Maó hylltur Stór mynd af Maó Zedong á torginu við Hlið hins himneska friðar í Peking í gær þegar kínversk stjórnvöld minntust þess að 70 ár eru liðin frá því að kommúnistaleiðtoginn lýsti yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína.
Maó hylltur Stór mynd af Maó Zedong á torginu við Hlið hins himneska friðar í Peking í gær þegar kínversk stjórnvöld minntust þess að 70 ár eru liðin frá því að kommúnistaleiðtoginn lýsti yfir stofnun Alþýðulýðveldisins Kína. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Átök blossuðu upp milli lögreglumanna og mótmælenda í Hong Kong í gær þegar tugir þúsunda lýðræðissinna tóku þátt í mótmælum í sjálfstjórnarhéraðinu á sama tíma og kínverski kommúnistaflokkurinn hélt upp á 70 ára afmæli Alþýðulýðveldisins Kína með mikilli hersýningu og skrúðgöngu í miðborg Peking. Kínversk stjórnvöld notuðu tækifærið til að leggja áherslu á stöðu landsins sem vaxandi stórveldis, m.a. með því að sýna ný kínversk vopn á borð við langdrægar kjarnorkueldflaugar.

Á sama tíma og 15.000 manna herlið heilsaði Xi Jinping, forseta Kína, að hermannasið í Peking köstuðu mótmælendur eggjum á mynd af honum í miðborg Hong Kong. Mótmælendurnir virtu að vettugi fyrirmæli lögreglunnar um að dreifa sér og sumir þeirra kveiktu í vegartálmum og köstuðu grjóti og bensínsprengjum á lögreglumenn sem beittu táragasi, skutu gúmmíkúlum og dældu vatni á mótmælendur með háþrýstivatnsbyssum. Einn lögreglumannanna særði ungan mann með því að skjóta byssukúlu í bringuna af stuttu færi. Maðurinn var fluttur á sjúkrahús eftir að lögreglumenn á staðnum veittu honum aðhlynningu.

Átökin stóðu í nokkrar klukkustundir og vörpuðu skugga á hátíðarhöldin í Peking í tilefni af því að Maó Zedong lýsti yfir stofnun alþýðulýðveldisins við Hlið hins himneska friðar 1. október 1949.

Ný kjarnavopn sýnd

Xi og aðrir leiðtogar kommúnistaflokksins fylgdust með hersýningunni og skrúðgöngunni á palli við Hlið hins himneska friðar. Xi var í fatnaði sem kenndur er við Maó og flutti ræðu þar sem hann lagði áherslu á loforð sín um að efla kínversku þjóðina og gera Kína að miklu landi aftur. „Ekkert afl getur skekið grunn þessarar miklu þjóðar,“ sagði hann.

Forsetinn hvatti einnig til „friðsamlegrar þróunar“ í samskiptunum við Taívan en áréttaði að kínversk stjórnvöld stefndu enn að því að sameina eyjuna og Kína, jafnvel með því að beita hervaldi ef þörf krefði.

Hersýningin var sú mesta í sögu landsins, að sögn kínverskra fjölmiðla. Alls voru 160 flugvélar og 580 aðrar vígvélar sýndar, að sögn fréttaveitunnar AFP . Á meðal vopnanna var DF-41, langdræg eldflaug sem getur borið allt að tíu kjarnaodda og hægt væri að skjóta á meginland Bandaríkjanna. Kínverski herinn sýndi einnig kjarnorkuflaugina JL-2, sem hægt væri að skjóta úr kafbáti og gæti dregið um 8.000 kílómetra, að sögn vestrænna vopnasérfræðinga. Herinn sýndi ennfremur í fyrsta skipti nýjan hljóðfráan njósnadróna. Kínverska fréttastofan Xinhua sagði að 40% vopnanna á sýningunni væru ný og þau hefðu öll verið framleidd í Kína.

Herútgjöldin aukin um 83%

Adam Ni, sérfræðingur í hernaðaruppbyggingunni í Kína, segir að hersýningin hafi staðfest að kjarnorkuherafli Kínverja hafi eflst verulega á síðustu árum. „Kjarnavopn þeirra eru að verða hreyfanlegri, öflugri, traustari, nákvæmari og tæknilega þróaðri,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Ni sem stundar rannsóknir við Macquarie-háskóla í Sydney. Hann segir að kjarnavopnin sé orðin fjölbreyttari, kínverski herinn reiði sig ekki lengur aðeins á landskotflaugar heldur hafi hann einnig eignast vopn sem hægt sé að skjóta úr kafbátum og flugvélum.

Útgjöld Kínverja til hersins hafa aukist um 83% frá árinu 2009, að því er fram kom í skýrslu Alþjóðafriðarrannsóknastofnunarinnar (IPRI) í Stokkhólmi í apríl. Kína er nú í öðru sæti á lista yfir lönd með mestu herútgjöld en er samt enn langt á eftir Bandaríkjunum í þeim efnum.

Um 100.000 manns tóku þátt í skrúðgöngu í tilefni af afmælinu og 70 skrúðvögnum var ekið um Breiðstræti hins eilífa friðar. Einn vagnanna var tileinkaður herferð Xi Jinping gegn spillingu. Kínversk yfirvöld hafa refsað rúmri milljón embættismanna fyrir spillingu en herferðin hefur verið gagnrýnd vegna þess að talið er að hún hafi beinst að pólitískum keppinautum forsetans og stuðningsmönnum þeirra. Annar vagn var tileinkaður innviðaáætluninni Belti og braut, en samkvæmt henni er stefnt að miklum fjárfestingum í vegum, járnbrautum, höfnum, flugvöllum og öðrum mannvirkjum í tugum landa í Asíu, Evrópu og Afríku með það fyrir augum að greiða fyrir viðskiptum og aðgangi Kínverja að mikilvægum markaðssvæðum og hráefnum til iðnaðar.

Aðrir skrúðvagnar voru tileinkaðir ýmsum atburðum í sögu alþýðulýðveldisins en enginn þeirra lýsti hörmungaratburðum á borð við pólitísku kúgunina og hungursneyðina sem kostaði tugi milljóna manna lífið á valdatíma Maós.