Meistarar Guðbjörg Sverrisdóttir og Hallveig Jónsdóttir taka við verðlaunagripnum eftir sigur Vals á Keflavík í Meistarakeppni KKÍ á dögunum. Valskonur eru handhafar allra titlanna sem í boði eru nú þegar ný leiktíð hefst.
Meistarar Guðbjörg Sverrisdóttir og Hallveig Jónsdóttir taka við verðlaunagripnum eftir sigur Vals á Keflavík í Meistarakeppni KKÍ á dögunum. Valskonur eru handhafar allra titlanna sem í boði eru nú þegar ný leiktíð hefst. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfubolti Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Þrátt fyrir að Valskonur hafi unnið allt sem hægt er að vinna á síðustu körfuboltaleiktíð, með frekar öruggum hætti, bíður liðsins þrautin þyngri að verða Íslandsmeistari í vor.

Körfubolti

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Þrátt fyrir að Valskonur hafi unnið allt sem hægt er að vinna á síðustu körfuboltaleiktíð, með frekar öruggum hætti, bíður liðsins þrautin þyngri að verða Íslandsmeistari í vor. Reykvískur risi hefur rankað almennilega við sér eftir dvala og mótað lið vestur af Hlíðarenda sem litlu síður en Valur myndi sætta sig við að landa ekki „þeim stóra“.

Keppni í úrvalsdeildinni, Dominos-deildinni, hefst í kvöld með heilli umferð. Meistarar Vals hefja titilvörnina gegn nýliðum Grindavíkur suður með sjó, KR fær Keflavík í heimsókn, Snæfell mætir Breiðabliki og Skallagrímur tekur á móti Haukum.

Valur og KR, sem háðu nokkuð spennandi einvígi í undanúrslitum Íslandsmótsins á síðustu leiktíð, eru liða sigurstranglegust á mótinu nú þegar það er að hefjast. KR kom af fítonskrafti inn í deildina í fyrra, sem nýliði, og var á toppnum eftir jólafríið. Þó að vissulega hafi fjarað aðeins undan á seinni hluta tímabilsins komst KR í úrslitakeppnina og veitti Val þar keppni eins og fyrr segir. Í sumar má svo segja að heilt lið öflugra leikmanna hafi bæst við hópinn hjá landsliðsþjálfaranum Benedikti Guðmundssyni í Vesturbænum. Þar munar miklu um komu Hildar Bjargar Kjartansdóttur, sem var í lykilhlutverki hjá Celta Vigo síðasta vetur og hársbreidd frá því að komast með liðinu upp í efstu deild Spánar. Hildur, sem er 24 ára, leikur í kvöld sinn fyrsta leik í íslensku deildinni síðan vorið 2014 þegar hún yfirgaf Snæfell og hélt til Bandaríkjanna. Danielle Rodriguez og Alexandra Eva Sverrisdóttir komu úr Stjörnurústunum í Garðabæ, og Sóllilja Bjarnadóttir og Sanja Orozovic frá Breiðabliki sem var fallið en fékk svo að taka sæti Stjörnunnar í deildinni í sumar. Rodriguez hefur verið einn albesti leikmaður deildarinnar þrjú síðustu ár og þær Sóllilja og Orozovic voru burðarásar hjá Blikum. Þá virðist sem svo að Margrét Kara Sturludóttir taki fram skóna eftir langt hlé og spili á ný með KR, en þessi fyrrverandi besti leikmaður deildarinnar lék síðast vorið 2016, þá með Stjörnunni.

Haukar endurheimta sterka leikmenn

Breytingarnar hafa verið minni hjá Val, sem teflir nú Helenu Sverrisdóttur fram frá byrjun leiktíðar. Valur hefur þó misst fjóra leikmenn sem léku nokkuð stór hlutverk fyrir liðið. Skörðin hafa verið vel fyllt með komu Kiönu Johnson, sem var afar öflug með KR á síðustu leiktíð, slóvakíska miðherjanum Reginu Palusna og Sylvíu Rún Hálfdanardóttur, Haukakonunni sem leikið hefur með öllum landsliðum Íslands og fór á kostum í 1. deild með Þór Akureyri síðasta vetur.

Ef spádómarnir ganga eftir má því segja að tvö sæti séu laus í úrslitakeppninni. Keflavík, Haukar og Snæfell virðast líklegust til þess að berjast um þau. Lovísa Björt Henningsdóttir mun styrkja lið Hauka mikið eftir fimm ára dvöl í Bandaríkjunum, en landsliðskonan stefnir á að komast í atvinnumennsku á meginlandi Evrópu. Dýrfinna Arnardóttir er einnig komin aftur í lið Hauka eftir að hafa átt sinn þátt í Íslandsmeistaratitlinum 2018, sem og Auður Íris Ólafsdóttir eftir dvöl hjá Stjörnunni, Breiðabliki og Skallagrími. Haukar urðu í 6. sæti á síðustu leiktíð, sinni fyrstu undir stjórn Ólafar Helgu Pálsdóttur, en liðið lék síðustu tvo mánuðina án bandarísks leikmanns eftir brotthvarf LeLe Hardy.

Keflavíkurkonur komust í úrslit síðasta vor en máttu sín lítils gegn Val. Síðan þá hafa allir helstu burðarásar liðsins stigið til hliðar, þar á meðal Brittany Dinkins sem skilaði hæstu framlagi allra leikmanna deildarinnar á síðustu leiktíð, samkvæmt tölfræðinni. Mikið mun mæða á Danielu Wallen sem er komin í hennar stað, en stöðugt virðast þó koma fram á sjónarsviðið nýir, ungir og öflugir leikmenn í Keflavík.

Jón Halldór Eðvaldsson er tekinn við þjálfun Keflavíkur og Snæfell er einnig með nýjan þjálfara, Gunnlaug Smárason. Eftir þrjá Íslandsmeistaratitla í röð og deildarmeistaratitil 2017 hafa Snæfellskonur þurft að sætta sig við að missa með naumindum af úrslitakeppninni tvö síðustu tímabil. Gunnhildur Gunnarsdóttir verður áfram máttarstólpi í liðinu en meiri óvissa ríkir um hvenær Berglind systir hennar stimplar sig inn eftir aðgerð vegna axlarmeiðsla í sumar. Kristen McCarthy (stundum kölluð Gunnarsdóttir) er einnig áfram í hópnum, eftir að hafa skorað flest stig að meðaltali í leik í deildinni á síðustu leiktíð, en hún missti af lokum síðustu leiktíðar vegna höfuðmeiðsla og staða hennar er óljós. Í hennar stað er komin Chandler Smith. Þá hefur Snæfell fengið finnsku landsliðskonuna Veera Pirttinen og hina serbnesk/ungversku Emese Vida.

Úr leikmanni í þjálfara í sumar

Skallagrími, Grindavík og Breiðabliki er spáð neðstu sætunum, sem rímar vel við gengi liðanna á síðustu leiktíð. Síðustu ár hafa verið hálfgerð rússíbanareið hjá Skallagrímsliðinu, sem komst upp í úrvalsdeild 2016, lék í úrslitakeppni og fékk silfur í bikarnum, en hefur síðan dalað og tapaði tíu síðustu leikjum sínum á síðustu leiktíð og endaði í næstneðsta sæti. Þjálfaraskipti hafa verið tíð í Borgarnesi og nýverið var tilkynnt að Guðrún Ósk Ámundadóttir tæki við sem aðalþjálfari, eftir að hafa lokið farsælum ferli sínum sem leikmaður þegar hún var spilandi aðstoðarþjálfari hinnar serbnesku Biljönu Stankovic síðasta vetur. Hún mun meðal annars stýra systrum sínum tveimur og hinni pólsku Maju Michalska sem hefur komið sér vel fyrir í Borgarnesi.

Grindavík komst upp úr 1. deild síðasta vor, á fyrstu leiktíðinni undir stjórn Jóhanns Árna Ólafssonar, eftir að hafa þar slegið Fjölni við í úrslitakeppninni. Í bland við yngri og efnilega leikmenn eru í hópnum Ingibjörg Jakobsdóttir og hin bandaríska Kamilah Jackson, auk þess sem landsliðskonan Bríet Sif Hinriksdóttir er komin til félagsins eftir gott tímabil hjá Stjörnunni.

Breiðablik er fjórða liðið í deildinni sem mætir til leiks með nýjan þjálfara en Ívar Ásgrímsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, er mættur í Kópavoginn frá Ásvöllum. Blikakonur unnu fjóra af 28 leikjum sínum síðasta vetur og féllu en fengu svo sætið sem Stjarnan skildi eftir laust þegar Garðbæingar drógu lið sitt úr keppni. Breiðablik hefur hins vegar misst burðarása frá síðustu leiktíð og erfitt að sjá að liðið mæti sterkara til leiks nú en síðasta vetur, nema þá vegna komu góðs þjálfara.