Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Fjölmenni fagnaði því í gær í Menntaskólanum í Sund að rétt 50 ár – hálf öld – eru frá því starf skólans hófst. Af því tilefni var hátíðarsamkoma á sal skólans, þar sem Már Vilhjálmsson rektor rakti í grófum dráttum sögu og starf skólans. Einnig tóku til máls Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem þarna var komin sem fyrrverandi nemandi skólans og fyrrverandi formaður nemendafélags skólans.
Í dag, miðvikudag, verður haldið upp á 50 ára afmæli skólans með nemendum. Síðar á skólaárinu verður svo opið hús þar sem starfið verður kynnt gestum og gangandi. Þá voru í gær opnaðar tvær litlar sýningar um sögu skólans og eru þær á göngum skólahússins við Gnoðarvog í Reykjavík.
Skammur aðdragandi
Í ávarpi við afmælishátíðina í gær sagði Már Vilhjálmsson, rektor MS, að stofnun skólans á sínum tíma hefði átt sér skamman aðdraganda. Síðsumars 1969 hefðu stjórnvöld uppgötvað að 300 ungmenni þyrftu skólapláss sem ekki voru til. Við þær aðstæður hefði Miðbæjarskólinn verið nánast hertekinn og látið skeika að sköpuðu með framhaldið. Býsna fljótt hefði þó myndast menning og bragur í starfi skólans, hvaðan fyrstu nemendurnir voru útskrifaðir árið 1973. Það var svo fáum árum síðar sem aðsetur skólans var flutt í Vogahverfið og núverandi nafn tekið upp.Í dag starfa um 60 manns við Menntaskólann við Sund og eru kennararnir nærri 50. Nemendur eru yfirleitt á bilinu 740-780 og eru þeir í námi til stúdentsprófs sem tekur þrjú ár. Már Vilhjálmsson segir skólastarfið vera í hraðri þróun og sé í raun suðupottur hugmynda, sköpunar og nýjunga. Samfélag nútímans breytist hratt og skólar verði að taka mið af því.
Hvetja nemendur áfram
„Skólar geta ekki leyft sér að vera hlutlausir, “ segir Már. „Það er okkar hlutverk að hvetja nemendur áfram, að vekja með þeim áhuga, að ýta undir gagnrýna hugsun og samkennd. Að kenna þeim að efast og efla með þeim þor til að takast á við breyttan heim og getu til þess að móta sjálf breytingarnar og ekki síst að gefast ekki upp við mótlætið. Lýðræðisvitund, umhverfismál, listir og sköpun eru grunnþættir í starfi skólans og námskráin býr yfir sveigjanleika sem gerir skólanum og nemendum kleift að takast á við breytingar. Námskráin er skrifuð fyrir nemendur.“Stytting náms til stúdentsprófs segir Már Vilhjálmsson að hafi gefið MS eins og öðrum skólum frelsi og tækifæri til að setja sér eigin skólanámskrá. Þannig hafi í raun verið skapað nýtt kerfi utan um skólastarfið, stjórnun skipulögð, nýjar reglur og svo framvegis. Afraksturinn af þessu sé í raun nýr skóli sem halda muni áfram að breytst. Í þessu ferli hafi starfsfólk skólans stigið út fyrir þægindarammann, tekist á við hið óþekkta og gert breytinguna að sinni.