Ómar Friðriksson omfr@mbl.

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Skólastjórnendur við grunnskóla í Reykjavík hafa að undanförnu skerpt á verkferlum í skólunum til að gæta betur að öryggi barnanna og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar er þessa dagana að safna gögnum og undirbúa tillögugerð vegna þessa.

Mikil umræða hefur orðið í framhaldi af frétt Morgunblaðsins og mbl.is í seinustu viku um atvik sem átti sér stað í Austurbæjarskóla í byrjun september. Þá fór karlmaður inn í skólann á miðjum skóladegi og plataði níu ára gamla stúlku afsíðis þar sem hann þuklaði á henni og hafði uppi kynferðislega tilburði. Stúlkan komst undan og var maðurinn handtekinn.

„Skólastjórar hafa almennt tjáð sig á þá lund að þetta hræðilega atvik hafi orðið til þess að þeir hafi skerpt á verkferlum og fundað með starfsfólki sínu til að fylgja því eftir,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs, í svari til Morgunblaðsins.

Í gulum vestum á skólalóðinni

Að hans sögn er núna verið að safna saman gögnum varðandi þetta og verða niðurstöður kynntar á fundi skóla- og frístundasviðs á þriðjudag í næstu viku. ,,Við munum svo fylgja gagnasöfnun eftir með beinni tillögugerð.“

Skólarnir fara hver fyrir sig yfir þessi mál og starfsreglur hjá sér, varðandi aðgengi að skólum, að starfsmenn skólanna séu merktir o.fl. Eins og komið hefur fram hefur í kjölfar atviksins verið endurskoðað eftirlit við innganga Austurbæjarskóla og allir starfsmenn skólans eru nú merktir.

Starfsmenn fleiri skóla eru merktir á skólatíma. Guðlaug Sturlaugsdóttir, skólastjóri Árbæjarskóla, sem er einn af fjölmennustu grunnskólum borgarinnar, með um 660 nemendur, segir að í framhaldi af atvikinu í Austurbæjarskóla hafi þessi mál verið tekin til skoðunar í skólanum og skerpt á því sem þegar hefur verið gert og fylgt hefur verið í starfi skólans. „Við lokuðum engum útgöngum því það er mjög flókið, krakkar eru að koma úr íþróttum og sundi yfir allan daginn og þess vegna er ekki hægt að loka útgöngum en við merktum allt starfsfólk og við ræddum við og brýndum fyrir starfsfólki að gefa sig að öllum sem koma í húsið og athuga hvaða erindi þeir eiga,“ segir hún.

Þá var foreldrum sendur póstur þar sem minnt er á reglur skólans um að hafa samband við skrifstofuna eða tala við skólaliðana á staðnum ef þeir eiga erindi í skólann. ,,Svo eru starfsmenn alltaf í gulum vestum úti og við hnykktum á því að því væri alltaf fylgt.“

Öryggismyndavélar í sumum skólum

Aðspurð segir hún að það sé flókið mál ef takmarka eigi frekar aðgang að skólahúsnæðinu. Helmingur nemendanna sé unglingar sem séu mikið á ferðinni út og inn úr skólanum meðal annars til að fara í íþróttir í Fylkishöllinni. ,,Það er því hægara sagt en gert að ætla að fara að gera það og ég er ekkert viss um að við viljum það heldur. En við erum með öryggismyndavélar og þær hafa skipt okkur máli í gegnum tíðina við úrlausn á ýmsum málum,“ segir hún. Öryggsmyndavélar munu ekki vera til staðar í öllum skólum borgarinnar en Guðlaug telur mikilvægt að hafa myndavélarnar. „Við viljum að allir séu öruggir og að krökkunum líði vel hjá okkur. Það er fyrir öllu.“