Sviðsljós
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Það ætti að vera kappsmál EFTA-ríkjanna þriggja sem standa að Evrópska efnahagssvæðinu að styrkja tveggja stoða kerfið og standa vörð um trúverðugleika stofnana þess. Þá þarf að leggja grunn að meiri festu í allri stjórn og meðferð EES-mála hérlendis. Þetta er á meðal þess, sem starfshópur um EES-samstarfið leggur til, en skýrsla hópsins var kynnt í utanríkisráðuneytinu í gær.
Í hópnum, sem Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra skipaði í lok ágúst 2018, sátu þau Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, og lögfræðingarnir Kristrún Heimisdóttir og Bergþóra Halldórsdóttir. Leggur hópurinn meðal annars til að komið verði á fót sérstakri stjórnstöð EES-mála innan stjórnsýslunnar með föstu starfsliði, sem geti fylgst með öllu er varðar samstarfið á mótunar- og framkvæmdastigi.
Guðlaugur Þór segir að hann vonist til þess að skýrslan geti orðið grunnur að málefnalegri umræðu um þátttöku Íslands í EES-samstarfinu, en til þessa hafi umræða um samninginn snúist um of um lagatæknileg atriði. „Ég er algjörlega sammála niðurstöðu skýrslunnar og hef lagt á það áherslu að við erum okkar eigin gæfu smiðir þegar kemur að samningnum,“ segir utanríkisráðherra. „Það er alfarið undir okkur komið hvernig við gætum okkar hagsmuna, hvernig hann nýtist okkur og okkar fólki.“
Þörf áminning um vægi EES
Guðlaugur segir skýrsluna sömuleiðis veita þarfa áminningu um það hversu mikið EES-samningurinn hafi gefið þjóðinni. Það sé sama hvort horft sé á þau áhrif sem hann hafi haft fyrir til dæmis þá 40.000 námsmenn sem hafi nýtt sér ERASMUS+-samstarfið eða bara þau réttindi sem þyki sjálfsögð í dag, að geta lifað og starfað hvar sem er innan svæðisins. „Og þeir sem komu honum í gegnum þingið á sínum tíma, sem var mjög erfitt, mega hafa mikla þökk fyrir,“ segir Guðlaugur.Hann ítrekar að enginn muni gæta hagsmuna Íslands nema við sjálf og því hafi eitt af fyrstu verkum hans sem utanríkisráðherra verið að setja af stað vinnu til þess að efla hagsmunagæslu þjóðarinnar á vettvangi EES-samningsins. Í niðurstöðum skýrslunnar komi hins vegar fram góðar ábendingar til frekari úrbóta sem þing og þjóð þurfi að fara vel yfir. „Okkar sterkasta vopn í þeirri hagsmunagæslu er þekking og við þurfum að efla sérfræðiþekkingu okkar og langtímaminni í stjórnarráðinu til að geta beitt því með sem bestum hætti.“
Norrænt samstarf virkjað
Í skýrslunni er meðal annars vikið að þeim möguleika að norrænt lagasamstarf verði virkjað til meiri áhrifa við mótun ESB-löggjafar. Guðlaugur Þór segir að aðstæður í heiminum í dag kalli á það að samstarf norrænu ríkjanna sé eflt. „Mér finnst það því mjög góð og þörf ábending að styrkja samstarfið enn frekar og kannski formgera með einhverjum hætti.“Guðlaugur bætir við að auðvitað höfum við til þessa notið norrænu fjölskyldunnar okkar í þessu samstarfi. „Og þær eru fyrstu þjóðirnar sem við leitum til, til dæmis í hagsmunagæslu okkar, hvort sem það er á vettvangi EES eða gagnvart ESB.“
Nánari umfjöllun um vinnu starfshópsins er á mbl.is.
16% af allri lagasetningu
Starfshópurinn kannaði meðal annars fjölda laga sem samþykkt hefðu verið hér á landi sem ættu beinan uppruna í aðild Íslands að EES. Í þeirri samantekt kom fram, að af 3.071 lögum sem samþykkt hefðu verið á tímabilinu frá 1993 til 2019, hefðu 485 átt beinan uppruna í aðildinni að EES-samningnum, eða sem samsvarar um 15,8% af allri lagasetningu.Björn Bjarnason, einn af höfundum skýrslunnar, bendir á að margt af þeim lögum sem séu talin með í þessari tölu sé endurnýjun á eldri löggjöf þegar hún er uppfærð. Þá sé í mörgum málum mikilvægt að vera með sambærilega löggjöf. Björn nefnir sem dæmi nýleg lög um netöryggismál, sem erfitt hefði verið fyrir okkur að semja á eigin spýtur og fá viðurkennd þannig. „Þegar þannig lög eru sett sem spanna mörg landamæri, verðum við að taka mið af því og hafa í huga að löggjöfin sé viðurkennd af öllum.“