Ingibjörg Sigmundsdóttir fæddist 23. mars 1942 í Túni í Flóa. Hún lést á Landspítalanum 24. september 2019.

Foreldrar hennar voru Sigmundur Ámundason, f. 12.3. 1906, d. 8.10. 1976, bóndi í Túni á Laugum og í Hraungerði, Hraungerðishreppi, Árnessýslu, og Guðrún Guðmundsdóttir, f. 28.12. 1910, d. 27.4. 1996, húsfreyja í Túni, á Laugum og í Hraungerði. Systkini Ingibjargar eru Guðmundur Heiðar, f. 14. júlí 1935, Svavar, f. 7. september 1939, og Ragnheiður, f. 23. apríl 1946.

Ingibjörg ólst upp á Laugum og Hraungerði og sótti barnaskóla á Þingborg og svo framhaldsnám í Miðskólanum á Selfossi. Veturinn 1961-1962 var hún nemandi við Húsmæðraskóla Suðurlands að Laugarvatni.

Hinn 19. ágúst 1962 giftist Ingibjörg eftirlifandi eiginmanni sínum Albert H.N. Valdimarssyni, f. 15. október 1938 í Hreiðri, Holtahreppi, Rangárvallasýslu.

Foreldrar hans voru hjónin Valdimar Sigurjónsson, f. 12. ágúst 1900, d. 30. júlí 1986, og Guðrún Margrét Albertsdóttir, f. 4. desember 1902, d. 29. apríl 1970. Systkini Alberts eru Sigurjón Margeir, f. 22. júlí 1937, Laufey Sveinfríður, f. 26. janúar 1940, Jóna Heiðbjört, f. 11. október 1943, og Valgerður, f. 24. mars 1946.

Ingibjörg og Albert bjuggu fyrstu búskaparárin á stúdentagarði í Ósló, þar sem Albert stundaði háskólanám og Ingibjörg vann í stúdentamötuneytinu. Árið 1968 fluttu þau til Íslands og settust að í Hafnarfirði. Eftir heimkomuna aflaði Ingibjörg sér frekari menntunar og hóf störf sem læknaritari á Landspítalanum og starfaði þar til starfsloka 2009.

Kjörsonur Ingibjargar og Alberts er Óskar Bergmann Albertsson, f. 14.10. 1974, starfsmaður í Ásgarði handverkstæði, Álafossvegi 22, Mosfellsbæ.

Ingibjörg var lengi virk í starfi Kvenfélags Hafnarfjarðarkirkju og var mörg ár í stjórn Sálarrannsóknarfélagsins í Hafnarfirði.

Útför Ingibjargar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 2. október 2019, klukkan 13.

Haustið heilsar með veðurblíðu. Mamma mín kvaddi þetta líf með sól í hjarta. Hún var ekki eingöngu mamma mín heldur líka kletturinn í lífi mínu. Ég kom inn í líf mömmu og pabba þegar ég var fimm ára gamall og þau tóku mig í fóstur.

Mamma var ákveðin í því að taka þennan veika snáða að sér sem var alls ekki sjálfgefið. En mamma og pabbi bjuggu mér gott og fallegt heimili.

Mamma var stórkostleg í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Við vorum dugleg að fara í leikhús frá því að ég var átta til níu ára gamall og að því bý ég enn. Takk mamma. Við vorum líka dugleg að ferðast, bæði innan lands og til útlanda. Mamma var frábær í eldhúsinu, bakaði og eldaði góðan mat. Jólakökurnar hennar voru varla komnar úr ofninum þegar þær voru búnar. Ég byrjaði snemma að kíkja í pottana hjá mömmu og mamma sagði við mig:

„Ekki detta ofan í pottinn, Óskar minn!“ Mamma hafði gaman af því að prjóna og var eiginlega eins og prjónaverksmiðja. Húfur, vettlingar, treflar og margt fleira rann úr höndunum á henni og margt af því gaf hún til góðgerðarmála. Minningabankinn er stór og ég þakka þér fyrir öll þessi góðu ár, mamma mín.

Óskar B. Albertsson.

Klukkur tímans tifa

telja ævistundir

ætíð lengi lifa

ljúfir vinafundir.

Drottinn veg þér vísi

vel þig ætíð geymi

ljósið bjart þér lýsi

leið í nýjum heimi.

(Hákon Aðalsteinsson)

Það er margs að minnast er við nú kveðjum elskulega mágkonu okkar hana Ingibjörgu. Hún kom ung stúlka inn í fjölskyldu okkar, broshýr og elskuleg. Hún varð strax sem ein af okkur systrum og foreldrar okkar eignuðust fjórðu dótturina.

Albert og Ingibjörg giftu sig í Hraungerðiskirkju 19. ágúst 1962. Síðan lá leið þeirra til Noregs þar sem Albert lagði stund á nám en Ingibjörg vann í mötuneyti, en fjárhagur leyfði ekki að bæði stunduðu nám. Eftir heimkomuna lærði Ingibjörg til læknaritara og starfaði við það allt þar til hún hætti sökum aldurs.

Þau hjón tóku í fóstur og ættleiddu ungan dreng, Óskar Bergmann. Strax varð hann mikill sólargeisli í lífi þeirra og nú í þessum erfiðu veikindum hefur hann staðið sem klettur við hlið móður sinnar og verið foreldrum sínum mikill stuðningur.

Við systkinin erum samhentur hópur og hafa Ingibjörg og Albert verið ómetanlegur hlekkur í keðju afkomendanna frá Hreiðri. Saman hafa þau ferðast mikið innanlands sem utan og ræktað fjölskyldu- og vináttubönd. Oft hefur leið þeirra legið hingað austur fyrir fjall og á æskuslóðir Alberts í Hreiðri.

Ingibjörg var félagslynd og starfaði hún með kvenfélagi þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði og sótti félagsstarf eldri borgara, aðallega spilavistina. Hún hafði mjög gaman af því að spila og þegar þau komu í heimsókn var ætíð gripið í spil.

Okkur er þakklæti efst í huga nú, fyrir að hafa átt Ingibjörgu að í öll þessi ár. Við þökkum henni samfylgdina og allar góðar stundir og óskum henni góðrar heimkomu á ströndinni fyrir handan þar sem ástvinir bíða í varpa.

Alberti, Óskari og öðrum ástvinum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Laufey, Sigurjón,

Jóna og Valgerður.

Eftir því sem maður eldist gerir maður sér betur grein fyrir því hversu mikil forréttindi eru falin í góðri og samheldinni fjölskyldu og því að vera umkringdur fólki sem þykir vænt um mann og er tilbúið til að styðja mann í hvívetna.

Mamma okkar á fjögur systkini og eru þau og fjölskyldur þeirra öll dýrmætur og mikilvægur hluti af okkar lífi. Undanfarið hefur fækkað í hópnum og í dag kveðjum við Ingibjörgu, eiginkonu Alberts, móðurbróður okkar. Þau hjónin og sonur þeirra hann Óskar hafa verið hluti af okkar fjölskyldu alla tíð.

Minningarnar eru margar og allar góðar um Ingibjörgu, sem ávallt var brosmild og glöð. Alltaf ánægð yfir því að hitta okkur og alltaf fyrst til að heilsa með þéttu faðmlagi og kossi.

Samverustundirnar voru margar og ánægjulegar. Það var ævintýri fyrir okkur að eiga frændfólk í Hafnarfirði sem ávallt tók okkur opnum örmum. Fyrst á Álfaskeiðinu, þar sem það að búa í blokk var eitt og sér nóg til að landsbyggðarfólkið fylltist undrun og aðdáun, en síðar varð umhverfið á Öldugötunni uppspretta leikja og ævintýra.

Það ríkti eftirvænting hjá okkur systkinum þegar þau hjónin tóku að sér lítinn dreng, hann Óskar, en hann varð fljótt mikill gleðigjafi, ekki bara hjá þeim heldur okkur einnig. Milli hans og mömmu hans hefur verið einstakt samband og hefur verið aðdáunarvert að fylgjast með því hversu góður hann hefur verið við mömmu sína í veikindum hennar.

Alla okkar ævi hafa Ingibjörg, Albert og svo Óskar verið hluti af okkar fjölskyldu. Afmælisveislur, hátíðisdagar og venjulegar helgar voru ekki eins ef þau voru ekki með okkur. Við vorum þeirra og þau voru okkar.

Að leiðarlokum viljum við þakka Ingibjörgu einstaka hlýju í okkar garð og allar ánægjustundirnar sem við höfum átt saman. Alberti og Óskari vottum við okkar innilegustu samúð, þeirra er missirinn mestur.

Aldís, Valdimar, Guðrún,

Sigurbjörg og fjölskyldur,

Hveragerði.

Ingibjörg frænka mín hafði ekki mörg orð um hlutina en lét verkin tala.

Við frænkur, sem í grunninn erum ættaðar frá Kambi í Flóa, höfum fylgst að gegnum skóla lífsins með viðkomu í Húsmæðraskóla Suðurlands á Laugarvatni fyrir margt löngu. Eftir þann góða vetur 1961-2 varð til saumaklúbburinn „Húsóskvísur“ sem hefur það að markmiði að lifa fyrir líðandi stund í gleði og sorg og auðvitað hafa handavinnuna að leiðarljósi. Ýmislegt hefur verið brallað og alltaf var hún til í sprellið, en ekki féll henni verk úr hendi þó að mikið væri spjallað og hlegið. Og dásamlegt var að fylgjast með frænku þegar móðurhlutverkið brast á og þau Albert ljómuðu af gleði og stolti, og ekki var síður fallegt að fylgjast með elsku Óskari vaxa og dafna í þeirra skjóli.

Kæra frænka, hafðu hjartans þökk fyrir þína ljúfu návist og visku á lífsins leið, alltaf svo sterk og til staðar. Við í „saumó“ söknum sannarlega góðrar vinkonu en við þykjumst vita að vel hafi verið tekið á móti þér af þeim sem farnar er á undan.

Elsku Albert, Óskar og fjölskylda. Megi ljós lífsins lýsa ykkur leið.

Blessuð sé minning heiðurskonunnar Ingibjargar Sigmundsdóttur.

Fyrir hönd saumaklúbbsins „Húsóskvísur“,

Hjördís Geirsdóttir.