Mikko Lyytinen, aðalvarðstjóri.
Mikko Lyytinen, aðalvarðstjóri.
Ungur maður, vopnaður sverði, réðst á nemendur verkmenntaskóla í austanverðu Finnlandi í gær, varð einum þeirra að bana og særði tíu, þeirra á meðal lögreglumann.

Ungur maður, vopnaður sverði, réðst á nemendur verkmenntaskóla í austanverðu Finnlandi í gær, varð einum þeirra að bana og særði tíu, þeirra á meðal lögreglumann. Lögreglumenn skutu á árásarmanninn þegar þeir komu á staðinn, um tíu mínútum eftir að þeir voru kallaðir út. Árásarmaðurinn særðist alvarlega og er á sjúkrahúsi.

Lögreglan sagði að ekki væri enn vitað hvers vegna maðurinn hóf árásina. Sjónarvottar sögðu að hann hefði verið með sverð í kennslustofu skólans sem er í sömu byggingu og verslunarmiðstöðin Herman í borginni Kuopio. „Hann skar stúlku í hálsinn með sverði og stakk hana í magann,“ hafði fréttavefur dagblaðsins Keskisuomalainen eftir einum sjónarvottanna. Þeir sögðu að hann hefði einnig beitt „einhvers konar litlum eldsprengjum“. Mikko Lyytinen, aðalvarðstjóri lögreglunnar í Austur-Finnlandi, sagði að maðurinn hefði ennfremur verið með byssu.

Lyytinen sagði að kvenmaður hefði beðið bana í árásinni en veitti ekki frekari upplýsingar um fórnarlömbin. Lögreglan sagði að árásarmaðurinn væri finnskur ríkisborgari, fæddur árið 1994 og hefði stundað nám í skólanum.

Tveir særðust alvarlega

Einn lögreglumannanna særðist lítillega þegar maðurinn var handtekinn. Tveir þeirra sem urðu fyrir árásinni særðust alvarlega og voru á sjúkrahúsi.

Kona sem starfar í nálægu bílaverkstæði kvaðst hafa séð kennslukonu flýja út úr byggingunni, með blóðugar hendur. „Þegar ég hjálpaði kennaranum heyrði ég aðra kalla á hjálp. Nemendur hlupu út úr byggingunni og inn í bílaverkstæðið.“

Tvær mannskæðar árásir voru gerðar í finnskum skólum fyrir rúmum tíu árum. Þær ollu miklum óhug meðal Finna og urðu til þess að finnskum lögum um byssueign var breytt. Í fyrri árásinni varð átján ára maður sjö nemum og kennara að bana í menntaskóla í bænum Jokela í sunnanverðu Finnlandi árið 2007. Árið eftir létu ellefu manns lífið í árás 22 ára manns í háskóla í bænum Kauhajoki í vestanverðu landinu.