Það lá vel á karlinum á Laugaveginum þegar ég hitti hann. Hann hafði skroppið upp í hesthúsabyggðir og séð þar fallega hesta brúna bregða á leik í haustblíðunni. Ég spurði hann hver ætti hrossin.

Það lá vel á karlinum á Laugaveginum þegar ég hitti hann. Hann hafði skroppið upp í hesthúsabyggðir og séð þar fallega hesta brúna bregða á leik í haustblíðunni. Ég spurði hann hver ætti hrossin. Hann velti vöngum, skaut höfðinu aftur á bak til vinstri eins og hans er vandi og sönglaði:

Mín kerling er lipur og létt.

Á laugardag, það hef ég frétt,

þó komið sé haust

hún kveður við raust

og hestunum hleypir á sprett.

Og tók strikið upp á holtið en gaf sér þó tíma til að skjóta að mér vísukorni:

Ég kann best við brúna hesta, vinur,

þegar þeim hleypi á þeysireið, –

þegar þeir tölta eða renna á skeið.

Vel fer á að rifja hér upp stöku um Hákon Eyjólfsson á Stafnesi. Guðmundur Salómonsson segir frá því í Rauðskinnu hinni nýrri að í gamla daga hafi hann oft séð Hákon á sjó á tólfæringnum sínum (hafði barkaróður), er kallað var. Hann var sjósóknari og aflamaður eins og vísan bendir til:

Völdum róa voghesti

varla óar Hákoni.

Ber úr sjóar botnhvolfi

björg heim nóga að Stafnesi.

Guðmundur segir að gaman hafi verið á sjó í góðu veðri, þegar hafsíld var með fiskigöngu. Þá var súlan á hreyfingu og stakk sér óspart þar sem hún sá síldina ofarlega í sjónum. Kom þá fjör í sjómenn að verða fyrstir í gerið því að oft var þar ör fiskur. Súlan var eins og hagldrífa kringum skipið að stinga sér:

Eins og klettur ofan í dettur sjóinn,

súlan slettir sér á kaf

svo að skvettur kemur af.

Faðir Guðmundar fékk eftir föður sinn Björn Brandsson tveggja manna far, sem vel hafði aflast á og var happasælt. Björn smíðaði það og skírði með þessari vísu:

Veiðibjalla bátur kallist þessi:

Gæfan hallist honum að.

Herrann allra gefi það.

Stefán Þorleifsson á Presthólum orti:

Loksins þá mitt lífið valt

lyktar einu sinni

því fer verr að ei fer allt

illt úr veröldinni.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is