 til ársins 1990 og útskrifaðist þaðan með gráðu í hótelstjórnun.

Á námsárunum starfaði hún m.a. í Austurríki og Noregi við hin ýmsu hótelstörf. Eftir námsárin í Sviss starfaði Fríða við hótelstörf í Abú Dabí þar til stríðsátök hófust í Írak 1990 en fór þá til Íslands og hóf störf sem hótelstýra í Reykjavík. Síðar hóf hún störf hjá P. Samúelssyni, umboðsaðila Toyota á Íslandi. Eftir það starfaði hún hjá Eimskip til ársins 2003 en þá varð hún að hætta vinnu vegna veikinda.

Úför Fríðu fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 2. október 2019, klukkan 11.

Fríðu frænku fylgdi birta. Hún var glaðlynd, jákvæð, skipulögð, röggsöm og hafði afskaplega góða nærveru.

Það var snemma sem ég sótti fast að Bjarnastöðum því þar var nóg að gera, nóg um að vera og ég örverpið sótti í félagsskap systranna. Fríða var 7 árum eldri en ég og því var það ekki fyrr en hún kom heim með skírteinið úr hótelskólanum að við fórum að nálgast hvor aðra í aldri. Það var gott að sækja Fríðu heim og vera í félagsskap hennar og voru það ófáir dagarnir sem við eyddum saman þann tíma sem ég stundaði framhaldsnám í Reykjavík og árin þar á eftir. Við bjuggum saman, unnum saman, ferðuðumst saman og við vorum svona frænku-vinkonu-systur, ólýsanlega sterk taug þó svo að lengst og styst hafi í henni til og frá í gegnum árin þegar lífið þýtur hjá. Þegar Fríða kynntist Davíð sínum og þau fóru að búa var ég heimagangur hjá þeim. Kom gjarnan eftir vinnu eða skóla, snarlaði með þeim og oftar en ekki náði ég blundi því hjá þeim leið mér vel og næstum því eins og að vera heima í foreldrahúsum. Davíð fylgdi fjölmennur vinahópur, einvala lið, og þegar allir voru mættir á Bræðraborgarstíginn var iðulega stuð og gaman. Ef eitthvað stóð til og þá sérstaklega í matargerð eða þess háttar þá talaði maður við Fríðu frænku og iðulega kom hún að veisluhöldum mínum á einn eða annan hátt. Ef það var ekki undirbúningur þá voru það uppskriftir, útlit, nýtni, samsetning og allt það. Þarna var hún svo sannarlega á heimavelli. Og svo var hún bara svo traust. Fríða hugsaði svo vel um alla í kringum sig, vildi ekki að neinum liði illa og vildi allt fyrir alla gera svo framarlega sem hún gat.

Í 16 ár var Fríða með leiðinlegan farþega, krabbaskrattann. Hún tók bardaga við hann og ætlaði aldrei að láta hann sigra. Það var ekki í hennar orðabók að gefast upp eða að tala mikið um hann og láta vorkenna sér. Síðasta baráttan fór af stað í vor, þegar hún tókst á við sína aðra stofnfrumumeðferð. Hún ætlaði sko að klára hana bara í maí/júní og nota svo restina af sumrinu til að byggja sig upp, njóta í sveitinni með „hvítt“ og bara pakka þessu dýri saman... en hér erum við í dag. Síðasta spjallið okkar var gott og ég var glöð að fá að kveðja þig en við upphaf þeirrar heimsóknar spyr Fríða mig: „Ertu komin til að kveðja mig?“ og við lok þeirrar heimsóknar þökkuðum við hvor annarri fyrir allt.

Ég er fyrst og fremst þakklát fyrir að hafa fengið að ferðast í gegnum lífið með Fríðu. Að hafa fengið að njóta samverustunda, visku, jákvæðni, gleði og stuðnings þegar á þurfti að halda og þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að stytta henni stundirnar í veikindunum nú í sumar og fengið að sitja með henni síðustu stundirnar hérna megin með hennar nánustu.

Takk fyrir allt, mín kæra.

Sigríður Guðbjörg

Bjarnadóttir

(Sigga frænka í Borgarnesi).

Fríða mágkona mín var ein af þessum hvunndagshetjum sem sjaldan er skrifað um í fjölmiðlum. Þegar hún greindist með alvarlegan sjúkdóm ung að árum var það mikið áfall fyrir hana og alla fjölskylduna. Við tóku mörg ár læknismeðferða og aðgerða sem tóku sinn toll. Aðspurð sagðist Fríða þó alltaf hafa það gott, hún vildi lítið tala um veikindi sín en lagði áherslu á að njóta hverrar stundar og skapa góðar minningar með ástvinum sínum.

Fríða hafði ávallt eitthvað fyrir stafni. Hún fór í kór sem veitti henni mikla gleði og þar eignaðist hún góða vini. Hún prjónaði og saumaði og bjó til bakstra og augnhvílur og seldi. Fríða hafði m.a. lokið námi í hótel- og veitingaskóla í Sviss og hafði áhuga á matargerð. Þau hjón höfðu yndi af því að bjóða fólki heim og var þá gjarnan eitthvað nýstárlegt borið fram. Ef það var afmæli eða boð í fjölskyldunni var hún alltaf fyrst til að bjóðast til að koma með eitthvað. Þetta eitthvað var síðan ávallt glæsilegt og ekki skorið við nögl. En viðkvæðið hjá Fríðu var að þetta væri nú ekkert mál. Bara gaman.

Hún elskaði sveitina sína og naut þess að fara í bústaðinn í Hvítársíðu og taka þátt í viðburðum í sveitinni. Fríða var ákveðin, sterk og eftirminnileg kona. Hún var alltaf svo jákvæð og ávann sér mikla virðingu allra sem henni kynntust fyrir það hvernig hún tókst á við lífið. Þannig vil ég muna Fríðu, blessuð sé minning hennar.

Hildur Sverrisdóttir.

Jófríður, Fríða, Frieda. Hvað er hægt að segja um þessa konu?

Lífsglöð, skapandi, jákvæð, hláturmild, ósérhlífin, drífandi og þrautseig en kannski fyrst og fremst algjör hetja.

Luzern-hópurinn sem telur um hundrað manns hefur syrgt undanfarna daga og það hafa borist kveðjur og bænir úr öllum heimshornum á samfélagsmiðlum. Þó að þrír áratugir séu liðnir frá Royal árunum þá er vináttan og hlýjan enn sem fyrr í þessum hópi. Öll minnumst við einstakrar konu, góðs félaga og vinar. Við fylgdumst með baráttunni í gegnum árin, vonuðum og báðum fyrir hinu besta en óttuðumst það versta. Lífið getur verið svo ósanngjarnt og dauðinn tilgangslaus.

Við minnumst góðu stundanna í Sviss þar sem lífið snerist að mestu um næsta partí og djamm – helst með skólatöskurnar. En líka lærdóm og stundum þrældóm, próflestur, langar eldhúsvaktir, veislur með tilheyrandi flissi og gríni að því steinrunna þjóðfélagi og hefðum sem er að finna í hjarta Evrópu. Við fórum í ferðalög um meginlandið í leit að nýjum ævintýrum. Við tókum þátt í öllu, gerðum allt, vildum vera eins og Svisslendingarnir á páskaföstu og Fríða sneið og saumaði að sjálfsögðu grímubúninga á okkur öll. Hún gat allt, þessi kona.

Við vorum spennt fyrir framtíðinni, öll nýorðin tvítug og við vildum sjá heiminn og læra og breyta. Fríða fór til Mið-Austurlanda, óttaðist ekkert en sjálfstæð kona þreifst ekki þar. Ísland var hennar land.

Hún hafði alltaf skoðanir, hún Fríða og þá eins og nú var hún alltaf að velta fyrir sér möguleikum og breytingum, hvort sem það voru matseðlar og framreiðsla á fínustu hótelum í Sviss eða matseðlar hjá mötuneyti Landspítalans sem hún öðlaðist yfirburða þekkingu á.

Að leiðarlokum kveðjum við hana með Feuerküss og þökkum fyrir að hafa átt Fríðu að samferðakonu og vinkonu.

Blessuð sé minning hennar og Guð geymi ykkur, elsku Davíð og Hulda Rún.

Árni S., Gunnar Valur, Kristín, Pétur, Magnea

Þórey og Sigrún Björk.

Eftir hetjulega, áralanga baráttu hefur mín kæra vinkona þurft að láta í minni pokann. Mér er orða vant andspænis þeirri staðreynd að hún Fríða er farin frá okkur sem hérna megin erum og höfðum vonast til að hafa meiri tíma með henni.

Kynni okkar hófust þegar tvær sveitastelpur sín úr hvorri áttinni settust hlið við hlið í skólastofu í Fjölbrautaskólanum á Akranesi.

Verkefnið var framhaldsskólalíf næstu fjögur árin sem vonandi lyki með stúdentsprófi. Við vorum að hefja nýjan kafla í lífinu á leiðinni til fullorðinsáranna. Í ljós kom að við vorum samferða í ansi mörgum fögum og við toguðum hvor aðra í gegnum misskemmtileg fög. Úr varð mikil og góð vinátta.

Við vorum líka samferða í áhugamálunum og utan skólastofunnar var gaman að vera til, voru þessi ár nýtt til að kanna hvað skemmtanalífið hafði upp á að bjóða, með kínverskt rauðvín í æðunum og UB40 í huganum vorum við færar í flestan sjó. Þegar stúdentsprófinu lauk breyttist samband okkar aðeins. Eins og stundum vill verða lágu leiðir okkar sín í hvora áttina, m.a.s. sín í hvora heimsálfuna, menntuðum við okkur meira, eignuðumst börn og buru og vorum í önnum að lifa lífinu. Hvað svo sem sagt verður um samfélagsmiðla nútímans, þá var það Facebook sem tengdi okkur saman að nýju. Þó við höfum alltaf vitað hvor af annarri höfðu samskiptin ekki verið mikil né tíð. Það breytti þó engu að þegar við létum verða af því að hittast var um svo margt að spjalla og mörg málefni að kryfja og rifja upp að við sólbrunnum báðar á vörunum, malandi á pallinum við bústaðinn í Hvítársíðunni. Þannig var okkar vinátta, þráðurinn slitnaði aldrei og eftir að styttra varð á milli okkar í vegalengdum urðu samskiptin meiri og tíðari.

Fríða var alltaf þessi jákvæða bjartsýna manneskja sem gott var að vera návistum við. Þó lífið hafi úthlutað henni stórum og erfiðum verkefnum skein alltaf í gegn hennar góða lund, óþrjótandi bjartsýni og glettni. Nýtti minnkandi starfsorku til að skapa sér verkefni sem hún gat sinnt heima, Fríðu fínerí, sem gott er að hafa nálægt sér nú sem áður.

Hún nýtti tímann sinn vel, vissi sem var að hann gæti verið naumt skammtaður. Þegar við hittumst síðast var hún búin að ganga í gegnum stranga meðferð, orðin miklu betri eins og hún orðaði það sjálf, samt ekki alveg komin fyrir vind. Hún var samt engan veginn af baki dottin, sýndi mér stolt verkefni sem hún var að vinna að og fylla á lagerinn, einnig ný verkefni sem hún var spennt að hanna og þróa áfram. Hver veit nema hún sé enn að störfum.

Þar sem englarnir syngja sefur þú

sefur í djúpinu væra.

Við hin sem lifum, lifum í trú

að ljósið bjarta skæra

veki þig með sól að morgni.

(Bubbi Morthens)

Elsku vinkona, söknuðurinn er mikill hjá okkur sem eftir stöndum, mestur þó hjá þeim feðginum Davíð og Huldu Rún. Þeim og aðstandendum öllum votta ég mína dýpstu samúð. Þrautum og þjáningum elsku Fríðu er lokið og hún á góðum stað þar sem verkir og þrautir eru úr sögunni. Þakklæti fyrir samfylgdina, elsku vinkona, blessuð sé minning þín.

Guðný Rún Sigurðardóttir.