Atli Þór Símonarson fæddist í Reykjavík 25. desember 1959. Hann lést 18. september 2019.

Foreldrar hans eru hjónin Edda Finnbogadóttir, f. 22.10. 1937, og Símon Símonarson, f. 24.9. 1933, d. 25.7. 2013. Þau skildu. Alsystir Atla Þórs er Elín, f. 9.5. 1963. Seinni eiginmaður Eddu er Guðgeir Pedersen, f. 31.10. 1938. Synir þeirra, og bræður Atla Þórs sammæðra, eru Salvar Geir, f. 21.8. 1974, og Þröstur, f. 7.1. 1976. Seinni eiginkona Símonar er Kristín María Magnúsdóttir, f. 26.11. 1951. Synir þeirra, og bræður Atla Þórs samfeðra, eru Símon Ægir, f. 6.4. 1974, Þorgeir, f. 21.2. 1978, og Davíð Örn, f. 13.2. 1990.

Sambýliskona Atla Þórs var Lára Björgvinsdóttir, f. 19.5. 1960, d. 8.8. 1999. Þau slitu samvistum. Börn þeirra eru 1) Guðný Björk, f. 25.12. 1980, sambýlismaður hennar er Hörður Albertsson, f. 8.2. 1980. Börn þeirra eru Daði, f. 3.12. 2008, og Lára, f. 2.4. 2015. 2) Björgvin, f. 6.2. 1982, sambýliskona hans er Dagmar Markúsdóttir, f. 7.9. 1983. Synir þeirra eru Haraldur Ágúst Brynjarsson, f. 9.6. 2007, og Markús Lár, f. 23.10. 2018. Barnsmóðir Atla Þórs er Diljá Einarsdóttir, f. 21.5. 1960. Dóttir þeirra er 3) Birta Lind, f. 3.8. 1997, sambýlismaður hennar er Gunnar Páll Ægisson, f. 1.4. 1997.

Atli Þór starfaði lengst af sem jarðvinnuverktaki. Síðustu árin starfaði hann sem leigubílstjóri hjá Hreyfli.

Útför Atla Þórs fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 2. október 2019, og hefst athöfnin klukkan 13.

Við burtför þína er sorgin sár

af söknuði hjörtun blæða.

En horft skal í gegnum tregatár

í tilbeiðslu á Drottin hæða.

og fela honum um ævi ár

undina dýpstu að græða.

(Guðrún Jóhannsdóttir)

Mamma.

Elskulegur bróðir minn Atli Þór er látinn. Með trega fylgi ég honum til grafar. Atli var eini albróðir minn og vorum við samrýnd eftir því. Hann var rifinn burt frá ættingjum sínum á besta aldri, sem er átakanlegt og sorglegt.

Atli var dökkur yfirlitum og myndarlegur svo fólk dáðist að. Hann gat verið manna skemmtilegastur þegar vel lá á honum og oft veltist maður hreinlega um af hlátri, sérstaklega á hans yngri árum. Hann var frábær kokkur og afar duglegur og einbeittur til vinnu. Hann var afar stoltur af börnunum sínum þremur. Guð gefi þeim og okkur öllum styrk í sorginni.

Í bljúgri bæn og þökk til þín,

sem þekkir mig og verkin mín.

Ég leita þín, Guð, leiddu mig

og lýstu mér um ævistig.

Ég reika oft á rangri leið,

sú rétta virðist aldrei greið.

Ég geri margt, sem miður fer,

og man svo sjaldan eftir þér.

Sú ein er bæn í brjósti mér,

ég betur kunni þjóna þér,

því veit mér feta veginn þinn,

að verðir þú æ Drottinn minn.

(Pétur Þórarinsson.)

Elín Símonardóttir.