Sigríður Andersen bendir á öfugsnúin áhrif af lagasetningu vinstristjórnarinnar um að „auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum á landi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með hagkvæmum og skilvirkum hætti“. Sigríður bendir í pistli á að nokkrir þingmenn vinstriflokkanna hafi nú lagt fram þingsályktunartillögu um bann við notkun pálmaolíu á bíla.
Þá vísar hún í greinargerð með þingsályktunartillögunni þar sem segi að löndin sem framleiði langmest af pálmaolíu hafi „nú þegar fellt stóran hluta af regnskógum sínum, m.a. fyrir fjöldaframleiðslu á pálmaolíu, sem er ódýrasta jurtaolían á markaði. Eftirspurn eftir henni hefur aukist verulega undanfarna áratugi og til þess að anna henni er regnskógur ruddur í stórum stíl. Í dag er langstærstur hluti pálmaolíu á markaði ósjálfbær og valdur að eyðingu regnskóga“.
Í greinargerðinni er svo haldið áfram og því lýst hve neikvæð áhrif þetta hafi á kolefnisjöfnuð og loftslagsbreytingar, dýr eins og órangúta sem eigi sér enga von auk þess sem aðbúnaður fólks, þar með talið barna, sem vinnur á pálmaolíuplantekrunum sé hræðilegur.
Þetta hljómar eins og tími sé kominn til að afnema fyrrgreinda lagasetningu.