Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Gary Martin, markakóngur úrvalsdeildar karla í knattspyrnu 2019, var besti leikmaður deildarinnar í septembermánuði samkvæmt M-einkunnagjöf Morgunblaðsins.
Martin fékk sex M fyrir fjóra leiki sína með ÍBV í lokaumferðum Íslandsmótsins, en í þessum fjórum leikjum skoraði Englendingurinn átta mörk og tryggði sér markakóngstitil deildarinnar með 14 mörk samtals.
Þrír leikmenn fengu fimm M í síðustu fjórum umferðum deildarinnar. Það voru Kennie Chopart, hægri bakvörður KR-inga, og FH-ingarnir og framherjarnir Steven Lennon og Morten Beck Guldsmed, sem samanlagt gerðu 12 mörk fyrir Hafnarfjarðarliðið í þessum fjórum leikjum. Morten Beck var þar af með tvær þrennur.
Fimm leikmenn hrepptu viðurkenninguna „leikmaður mánaðarins“ hjá Morgunblaðinu á tímabilinu og það voru eftirtaldir:
Maí: Stefán Teitur Þórðarson, ÍA
Júní: Óskar Örn Hauksson, KR
Júlí: Ásgeir Börkur Ásgeirsson, HK.
Ágúst: Kristinn Jónsson, KR
September: Gary Martin, ÍBV.
Úrvalslið septembermánaðar, byggt á M-gjöfinni, má sjá hér fyrir ofan.