Tækni Bandaríska tæknifyrirtækið Boston Dynamics kynnti fyrir skemmstu nýja kynslóð vinnuróbóta og vekja tækin bæði ugg og aðdáun. Þeir kalla tækið róbótahund (e.

Tækni

Bandaríska tæknifyrirtækið Boston Dynamics kynnti fyrir skemmstu nýja kynslóð vinnuróbóta og vekja tækin bæði ugg og aðdáun. Þeir kalla tækið róbótahund (e. Robotic Dog) og minnir það á einhvers konar hauslaust hundsskrímsli með vélrænt göngulag, sem slær aldeilis ekki á kvíða þeirra sem hafa horft á of margar kvikmyndir um hörmulega framtíð þar sem mannkynið þarf að verjast morðóðum vélmennum.

En ef tækið, sem fengið hefur nafnið Spot, verður til friðs er ljóst að það ætti að geta orðið að miklu gagni. Gönguhraði Spot er tæpir 5 km/klst. og græjan ræður við að ganga yfir eða umhverfis allar minniháttar hindranir. Tengja má arma við tækið til að grípa um hluti og vinna ýmis verk, eða nota sem burðardýr sem getur flutt allt að 14 kg hlass á milli staða. Tækið lætur ekki hita, kulda eða vætu á sig fá, og ef orkan klárast má einfaldlega skipta tómu rafhlöðunni út fyrir fulla.

Sjá þau hjá Boston Dynamics fyrir sér að Spot geti aðstoðað iðnarmenn við framkvæmdir, vaktað vinnustaði og komið að gagni við alls kyns hættulegar aðstæður. Verðið liggur ekki fyrir að svo stöddu. ai@mbl.is