Auka þarf áhuga kvenna á sjósókn og verða fyrirmyndirnar að vera sýnilegri.
Auka þarf áhuga kvenna á sjósókn og verða fyrirmyndirnar að vera sýnilegri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Auk þess að vera engir eftirbátar karla um borð í nútímaskipum þá virðist sennilegt að með konur í áhöfn megi reikna með að skip verði á margan hátt betri og öruggari vinnustaðir.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is
Auk þess að vera engir eftirbátar karla um borð í nútímaskipum þá virðist sennilegt að með konur í áhöfn megi reikna með að skip verði á margan hátt betri og öruggari vinnustaðir.
Það er ekkert því til fyrirstöðu að jafna hlutfall kynjanna á sjó og það gæti, að sögn Ástu Þorleifsdóttur, haft ýmis jákvæð áhrif á lífið um borð, og m.a. bætt öryggisvitund ef konur eru í áhöfn.

Ásta er sérfræðingur hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og varaformaður Siglingaráðs. Hún tók þátt í að skipuleggja áhugaverða ráðstefnu sem haldin var í síðustu viku: Konur og siglingar; hvað er svona merkilegt við það? Ráðstefnan er haldin í tilefni af átaksári Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar sem miðar að því að efla konur á sjó.

Þegar opinberar tölur eru skoðaðar má sjá að mjög hallar á konur í áhöfnum skipa, og á það sennilega stærstan hlut í að skýra kynbundinn launamun í greininni. „Í gögnum Hagstofu kemur fram að um 8,9% sjómanna eru kvenmenn, og er það raunar hærra hlutfall en ég átti von á,“ segir hún. „Er þá líka eftir að telja með áhafnir fraktskipa og farþegaskipa. Munurinn verður síðan enn meiri þegar við skoðum hvernig kynjahlutföllin eru í menntun tengdri sjósókn. Af þeim sem hafa lokið skipstjórnarnámi eru ekki nema 1% konur, og aðeins 0,3% útskrifaðra vélstjóra.“

Varð karlastarf við vélvæðingu

Ásta bendir á að sjómennskan hafi samt ekki alltaf verið karlastarf og ekki ósennilegt að fyrr á tímum hafi ríkt nokkurt jafnræði í sjósókn enda verið að draga björg í bú úr góðri matarkistu. Í sögubókunum eru ófá dæmi um þekkta kvenkyns skipstjóra, eða formenn eins og starfið hét þegar róið var til sjós á litlum árabátum. „Þetta eru konur eins og Þuríður formaður Einarsdóttir og Halldóra Ólafsdóttir sem einnig þótti sérlega fiskin. Hún reri á Breiðafirði oft með kvenáhöfn og voru jafnvel sérsmíðaðir sérstakir kvennabátar sem voru léttari og breiðari en róðrarbátar almennt,“ útskýrir Ásta.

Hlutföllin breytast síðan með vélvæðingu flotans og segir Ásta sennilegt að það hafi tengst þeim breytingum sem urðu almennt á lífi Íslendinga með þessum tækniframförum. „Það var sennilega af lífsnauðsyn að konur sóttu sjó til jafns við karla á öldum áður, en með batnandi lífskjörum breyttust heimilishagir landsmanna svo konurnar gátu dvalið heima til að gæta bús og barna á meðan karlarnir sinntu þessu krefjandi og oft hættulega starfi.“

Svo virðist sem hlutfall kvenna í sjómannastétt hafi náð botni í upphafi 8. áratugarins og segir Ásta að þá hafi aðeins mátt finna tíning af kvenfólki á sjó, þá einkum í stöðum matsveina. „Það á sér ýmsar skýringar hvers vegna vélvæðing fækkaði konum, en svo undarlegt sem það kann að virðast nægir þar að nefna að konum var óheimilt að stunda vélstjóranám allt fram til ársins 1974.“

Ójafnri kynjaskiptingu fylgja ýmsir gallar, og nefnir Ásta þann augljósasta; að launin á sjó eru yfirleitt langtum betri en launin í landi. „Hjá engum geira í íslensku atvinnulífi er launamunur kynjanna meiri en fiskveiðum og -vinnslu. Í sjávarbyggðum eru heildarlaun kvenna um helmingur af heildarlaunum karla, sem stafar m.a. af því að sá sem vinnur við færibandið í fiskvinnslu í landi fær greidd rétt rúmlega lágmarkslaun á meðan sá sem vinnur sambærileg störf við færiband um borð í skipi fær greiddan aflahlut. Konur á sjó fá nákvæmlega sömu laun og karlar og má segja að þar ríki jafnlaunastefna með aflahlutarkerfinu.“

Ásta bendir jafnframt á að hærri tekjur snúist um meira en eintóma peninga. Auknar tekjur veiti konum aukinn styrk og meira sjálfstæði, meiri áhrif innan síns nærsamfélags og greiði þeim leið að alls kyns tækifærum.

Gefa körlunum ekkert eftir

En hvað er það þá sem veldur að ekki eru fleiri konur sem sækja sjóinn? Þeim er varla meinað um að fá pláss ef þær sækjast eftir því, eða hvað? Ásta segir raunar til dæmi þess að þeim konum sem vilja starfa við fiskveiðar hafi verið mismunað, og jafnvel hlátur heyrst frá hinum enda línunnar þegar þær hafa hringt í hvert útgerðarfélagið á fætur öðru. En svo er líka hitt, að konur kunna að sýna starfi sjómannsins minni áhuga af því þær telja vinnuna hættulegri og erfiðari en hún er. Líklegasta skýringin er þó sú, að mati Ástu, að fyrirmyndir skortir. „Það kann að vera að á síðustu öld hafi mörg handtökin um borð kallað á mikinn líkamlegan styrk, en vinnuumhverfið er allt annað á tæknivæddum skipum dagsins í dag. Þar sem konur hafa fengið að komast að hefur þeim gengið vel og þær ekki verið neinir eftirbátar karlanna. Man ég eftir sögu af einni sem var borið það á brýn að vera algjör aumingi, svo hún tók sig til og si svona dró þvert yfir þilfarið toghlera sem alla jafna var færður milli staða með krana. Líkamlegt atgervi fer svo að skipta enn minna máli í stöðum yfirmanna, þegar komið er upp í stöðu stýrimanns eða skipstjóra sem verja nær öllum vinnutíma sínum í brúnni. Það er heldur ekkert því til fyrirstöðu að konur séu vélstjórar í nútíma tæknivæddum vélarrýmum.“

Hvað með andrúmsloftið um borð? Fer ekki það orðspor af sjómönnum að vera hálfgerðir durgar og klámhundar? „Þar sem konur hafa verið í áhöfn hefur yfirleitt verið samhljómur um að nærvera þeirra hafi haft góð áhrif, gert aðra áhafnarmeðlimi kurteisari í samskiptum sín á milli og orðið þeim hvati til að huga betur að sjálfum sér. Það sem mest munar um er samt að með konur um borð virðist sem dragi úr áhættuhegðun hjá körlunum,“ segir Ásta. „Í frásögnum kvenna má líka iðulega heyra að það geti verið erfitt ef aðeins ein kona er um borð, en andrúmsloftið gjörbreytist um leið og þær eru orðnar tvær eða fleiri. Virðist það eiga við um skip eins og aðra vinnustaði að jafnari blöndun kynjanna skapar betri anda heilt yfir og hefur þau áhrif að fólk annast sjálft sig betur, sem má svo álykta að hafi jákvæð áhrif á afköst, framlegð og starfsánægju.“

Að mati Ástu er besta leiðin til að fjölga konum á sjó að gera fyrirmyndirnar sýnilegri, og kynna ungum stúlkum það sem raunhæfan og góðan kost að leggja fyrir sig sjómennsku, og að sjálfsögðu veita þeim færi á skipsrúmi. „Við þurfum að byrja snemma og kynna grunnskólabörnum miklu betur möguleikana sem felast í námi í vélstjórn eða skipstjórn,“ segir hún og vísar til góðs árangurs herferðarinnar #kvennastarf sem Samtök iðnaðarins, Tækniskólinn og fleiri efndu til fyrir tveimur árum til að reyna að vekja áhuga stúlkna á iðnnámi. „Það breytir strax svo miklu þegar stúlkur hafa konur á sjó sem fyrirmyndir; sýnir þeim hvað er hægt og hvetur þær til að láta ekkert stöðva sig.“