September Börnin hafa notið þess að leika sér í blíðunni undanfarið.
September Börnin hafa notið þess að leika sér í blíðunni undanfarið. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Nú er svokölluðu veðurstofusumri lokið, en það nær sem kunnugt er til mánaðanna júní til september. Nokkuð var gæðum þess misskipt eftir landshlutum, segir í yfirliti Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Nú er svokölluðu veðurstofusumri lokið, en það nær sem kunnugt er til mánaðanna júní til september. Nokkuð var gæðum þess misskipt eftir landshlutum, segir í yfirliti Trausta Jónssonar veðurfræðings.

Sunnanlands og vestan telst það í hópi þeirra hlýjustu og sólríkustu en norðanlands og austan var hiti lægri en í meðalsumri síðustu tíu ár og þungbúið lengst af. „Keppni í sumarhlýindum er orðin töluvert harðari heldur en var á árum áður,“ segir Trausti í yfirlitinu.

Í Reykjavík er sumarið það fimmta hlýjasta frá upphafi mælinga en vitað er um fleiri en 30 sumur hlýrri á Akureyri. Á landsvísu lendir hiti sumarsins í 25. til 26. sæti af þeim 146 sem reiknuð hafa verið.

Sé miðað við þá reglu að þriðjungur sumra teljist hlýr, og þriðjungur kaldur, var nýliðið sumar hlýtt við Faxaflóa og á Suðurlandi, en kalt á Ströndum og Norðurlandi vestra og á Austurlandi að Glettingi. Á öðrum spásvæðum telst það í meðallagi á öldinni.

Sé miðað við lengri tíma, t.d. 140 ár, er sumarið talið hlýtt á öllum spásvæðum, segir Trausti.

Lengi vel leit ekki vel út með hita í september, en glæsilegur endasprettur síðasta þriðjunginn kom honum upp í 4. hlýindasæti á öldinni við Faxaflóa og nánast upp í meðallag síðustu tíu ára um landið norðan- og austanvert.

Þetta var mikið sólskinssumar á Suðurlandi, líklega það þriðja sólríkasta í Reykjavík. Sólskinsstundir hafa verið mældar samfellt frá 1923 og þar að auki eru til heillegar eldri mælingar aftur til ársins 1912. sisi@mbl.is