Færri útlán banka til fyrirtækja geta valdið auknu framboði skuldabréfa sem getur hækkað ávöxtunarkröfuna.
Færri útlán banka til fyrirtækja geta valdið auknu framboði skuldabréfa sem getur hækkað ávöxtunarkröfuna. — Ljósmynd/Samsett
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Útlán innlánsstofnana til fyrirtækja hafa minnkað um 52% á fyrstu átta mánuðum ársins. Getur það leitt til aukins framboðs skuldabréfa fyrirtækja.

„Það lítur út fyrir að það séu líkur á að framboð verði meira en eftirspurn á skuldabréfamörkuðum á komandi misserum. Það er heldur ólíkt því sem hefur sést síðustu ár, þegar eftirspurn hefur verið meiri en framboð á íslenskum skuldabréfamörkuðum.“ segir Sigurður Örn Karlsson, áhættustjóri Almenna lífeyrsissjóðsins. Slík þróun gæti skapað þrýsting á hærri ávöxtunarkröfur. Hann bendir þó á að spár er varða skuldabréfamarkaðinn séu „mikilli óvissu háðar“.

Sigurður Örn segir vísbendingar vera um að bankaútlán til fyrirtækja verði færri á næsta ári en á þessu ári. „Á móti kemur að framboð fyrirtækjaskuldabréfa verður meira fyrir vikið. Við sjáum til að mynda tölur um að nettó ný útlán innlánsstofnana til fyrirtækja hafi lækkað um einhver 52% á bara fyrstu átta mánuðum þessa árs borið saman við sama tíma í fyrra.“ Bendir hann á að nettó ný útlán til fyrirtækja hafa ekki verið minni síðan 2014.

Bankarnir halda að sér höndum

Margir þættir hafa haft áhrif á þróun í fjölda útlána til fyrirtækja á árinu, að sögn áhættustjórans. „Það hefur vissulega verið mikil óvissa í upphafi árs, bæði út af ferðaþjónustunni og kjarasamningunum, sem þá voru óleystir, auk falls WOW á vormánuðum.“ Hann bætir við að bankarnir hafi haldið að sér höndum það sem af er ári meðal annars með auknum eiginfjárkröfum. „Þetta eru þeir helstu þættir sem benda til þess að líkur séu á því að skuldabréfum fyrirtækja fari að fjölga. Ef innlánsstofnanir eru ekki að veita ný lán þá verður að leita til annarra þjónustuaðila og þá eru kannski stærstu fyrirtækin að fara út á skuldabréfamarkaðinn með útgáfu [eigin bréfa] eða í gegnum einhverja skuldabréfasjóði.“

„Við sjáum að Hagar eru í skuldabréfaútboði núna og fasteignafélögin hafa verið öflug í skuldabréfaútboðum að undanförnu og hafa einmitt staðið að fyrirtækjabréfunum ásamt sveitarfélögunum,“ útskýrir Sigurður Örn.

Eykur áhættudreifingu

„Að öllu jöfnu ætti þetta að leiða til þess að [ávöxtunar]krafan færi upp. En ég er ekki viss um að það gerist í þessu tilfelli því bankarnir myndu hugsanlega sjálfir vera á kaupendahliðinni. Í stað þess að þeir láni beint,“ segir Már Wolfgang Mixa, lektor í fjármálum við Háskólann í Reykjavík. Hann segir ýmsa kosti fylgja því fyrir bankana að taka þátt sem kaupendur í skuldabréfaútboðum, meðal annars að bankinn geti hagnast á vaxtamismun án þess að bankinn sé bundinn stærri fjármagnskostnaði útlána. „Að sumu leyti er þetta jafnvel ákveðin hagræðing í bankakerfinu, því það gætu verið sérhæfðar einingar sem myndu sjá um þessi skuldabréf í stað þess að bankarnir sjálfir myndu fara í gegnum alla þá greiningu sem á sér stað þegar útlán eru annars vegar,“ segir Már og bætir við að það sé „ekkert sjálfgefið að krafan breytist við þetta og að áhrifin verði gífurleg“.

„Þetta gæti einnig aukið áhættudreifingu í lánasafni bankanna, þeir þurfa ekki að reiða sig á einhverja stóra viðskiptavini í þessum efnum og með stóra stöðu eins og nýleg dæmi – meðal annars í flugrekstri – hafa sýnt að geta verið mikið högg fyrir einstaka banka,“ útskýrir lektorinn.

Hann segir það „ekki ólíklegt“ að stofnaðir verða sérstakir fyrirtækjaskuldabréfasjóðir ef framboð slíkra skuldabréfa vaxi mikið. „Hingað til hafa fyrirtækjaskuldabréfasjóðir oftast verið í viðskiptum með skammtímaskuldabréf allt niður í víxla. Ég sé nú fyrir mér að það gæti aukið eftirspurn eftir þessum nýju skuldabréfum meðal verðbréfasjóða,“ segir Már og bætir við að bæði lífeyrissjóðir og almenningur gætu séð hag sinn í að setja hluta eigna sinna í slík skuldabréf eða skuldabréfasjóði.