Hótanir Pakistana og harka Indverja eru áhyggjuefni

Það bar til tíðinda í liðinni viku að Imran Khan, forsætisráðherra Pakistans, ákvað að nýta tækifærið í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til að vara við því, að framferði Indverja í Kasmír-héraði á undanförnum mánuðum gæti leitt til stríðs á milli Indverja og Pakistana.

Herlög hafa ríkt í héraðinu, sem löngum hefur verið bitbein nágrannaríkjanna tveggja, frá því í ágúst síðastliðnum, þegar Narendra Modi, forsætisráðherra Indlands, lét nema sjálfstjórn héraðsins úr gildi. Pakistanar saka að auki Indverja um að hafa staðið að alls kyns kúgun gagnvart Kasmír-búum, sem flestir aðhyllast íslamstrú. Á móti hafa Indverjar sakað Pakistana um að styðja við bakið á hryðjuverkaöflum innan Kasmír-héraðs, og í febrúar brutust út skærur á landamærum ríkjanna þegar Indverjar hugðust refsa fyrir þann meinta stuðning.

Vert er að hafa í huga að ríkin hafa háð fjórar styrjaldir sín á milli, en einungis ein þeirra var eftir að bæði ríkin vígvæddust kjarnorkuvopnum í óþökk annarra ríkja. Þá mun hafa munað litlu að Pakistanar teldu sig þurfa að beita þeim. Og Khan talaði enga tæpitungu á föstudaginn um það að „allt gæti gerst“ og að Pakistanar myndu verja sig fram í rauðan dauðann ef styrjöld brytist út. Sagði hann að auki beint út, að þegar um kjarnorkuvædd ríki væri að ræða hefðu slík átök afleiðingar langt út fyrir landsteina ríkjanna sem tækjust á.

Kjarnorkuhótanir Khan ber því að taka alvarlega. Og víst er, að verði styrjöld um Kasmír að veruleika, þurfa ríki heims að huga vandlega að því að hún breytist ekki í eitthvað annað og miklu verra. Og miðað við þau viðbrögð sem ræðan fékk í héraðinu, þar sem óeirðir brutust út sem kölluðu á hörð viðbrögð lögreglu og útgöngubann, virðist sem kveikiþráðurinn sé orðinn afar stuttur.

Á sama tíma er ljóst, að hið hörkulega framferði Indverja í Kasmír hefur ekki orðið til þess að auka stöðugleika í héraðinu. Og séu þær ásakanir sannar sem borist hafa um að Indverjar hafi látið fangelsa og jafnvel pyntað fjölda fólks í héraðinu, þar á meðal stjórnmálamenn og forkólfa í viðskiptalífi þess, án þess að það hafi nokkuð til saka unnið, er einnig spurning hvernig ríki heims geta beitt sér þannig að sjálfsögð mannréttindi séu virt í fjölmennasta lýðræðisríki heims á sama tíma og reynt er að draga úr þeirri spennu sem nú ríkir. Því miður bendir hins vegar flest til þess að Kasmír-hérað verði bitbein milli þessara tveggja kjarnorkuvelda um nána framtíð.