Bókin Mörgum þykir nóg um þá stefnu sem stjórnmálin hafa tekið víða um heim. Í fjölda landa hafa misvandaðir menn og konur komist til valda í krafti lýðskrums og virðist þeim takast að espa upp og æsa bæði stuðningsmenn sína og andstæðinga.

Bókin

Mörgum þykir nóg um þá stefnu sem stjórnmálin hafa tekið víða um heim. Í fjölda landa hafa misvandaðir menn og konur komist til valda í krafti lýðskrums og virðist þeim takast að espa upp og æsa bæði stuðningsmenn sína og andstæðinga. Finnst sumum tilburðirnir minna óþægilega á marga alræmdustu leiðtoga síðustu aldar, og óttast að þeir leiði til þess að aftur dynji á mannkyninu hörmungar og átök af svipuðum toga og í seinni heimsstyrjöld.

Sagnfræðingurinn Frank Dikötter bendir á að þróunin sé, þrátt fyrir allt, í rétta átt. Borið saman við 20. öldina eru einræðisherrar á undanhaldi.

Hann er höfundur bókarinnar How to Become a Dictator: The Cult of Personality in the Twentieth Century , og gæti verið ágætis lesning fyrir þá sem vilja geta komið auga á hættumerkin áður en það er of seint.

Í verkinu dregur Dikötter upp knappa en skýra mynd af átta einræðisherrum sem fáir sakna; frá Francois Duvalier á Haítí og Haile Mariam í Eþíópíu, til Hitlers og Stalíns. Kemur í ljós að þessir karlar áttu ólíkt lífshlaup og komust til valda með ólíkum hætti, en eiga það þó allir sameiginlegt að hafa tekist að búa til mikla persónudýrkun í kringum sjálfa sig. Formúlan er yfirleitt sú sama, þar sem einræðisherrunum tekst að skapa sér þá ímynd að þeir séu miklir hæfileikamenn með ósköp alþýðlegar rætur, sem strita viðstöðulaust í þágu þjóðarinnar. Merkilegt nokk ná þeir oft líka að vefja erlendu áhrifafólki um fingur sér, og tekst um skeið að vera vinsælir og lofsamaðir jafnt innan lands síns sem utan. ai@mbl.is