Gunnlaugur Snær Ólafsson gso@mbl.is Fjármálaráðherra lýsti því nýverið yfir að hann vonaðist til að hægt yrði að hefja söluferli Íslandsbanka á næstu vikum.

Gunnlaugur Snær Ólafsson

gso@mbl.is

Fjármálaráðherra lýsti því nýverið yfir að hann vonaðist til að hægt yrði að hefja söluferli Íslandsbanka á næstu vikum. Áhyggjuefni er hins vegar að Alþingi hefur hugsanlega rýrt virði bankanna með því að stöðva lækkun bankaskatts. Skatturinn dregur úr arðsemi bankanna og þar með óumflýjanlega úr verðinu sem líklegir fjárfestar eru reiðubúnir til þess að greiða fyrir þá. Auk þess sem skatturinn dregur verulega úr samkeppnishæfni þeirra, sérstaklega gagnvart lífeyrissjóðum sem sífellt virðast auka markaðshlutdeild sína. Enda eru þeir undanskildir umræddum skatti.

Þá hefur Alþingi með háttsemi sinni einnig tryggt að þeir sem eignaminni eru séu áfram útilokaðir frá hagstæðustu lánakjörunum. Lífeyrissjóðirnir geta, í skjóli undanþágu sinnar, boðið hagstæðari lánakjör en bankarnir, en á sama tíma krefjast þeir hærra hlutfalls eigin fjár en bankarnir. Þannig er tekjulágum og þeim einstaklingum sem hyggja á fyrstu íbúðarkaup stýrt í átt að lántöku hjá bönkunum sem bjóða hærri vexti einmitt vegna bankaskattsins. Ýmsir þingmenn og málsvarar verkalýðsins eru þá fljótir að mótmæla okurvöxtum „bankanna“ en leggjast gegn lækkun bankaskatts og afnámi hans. Jafnframt hafa þessir aðilar ekki beitt sér fyrir lækkun eiginfjárkröfu lífeyrissjóðanna.

Þessi leikur Alþingis hefur líklega kostað almenning milljarða, en í hvaða tilgangi? Fyrir 0,5% fylgisaukningu í næstu könnun?