Framleiðandi verður ekki gerður ábyrgur ef hann hefur ekki dreift vörunni sjálfur, hann hafi ekki framleitt hana í atvinnuskyni og ágallinn verði rakinn til ófrávíkjanlegra fyrirmæla opinberra aðila.

Hér á landi er gengið út frá því að framleiðandi vöru og sá sem dreifir henni beri ábyrgð á tjóni sem varan veldur. Reyndar er þar um nokkra einföldun að ræða þar sem ábyrgðin nær hvort tveggja til tjóns á öðrum hlut og líkamstjóns, en er takmörkuð við venjulega notkun vörunnar og stafar af ágalla hennar. Þetta er nefnt skaðsemisábyrgð og um hana gilda lög nr. 25/1991. Líta má á lögin sem hluta neytendaverndar og voru þau sett til að samræma íslensk lög, reglum sem gilda í flestum Evrópuríkjum. Lögin gilda um tjón sem verður vegna eiginleika vöru sem seld er til neytenda og venjulega til einkanota. Þó að um skaðsemisábyrgð gildi þessi sérlög, er ekki loku fyrir það skotið að tjónþoli geti sótt rétt sinn eftir almennum reglum um skaðabætur en þó eru sérstakar fyrningarreglur í tilviki skaðsemisábyrgðar, óháð því á hvaða lagagrunni bótarétturinn er reistur. Fjölmargar takmarkanir eru í lögunum um réttmæti krafna af þessu tagi. Þannig er „vara“ skilgreind sem hvers kyns lausafjármunur, þar á meðal afurðir náttúrunnar og rafmagn svo dæmi sé tekið. Það telst ágalli þegar vara er ekki eins örugg og með réttu mátti vænta með hliðsjón af því hvernig vara var boðin fram og kynnt og þeirri notkun sem sanngjart er að gera ráð fyrir. Framleiðandi verður ekki gerður ábyrgur ef hann hefur ekki dreift vörunni sjálfur, hann hefur ekki framleitt hana í atvinnuskyni og ágallinn verður rakinn til ófrávíkjanlegra fyrirmæla opinberra aðila.

Ítrekað hefur reynt á reglur um skaðsemisábyrgð fyrir íslenskum dómstólum. Í hæstaréttarmáli nr. 384/2001 var aðstaðan sú að í apríl 1999 höfðu tveir menn keypt fersk kjúklingalæri, sem eitt kjúklingabúa landsins hafði framleitt. Mennirnir grilluðu lærin og neyttu þeirra, en veiktust nokkrum dögum seinna. Höfðu þeir smitast af kamfýlóbakter sýkli. Leiðbeiningar voru á umbúðum læranna um að þau bæri að elda í gegn. Mennirnir höfðuðu mál gegn framleiðandanum og kröfðust skaðabóta á grundvelli skaðsemisábyrgðar. Töldu þeir að framleiðandanum hefði verið kunnugt um sýkinguna í kjúklingastofni hans og borið að merkja vöruna sérstaklega með tilliti til þess. Í málinu var upplýst að hefðu þeir eldað vöruna samkvæmt leiðbeiningum á umbúðum, þ.e. í gegn, hefðu þeir ekki sýkst þar sem sýkillinn þoli lítinn hita. Jafnvel þó sýnt hefði verið fram á að kamfýlóbaktersýkingar væru tíðari á búi framleiðandans en annars staðar, var ekki talið sannað að lærin hefðu verið haldin ágalla í merkingu laga um skaðsemisábyrgð og framleiðandinn því sýknaður.

Annað var uppi á teningnum í dómi Hæstaréttar nr. 79/2010. Tildrög málsins voru þau að fimm ára stúlka hafði keypt súran sælgætisúða í söluturni, sem ætlaður var til að úða í munn litlum skammti, beint úr umbúðunum. Stúlkan hafði náð að opna umbúðirnar og tekið sopa af innihaldinu. Vegna þess hve vökvinn var súr hafði henni svelgst á og hluti vökvans borist í lungu þar sem hann olli margvíslegum meinsemdum. Urðu afleiðingarnar þær að varanlegur miski hennar var metinn 8% og varanleg örorka sú sama. Á umbúðunum voru aðvaranir á ensku, en ekki vikið að því að varasamt væri að taka umbúðirnar í sundur, né að hættulegt væri að súpa af vökvanum. Móðir stúlkunnar stefndi innflytjanda vörunnar og söluturninum og krafðist skaðabóta fyrir hennar hönd. Varð niðurstaðan sú að henni voru, á grundvelli laga um skaðsemisábyrgð, dæmdar bætur úr hendi beggja, innflytjanda vörunnar og söluturninum.

Það er því ekki á vísan að róa þegar deilt er um ábyrgð á skaðlegum eiginleikum vöru. Atvik og aðstæður ráða hvort tekst að sanna ábyrgð þeirra sem framleiða vöru, dreifa eða bjóða hana fram, eins og e.t.v. má ráða af ofangreindum dómum. Þegar öllu er samt á botninn hvolft hlýtur það að teljast fagnaðarefni að hér á landi sé í gildi löggjöf sem verndar hagsmuni neytenda í þessum efnum.