Adam Neumann varð sprotastjarna vestanhafs enda tvöfölduðust tekjur WeWork árið 2018, en rekstrartapið var 1,9 milljarðar bandaríkjadalir.
Adam Neumann varð sprotastjarna vestanhafs enda tvöfölduðust tekjur WeWork árið 2018, en rekstrartapið var 1,9 milljarðar bandaríkjadalir. — Ljósmynd/AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá München ai@mbl.is Ráðgjafar WeWorks höfðu reiknað það út að þetta aðsópsmikla sprotafyrirtæki væri 96 milljarða bandaríkjadala virði, en þegar kom að hlutafjárútboði vildi markaðurinn ekki meta fyrirtækið á nema brot af þeirri tölu.

Viðbrögð fagfjárfesta komu stjórnendum WeWork í opna skjöldu. Fyrirtækið var einn af þessum djörfu og óstöðvandi ungu sprotum, og hafði tekist að verða að risastóru veldi á örskömmum tíma.

Eru ekki nema rétt um níu ár síðan forstjórinn, Adam Neumann, setti félagið á laggirnar en tveimur árum fyrr hafði hann náð góðum árangri með sams konar viðskiptamódeli hjá fyrirtæki sem hann kallaði GreenDesk: Á þessum tíma hafði fjármálakreppan hrist rækilega upp í hagkerfi Bandaríkjanna og mikið til af lausu skrifstofuhúsnæði. Fólk sem áður hafði verið í föstu starfi og haft sinn skrifstofubás eins og launamönnum sæmir var núna orðið verktakar eða frumkvöðlar og vantaði hæfilega smáa, ódýra og sveigjanlega skrifstofuaðstöðu. Smátt og smátt tókst WeWork að sölsa undir sig æ meira af skrifstofuhúsnæði sem síðan var hægt að búta niður í minni rými og áframleigja til einyrkja og sprota.

Hjá WeWork var hægt að komast að fyrir lítið, oft á besta stað í hverri borg, með fallegar innréttingar, hátt til lofts og vítt til veggja. Hjá þeim kostar skrifborð á allra besta stað í New York núna 800 dali á mánuði, og verðið frá rúmlega 1.200 dölum fyrir pláss inni á lokuðum kontór. Þykir það gjafverð á Manhattan þar sem ekki er óalgengt að kosti um og yfir 1.000 dali að leigja einn fermetra af atvinnuhúsnæði.

Hraður vöxtur og mikið tap

Í dag starfa um 5.000 manns hjá WeWork og leigir fyrirtækið út aðstöðu á 280 stöðum, í 86 borgum og 32 löndum. Í fjármögnunarlotu í janúar var reksturinn metinn á 47 milljarða dala, og það þrátt fyrir svakalegan taprekstur. Tekjur fyrirtækisins tvöfölduðust árið 2018, en það gerði tapið líka, og var 1,9 milljarða dala halli á rekstrinum það árið. Til að setja þá tölu í samhengi jafngildir upphæðin næstum því þriðjungi af heildartekjum ríkissjóðs Íslands sama ár, eða að 219.000 dalir færu í súginn hverja einustu klukkustund sólarhringsins, hvern einasta dag ársins.

Þegar átti að skrá félagið í kauphöll og leyfa fagfjárfestum að taka þátt í ævintýrinu reyndust þeir ekki jafn bjartsýnir og bakhjarlar WeWork til þessa, og þótti sanngjarnt verð vera um þriðjungur þess sem reksturinn var metinn á í ársbyrjun. Tapið væri of mikið, daglegur rekstur of flókinn og óhefðbundinn og Neumann of áhrifamikill.

Stjörnuhrap

Frumútboðið var því sett á ís, og skráningarferlinu formlega aflýst á mánudag, en fyrst var Neumann bolað úr forstjórastólnum af stærstu hluthöfum fyrirtækisins, með SoftBank fremst í flokki. Japanski sjóðurinn hefur, í samráði við sádi-arabíska sjóðinn Vision Fund, lagt um 10,7 milljarða dala í félagið. Þó Neumann hafi ekki verið mjög sýnilegur í íslenskum fjölmiðlum þá hefur stjarna hans risið hátt vestanhafs enda myndast hann vel, er hárprúður, nokkuð mælskur og ekki nema 40 ára gamall. Fréttaskýrendur segja að önnur eins sprota-hetja hafi ekki hrapað svona til jarðar frá því Travis Kalanic var steypt af stóli hjá Uber sumarið 2017.

„Þó svo að rekstur okkar hafi aldrei verið sterkari, þá hefur sú gagnrýni sem beinst hefur að mér undanfarnar vikur orðið að verulegri truflun og hef ég því ákveðið að það þjóni hagsmunum fyrirtækisins best að ég stígi til hliðar,“ sagði í tilkynningu sem Neumann sendi frá sér en uppstokkunin hjá fyrirtækinu fól líka í sér að veikja atkvæðisrétt hans hjá WeWork.

Með minni smekk fyrir stórum draumum

En málið á sér fleiri hliðar, og gæti ólán WeWork smitað út frá sér. Áhugaleysi fjárfesta gæti verið vísbending um að markaðurinn sé ekki lengur eins ginnkeyptur fyrir efnilegum sprotum; að það þyki ekki lengur boðlegt að fara í hlutafjárútboð með félag sem fossblæðir peningum. Ráðgjafar WeWork höfðu reiknað virði félagsins upp í allt að 96 milljarða dala, en þegar fjárfestar höfðu rýnt í tölurnar þótti þeim 15 milljarðar nær lagi. Svipaða sögu er að segja af öðrum fyrirtækjum, sem ýmist ollu vonbrigðum skömmu eftir skráningu, eða blésu hlutafjárútboð af vegna áhugaleysis fjárfesta. Hlutabréfaverð Uber og Lyft, sem fóru á markað í sumar, er þriðjungi lægra nú en við skráningu.

Gleymum heldur ekki að taugatrekkingur er farinn að segja til sín á mörkuðum um allan heim. Þó Trump hafi verið meira eða minna til friðs undanfarnar vikur þá er tollastríði Bandaríkjanna og Kína fjarri því lokið. Kínverjar fögnuðu því í gær að 70 ár eru liðin frá því Mao Zedong lýsti formlega yfir stofnun alþýðulýðveldisins, en standa frammi fyrir því á þessu stórafmæli að tekið er að hægja á hjólum atvinnulífsins. Allir bíða með öndina í hálsinum vegna Brexit. Svartsýnisfólkið segir eins og í Game of Thrones: veturinn er að koma, og þá er kannski öruggara að veðja á eitthvað annað en ofvaxið sprotafyrirtæki sem rekið er með bullandi tapi. Bætir heldur ekki úr skák að sumum þykir ekki innistæða fyrir þeirri hækkun sem verið hefur á hlutabréfamörkuðum á Vesturlöndum að undanförnu, og eiga von á að markaðurinn leiðrétti sig hvað úr hverju. Við þannig kringumstæður er ekki gott að eiga hlut í félagi sem stendur tæpt.

Þá benti pistlahöfundur FT á það fyrir tveimur árum að viðskiptamódel WeWorks væri ekki svo ósvipað Northern Rock og Lehman Brothers, sem byggðu á því að hafa aðgang að ódýru lánsfé sem svo mátti lána áfram á hærri vöxtum. WeWorks gerir það sama með fasteignir; gerir tiltölulega hagstæða langtímasamninga og býður síðan viðskiptavinum sínum ögn dýrari skammtímaleigu. Þarf ekki mikið til að raska þessu módeli, ef reksturinn stendur nú þegar tæpt. Stutt kuldaskeið í hagkerfinu gæti valdið því að vinnurými WeWorks yrðu ósköp tómleg.