Í eldhúsið Tölur innflytjenda sýna að Íslendingar eru duglegir að drekka kampavín. Landinn veit jú að þegar allt leikur í lyndi á að njóta lífsins vel og vandlega, fagna því að vera til og klára úr eins og einu glasi af þessum gyllta og göfuga drykk.

Í eldhúsið

Tölur innflytjenda sýna að Íslendingar eru duglegir að drekka kampavín. Landinn veit jú að þegar allt leikur í lyndi á að njóta lífsins vel og vandlega, fagna því að vera til og klára úr eins og einu glasi af þessum gyllta og göfuga drykk.

En það má njóta kampavínsins enn meira með því að opna það með tilþrifum. Vissulega er gaman að láta tappann þjóta, rétt upp á fjörið, en þeir sem vilja halda í hefðirnar opna kampavínsflöskurnar með sverði.

Verst að sverð eru ekki lengur hluti af hversdagsfatnaði fólks, og ekki gengur að ætla að djöflast á flöskunni með venjulegum brauðhníf. Svo er aldrei að vita nema að Tollstjóri léti það ekki afskiptalaust að panta sverð í fullri stærð frá útlöndum, til að hafa til taks í vínskápnum.

En hér er lausnin komin: þetta sniðuga áhald gerir sama gagn, og líklega auðveldara fyrir óvana að nota en sveðju í fullri stærð. Gripið og lögunin er þannig að ekki á að vera erfitt að ná högginu rétt, svo að toppurinn á flöskunni flýgur snyrtilega af. Það er fyrirtækið Morgenthaler sem framleiðir, og fæst gripurinn m.a. hjá netverslun Uncrate.com á 75 dali.

ai@mbl.is