[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bókaforlagið Salka gefur út fjölbreyttar bækur fyrir börn og fullorðna, en flestar bókanna eru ýmist fyrir yngstu kynslóðina og eða alla fjölskylduna.

Bókaforlagið Salka gefur út fjölbreyttar bækur fyrir börn og fullorðna, en flestar bókanna eru ýmist fyrir yngstu kynslóðina og eða alla fjölskylduna.

Útivera heitir bók Sabínu Steinunnar Halldórsdóttur sem hefur að geyma hugmyndir til að fjölga gæðastundum fjölskyldunnar úti í náttúrunni á öllum árstímum. Sabína hefur sérhæft sig í hreyfifærni barna með áherslu á útivist í námi og starfi. Hún hefur haldið fjölda námskeiða og skrifað kennslubækur um efnið sem er henni afar hugleikið.

Spennubókin Fjötrar eftir Sólveigu Pálsdóttur segir frá því er kona finnst látin í klefa sínum í fangelsinu á Hólmsheiði. Guðgeir og félagar hans rannsaka málið sem reynist hafa ótal þræði og teygja anga sína víða, alla leið til stóra skjálftans um aldamótin þar sem ungur maður hvarf sporlaust.

Salka gefur einnig út fyrstu skáldsögu Díönu Sjafnar Jóhannsdóttur sem nefnist Ólyfjan og tekst meðal annars á við eitraða karlmennsku.

Nína óskastjarna og ævintýrið á Álfhóli eftir Helgu Arnardóttur er einnig fyrsta bók höfundar. Bókin segir frá Nínu sem er dugleg að heimsækja ömmu Grímeyju í sveitina og hjálpa henni með bústörfin. Einn daginn breytist allt þegar ömmu er tilkynnt að það eigi að byggja stórt lúxushótel á lóðinni hennar og Nína ákveður að taka málin í sínar hendur. Ylfa Rún Jörundsdóttir myndskreytir bókina.

Ný matreiðslubók Evu Laufeyjar Kjaran Hermannsdóttur heitir Í eldhúsi Evu og hefur að geyma eftirlætisuppskriftir Evu.

Blesa og leitin að grænna grasi heitir barnabók eftir Láru Garðarsdóttur sem segir frá Blesu, hryssu í haga sem leiðist ógurlega mikið. Týri, vinur hennar, rekur hana af stað í leiðangur um allt land.

Einnig er væntanleg ný bók Iðunnar Steinsdóttur um Snuðru og Tuðru, Snuðra og Tuðra taka til , sem Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir myndskreytir.

Kormákur leikur sér er fjórða bókin um snáðann Kormák eftir Jónu Valborgu Árnadóttur og Elsu Nielsen og segir frá því er Finna frænka kemur í heimsókn með óvæntan glaðning.

Einnig er væntanleg íslensk þýðing á Becoming , bók Michelle Obama, fyrrum forsetafrúar Bandaríkjanna, og mun heita Verðandi á íslensku. Katrín Harðardóttir þýðir.

Á árinu hefur Salka gefið út nokkrar bækur, þar a meðal Vökukonuna í Hólavallagarði eftir Guðrúnu Rannveigu Stefánsdóttur, Snuðru og Tuðru í sólarlöndum eftir þær Iðunni Steinsdóttur og Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur , Kormák dýravin eftir Jónu Valborgu Árnadóttur og Elsu Nielsen og Krakkajóga - einfaldar jógastöður fyrir hressa krakka á öllum aldri eftir Lorena Pajalunga.

arnim@mbl.is