Garðaskóli Lagfæringar á mötuneyti starfsfólks hafa ekki verið í forgangi í þeim miklu lagfæringum sem gerðar hafa verið á húsnæði skólans.
Garðaskóli Lagfæringar á mötuneyti starfsfólks hafa ekki verið í forgangi í þeim miklu lagfæringum sem gerðar hafa verið á húsnæði skólans. — Ljósmynd/Garðaskóli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Starfsmannafélag Garðaskóla vekur athygli á slæmum aðbúnaði í eldhúsi starfsmanna og skorar á bæjarstjóra Garðabæjar og bæjarráð að grípa án tafar til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Starfsmannafélag Garðaskóla vekur athygli á slæmum aðbúnaði í eldhúsi starfsmanna og skorar á bæjarstjóra Garðabæjar og bæjarráð að grípa án tafar til nauðsynlegra aðgerða til úrbóta. Erindið var tekið fyrir á fundi bæjarráðs í gærmorgun og var vísað til bæjarstjóra og til nánari skoðunar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.

Meindýr sést í eldhúsi

65 starfsmenn eru við Garðaskóla og er sérstakt eldhús og borðsalur fyrir þá. Starfsmannafélagið telur að ekki verði lengur unað við núverandi stöðu. Vakin er athygli á slæmri aðstöðu matráðs til eldamennsku og annarra starfa, tækjakosti, loftræstingu og hreinlætisaðstöðu. Fram kemur að ítrekað hafi orðið vart við meindýr, svo sem mýs og silfurskottur. Vegna athugasemda Heilsbrigðiseftirlits nú í september hafi eldhúsi starfsmanna verið lokað um ótiltekinn tíma.

Þá kvarta starfsmenn yfir þröngri aðstöðu við að matast, salernisaðstöðu og fatahengi.

Framkvæmt fyrir 250 milljónir

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar, segir að lagt hafi verið í verulegar framkvæmdir við Garðaskóla, framkvæmt hafi verið fyrir 250 milljónir á síðustu fjórum árum. Allar hafi framkvæmdirnar verið unnar í góðu samstarfi við stjórnendur skólans. Einnig verði unnið úr ábendingum starfsmanna í góðu samstarfi við stjórnendur skólans og starfsfólk.

Bæjarstjórinn getur þess að framkvæmd mötuneytismála sé með ýmsum hætti í Garðabæ. Nemendur og starfsmenn Sjálandsskóla hafi til dæmis fengið mat frá Skólamat um árabil og af því sé góð reynsla. Nemendur Garðaskóla fái mat úr nýuppgerðu eldhúsi í skólanum. Starfsmenn fái mat þaðan á meðan eldhús þeirra sé lokað. Gunnar veltir því hins vegar fyrir sér hvort rétt sé að hafa tvö fullbúin eldhús í sama skóla enda geti nýja eldhúsið annað nemendum og starfsfólki.

Réttur samskiptamáti?

„Við erum stolt af innra starfi skólanna og viljum skapa þeim góða umgjörð,“ segir Gunnar. Hann veltir því fyrir sér hvort samskiptamátinn sé réttur. Í eldgamla daga hafi verið bréfaskriftir á milli stofnana og yfirstjórnar en það hafi færist yfir í það að menn hafi rætt saman um viðfangsefnin enda vinni allir hjá sama fyrirtækinu.

„Það er eðlilegt að fram fari viðræður við gerð fjárhagsáætlunar og þá sé framkvæmdum forgangsraðað. Það kom mér á óvart að fá bréf frá starfsmönnum þar sem við höfum í gegn um tíðina verið í góðu sambandi við skólastjórnendur um það sem þarf að laga,“ segir Gunnar Einarsson.