Þorsteinn Andrésson fæddist 15. júní 1962. Hann lést 22. september 2019.

Foreldrar Þorsteins: Sigríður Ágústsdóttir og Andrés Jóhannesson, látinn.

Eftirlifandi eiginkona Þorsteins er Ingibjörg Magnúsdóttir, foreldrar hennar eru Laufey Jörgensdóttir og Magnús Ólafsson, látinn.

Börn Ingibjargar: 1) Magnús Hrafn Hafliðason, maki Aníta Björk Bóasdóttir. 2) Hafþór Hafliðason, maki Auður Jónsdóttir, sonur hennar er Daníel Darri Andrason. 3) Hafrún Hafliðadóttir, maki Þrándur Gíslason Roth, synir þeirra eru Þorbergur og Hafþór.

Bróðir Ingibjargar: Jörgen Hrafn Magnússon, maki Hjördís Ólöf Jóhannsdóttir. Börn þeirra Jóhann Ólafur og Laufey.

Systkini Þorsteins: Katrín Andrésdóttir, maki Sveinn Ingvarsson. Börn þeirra: 1) Sigríður Sóley, maki Guðjón Helgason. 2) Ingvar Hersir, maki Melissa Böhme, þau eiga eitt barn. Kristleifur Andrésson, maki Hanna Málmfríður Harðardóttir. Börn þeirra eru: 1) Ágúst. 2) Andrés, maki Brynja Björk Þórsdóttir. 3) Hörður. Sóley Andrésdóttir, maki Björgvin Njáll Ingólfsson. Barn: Andrea, maki Þorleifur Kamban. Þau eiga samtals átta börn.

Þorsteinn, eða Steini eins og hann var alltaf kallaður, ólst upp á Stóra-Kroppi en fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur 1977. Steini lærði rennismíði við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og öðlaðist síðan meistararéttindi í þeirri grein. Steini dvaldi einnig í Danmörku um níu ára skeið við nám og störf.

Megnið af starfsævinni vann Steini hjá Landvélum. Steini kenndi einnig um tíma við Borgarholtsskóla.

Steini var sístarfandi, í frístundum aðstoðaði hann fjölskyldu og vini. Þau Inga höfðu komið sér upp unaðsreit þar sem þau eyddu öllum lausum stundum, byggðu hús, ræktuðu og Steini gróf og ýtti með sístækkandi safni aldinna vinnuvéla.

Steini var í Karlakór Reykjavíkur.

Útförin fer fram frá Grensáskirkju í dag, 2. október 2019, klukkan 15.

Elsku Steini minn.

Takk fyrir yndisleg tíu ár, vildi að þau hefðu orðið fleiri.

Þú varst mér allt í öllu og börnin mín, tengdabörn og barnabörnin okkar áttu alltaf aðgang að stóra hlýja faðminum þínum. Einnig græddum við öll stóra fjölskyldu með honum Steina sem okkur þykir óendanlega vænt um.

Þín er sárt saknað.

Þangað til næst.

Þín

Ingibjörg.

Ég fór að velta því fyrir mér eftir að þú fórst hversu vel Sigríður móðir þín og Andrés faðir þinn hafa valið þér nafn. Nafn þetta gefur afskaplega góða mynd af því hver þú varst og hvað þú stóðst fyrir. Þor skorti þig aldrei til að gera nokkurn skapaðan hlut.

Engu máli skipti hvort þú vissir upp á hár hvernig ætti að standa að framkvæmdinni eða hvort þú hefðir enga hugmynd um út í hvað þú værir að fara, aldrei skorti þig þor til að leggja af stað, þreifa þig áfram og beita þínu einstaka hugviti og verklagi til að leysa gátuna. Þá skiptir engu hvort um ræddi að skipta um glussaslöngur í heimsins stærsta krana, syngja bæði hátt og snjallt fyrir fullu húsi, smíða lyftuhringssnúningssvið í leikhús, flytja inn með ástkonu, hálfuppkomnum börnum hennar þremur og þremur mökum eða reisa timburhús einn þíns liðs. Það var þó gert með smá aðstoð frá gamla zetornum, sem fékk smá klapp að launum og að sjálfsögðu undir styrkri andlegri leiðsögn Ingibjargar vinkonu þinnar og eiginkonu.

Þorið sem þú hafðir hefur verið mér hvatning í daglegu amstri og ekki síst þorið sem þú hafðir til að segja þína meiningu í hvívetna sama við hvern var rætt og um hvað. Ég dreg samt ekkert af því að þú varst bölvaður „besserwisser“ og gast verið alveg óþolandi, sér í lagi af því að þegar öllu var á botninn hvolft hafðir þú í flestum tilfellum rétt fyrir þér.

Steinn eða Steini eins og þú varst gjarnan kallaður gefur einnig skýra mynd af því hversu traustur þú varst. Hvílíkur klettur af manni er vandfundinn hvort sem um ræðir líkamlegt atgervi eða andlegan styrk. Hvernig þú reyndist samferðafólki þínu á ögurstundum, komst sláttuvélum í gang, dráttarvélum af stað og togurum á flot. Og það sem þú ert ekki búinn að gera fyrir okkur gemlingana sem fylgdum í pakkanum þegar þú og Inga giftuð ykkur.

Maður hefur jafnvel notið góðs af greiðvikni þinni víðsvegar um landið þar sem úir og grúir af fólki í hverju einasta krummaskuði sem er búið að leita þess leiða í mörg ár að launa greiða sem þú hefur innt af hendi. Það segi ég fullum fetum að ég hef aldrei kynnst nokkrum manni sem er jafn skilyrðislaust greiðvikinn og þú.

Það voru virkileg forréttindi að fá að kynnast þér vinur minn og vera þér samferða undanfarin níu ár. Við fengum að reyna ýmislegt á þessum tíma og vorum við ekki búnir að þekkjast mjög lengi þegar við vorum komnir í sambúð ... ásamt restinni af fjölskyldunni. Ég get ekki annað en tekið ofan fyrir okkur að halda út átakalaust í tæp tvö ár. Það segir ótrúlega margt um það umburðarlyndi og manngæsku sem þú varst haldinn (svo ekki sé minnst á tengdamóður mína og aðra ábúendur í kommúnunni). Það voru forréttindi að fá að vera þátttakandi í þeirri fjölskyldu sem við vorum búin að skapa í sameiningu og verð ég ævinlega þakklátur fyrir það tækifæri að geta ásamt Hafrúnu fært þér tvo litla afastráka sem þú reyndist svo afskaplega vel. Lífi þínu og ljósi verður haldið á lofti um ókomin ár og veit ég það að hinn sári söknuður mun víkja fyrir ómetanlegum og hlýjum minningum um okkur saman, um þig og allt það sem þú stóðst fyrir, Þorsteinn Andrésson.

Þinn vinur og tengdasonur,

Þrándur Gíslason Roth.

Elsku Steinibró sem fæddist með olíu á höndunum.

Fyrst hélt ég utan um hann, breiðleitan og kátan kút.

Svo hélt hann utan um mig og aðrar mikilvægar eldri konur í lífi hans, kannski sérstaklega Kötu, hver sér fyrir sér ungan mann með þykkar hendur klippa neglurnar á aldraðri ömmusystur.

Svo kom Inga, konan sem við vildum líka halda utan um því hún hélt utan um okkur með honum. Lánið í lífi okkar allra, með henni komu börn og svo tengdabörn og barnabörn. Steini var einstaklega barngóður og barnabörnin veittu lífi hans nýjan tilgang.

Börnin mín sem Steini hélt utan um frá upphafi. Sigga Sóley sem hann bar alltaf á höndum sér, hún flutti svo til Reykjavíkur þar sem hann og Inga björguðu henni úr öllum mögulegum og ómögulegum aðstæðum.

Ingvar Hersir sem fylgdi Steina sem lamb, svaf löngum stundum í traktornum hjá honum. Steini kenndi Ingvari Hersi að smyrja og sjóða og rífa í sundur og setja rétt saman aftur. Að stjórna stórum vélum, ég gleymi ekki stundinni þegar Ingvar Hersir rúllaði sjálfur úti í Heiði – veit ekki hvor þeirra var stoltari.

Heiðin var uppáhaldsstaður Steina. Ófáar vinnustundir átti hann þar í jarðvinnu og uppskeru og svo gæsaveiðin, það voru hvíldarstundirnar snemma morguns úti í náttúrunni sem skiptu meira máli en fjöldi fugla. Steini gat komið öllum vélum í gang og haldið þeim gangandi, sérgrein hans var glussi og glussadælur. Það voru samt stíflurnar í hans eigin dælu sem stöðvuðu gangverkið þennan fallega haustmorgun í Heiðinni.

Katrín.

Elsku Steini frændi.

Steini var með stærsta hjartað. Meira að segja stóru olíukámugu hendurnar bliknuðu í samanburði.

Mikið var lánið þegar þau Inga tóku saman, þar hittust hjörtu af svipaðri stærð. Greiðvikni hans jafna fáir. Enginn greiði of stór og ekkert vildi hann fá í staðinn – nema kannski í mesta lagi pönnukökur með kaffinu, sem hann vafði upp tvöfaldar með sykri. Hann var okkur systkinunum óendanlega góður og alltaf tilbúinn að miðla af visku sinni, allt frá kennslu á stórar vélar til leiðbeininga í gegnum síma um hvernig maður stillir á höggið á borvélinni – og hvílík þolinmæði sem hann hefur haft! Aldrei lét hann okkur líða öðruvísi en að við gætum leitað til hans nótt sem nýtan dag, alltaf jafn sjálfsagt.

Svo var það viðhaldið á vélunum. Það var ekki að ástæðulausu að hann Steini var alltaf með svartkámuga lófa, hans mottó var að allt væri hægt að gera við með töng, skrúfjárni og hamri (helst sleggju) og muna svo að smyrja!

„Þú manst það bara næst...“ sagði hann oft. Sama þótt maður hefði óvart keyrt tætluna utan í girðingu og dregið upp tugi metra, prjónað Massanum upp á dekk á næsta traktor eða bara fengið lélega einkunn í prófi þá datt honum aldrei í hug að skamma okkur eða láta okkur líða illa yfir því. „Þú manst það bara næst Sigga mín að beygja bara aðeins fyrr þegar þú ert með tætluna aftan í.“ Nálgunin var þannig að það væri alltaf hægt að læra af mistökunum – allt væri hægt að laga svo lengi sem allir væru óslasaðir.

Við erum afskaplega þakklát fyrir að hafa alist upp við þau forréttindi að hafa Steina alltaf á hliðarlínunni.

Sigríður Sóley

og Ingvar Hersir.

Steini frændi er farinn.

Skyndilega og óvænt er frænda okkar og góðum vini kippt í burt. Steini var við gæsaveiðar að morgni en skilaði sér svo ekki í hádegisgrautinn til Deddu systur sinnar. Hann var farinn í annan heim.

Það er margs að minnast úr samleið okkar Steina í gegnum lífið og það er skrítið að hugsa til þess að sjá hann ekki framar.

Það var mikil gæfa fyrir Steina að kynnast henni Ingu sinni og eignast með henni þá yndislegu fjölskyldu sem hefur umlukið þau og ekki minnst gefið honum afanafnbótina. Inga og Steini voru mjög samhent og samhuga og Inga náði að virkja það besta sem Steini hafði að geyma.

Minningarbrotin eru mörg.

Við systkinin nutum þess að alast að hluta til upp á Stóra-Kroppi þar sem við vorum í sveit í mörg sumur, Þórhallur frá fjögurra ára aldri. Þar var ýmislegt brallað og við lærðum að vinna og umgangast skepnur og tæki. Steini og Þórhallur oftast skítugir upp fyrir haus en varla sást blettur á Kristleifi og Sigurði þótt þeir kæmu úr sömu verkum.

Steini heimsótti okkur oft í Kópavoginn þar sem við fórum á smíðavöll, í siglingaklúbb, í stutt ferðalög m.a. austur á „StokksEyrarbakka“, ungmennafélagsmót í Kópavog þar sem Katrín og Steini kepptu fyrir hönd UMSB.

Sumarið '79 var Katrín ráðskona hjá Steina og Kötu á Stóra-Kroppi. Sama sumar tóku Sigurður og Steini bílprófið í Borgarnesi, en það var afgreitt á alls sjö tímum fyrir þá báða.

Stuttu seinna kenndi Steini Áslaugu að fara á hestbak og skjóta af byssu.

Allar þessar minningar eru samofnar í þéttum frændsystkinahópi sem haldið hefur saman undir verndarvæng „ættmæðraveldis SigguSoffíuSvövu“.

Þegar Sóley systir hans eignaðist Andreu kom í ljós hve mikil barnagæla Steini var og hefur hann verið uppáhaldsfrændi margra barna.

Hlýja, dugnaður, traust, smá stríðni – glettni, stundum þrjóskur, traust, þétt, öruggt en mjúkt handaband og stórt faðmlag eru orð og hugsanir sem við tengjum við Steina. Þegar við lokum augunum og hugsum til hans sjáum við hann brosandi, og brosið hans Steina var innilegt og náði svo skemmtilega til augna hans.

Líttu sérhvert sólarlag

sem hið hinsta væri það

því morgni eftir orðinn dag

enginn gengur vísum að.

(Bragi Valdimar Skúlason)

Elsku fjölskylda, minning Steina lifir og það eru aðeins góðar minningar.

Lífið er núna.

Þórhallur, Sigurður,

Katrín og fjölskyldur.

Steini vinur minn er farinn. Ég er þeirrar skoðunar að Steini hafi verið fallegasti maður Íslands, allavega er það ávallt í huga mínum frá því ég kynntist honum í lok 8. áratugarins. Ég mætti honum fyrst þegar hann kom hreint og beint svífandi á ævintýralegu fallegu brokki á Kviðu sinni í hesthúsahverfinu í Reykjavík. Hann stoppaði og kynnti sig mjög kurteislega og frá og með þeim degi urðum við góðir vinir. Steini og hans yndislega fallega fjölskylda voru nýflutt úr sveitinni þegar við kynntumst og ég er svo þakklátur því að vegir okkar lágu saman. Steini var mjög ríkur maður af mannkostum og hafði hann mikil áhrif á mig strax frá byrjun. Ég tók hann til fyrirmyndar í svo mörgu. Oft töluðum við illa um aðra en enduðum alltaf á þeirri skoðun að allir reyndu að gera sitt besta. Steini var óspar í að hrósa öðrum sem ekki voru á staðnum. Steini gat á augnabliki sett sig í aðstæður annarra og sýnt samkennd, oft til þeirra sem minna máttu sín. Bros og hlýja: Steini var óspar á brosmildi, hvort sem það var til vina, vandamanna, viðskiptavina, ungra sem aldinna. Steini sagði að brosið væri ókeypis og ekki væri hægt að skattleggja það, þess vegna ætti að dreifa því út um allt og til allra. Æfðu þig að brosa á hverjum degi, maður hressist á því, sagði hann.

Reiður: Steini gat stundum orðið reiður út af einhverju sem honum fannst óhjákvæmilegt, en oftast var reiðin farinn eftir 2 til 3 mínútur.

Steini var heljarinnar sterkur að afli, handlaginn og útsjónarsamur þegar að vinnu kom og óhræddur að gangast í stór verk.

Auðviðtað var Steini ekki gallalaus en ég bara sá ekki gallana vegna þess að mannkostirnir voru svo yfirgnæfandi.

Þegar ég skrifa þessar hugsanir mínar er ég sorgbitinn, en þegar ég hugsa til baka koma upp í huga mínum alveg ótal mörg skemmtileg atvik sem ég get ekki annað en brosað yfir. Hér kemur eitt frá gömlum tíma: Á einhverju tímabili fórum við að fikta við að reykja. Við vorum ekkert með venjulegar sígarettur heldur fórum við að reykja, að okkar áliti, alveg „bráðholla“ vindla af bestu gerð. Við fórum að rífast um hvor vindlategundin væri „hollari“ þegar við reyktum hvor sína tegundina. Svo hlógum við bara.Við náðum að rækta vináttu í 40 ár. Um tíma liðu þó sex ár og við heyrðum ekkert hvor í öðrum. Báðir vorum við uppteknir af einhverju öðru í lífinu en svo þegar við hittumst á ný var eins og við hefðum engu gleymt.

Steini, ég hefði alveg viljað sjá þig sem forseta, forsætisráðherra eða einhvern valdamann á Íslandi vegna þess að þá hefði íslenska ríkinu gengið vel, er ég viss um. Allir hefðu virt þig, elskað og dáð og þú hefðir stýrt með þínu fallega hjarta og klóku hugmyndum.

Takk, Steini, fyrir að vilja vera vinur minn. Takk fyrir hvað þú varst yndislegur, einlægur og fallegur. Takk fyrir allt sem þú gafst mér.

Inga, Sigríður, systkini og ættingjar. Ég vill votta ykkur samúð mína og vona að þið finnið kraft að takast á við sársaukann í fallegum minningum um Steina. Kærleikur og friður.

Hafliði Stefán Gíslason.