Glæsiskip Togskipið Runólfur SH í Grundarfirði í gær. Skipið er er 290 brt., smíðað 2006. Var áður Bergey VE.
Glæsiskip Togskipið Runólfur SH í Grundarfirði í gær. Skipið er er 290 brt., smíðað 2006. Var áður Bergey VE. — Morgunblaðið/Gunnar Kristjánsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Vænst er að Runólfur SH, togskip sem bættist í flota GRUN hf. fyrir skemmstu og kom í fyrsta sinn til nýrrar heimahafnar í Grundarfirði í gær, fari strax til veiða í kvöld.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Vænst er að Runólfur SH, togskip sem bættist í flota GRUN hf. fyrir skemmstu og kom í fyrsta sinn til nýrrar heimahafnar í Grundarfirði í gær, fari strax til veiða í kvöld. Við hátíðlega athöfn tók fjölmenni á móti skipinu en strax að henni lokinni var hafist handa um að koma veiðarfærum um borð, kosti og öðrum varningi. „Við keyptum skipið ekki upp á punt, heldur til að skapa verðmæti. Við létum mála skipið í okkar bláu litum en þurftum engu öðru að breyta. Sendum strákana því strax á miðin og fyrsta löndun er áformuð á mánudagsmorgun,“ segir Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri GRUN, í samtali við Morgunblaðið.

Hluti af fléttu

Togskipið Runólfur SH er 290 brúttótonn, smíðaður í Póllandi árið 2006. Var áður sem Bergey VE í eigu og útgerð Bergs-Hugins/Síldarvinnslunnar í Vestmannaeyjum. Þessi viðskipti með skipið eru hluti af stórri fléttu í íslenskri útgerð sem tekin hefur verið að undanförnu; það er að sjö pólsk nýsmíðaskip koma til landsins sem er skipt út fyrir eldri skip sem önnur sjávarútvegsfyrirtæki kaupa. Þannig fékk FISH Seafood / Soffanías Cecilsson í Grundarfirði tvö skip, Farsæl SH og Sigurborgu SH, sem áður voru í eigu Gjögurs hf. um síðustu helgi. Þegar svo bætast við kaupin á Runólfi SH, sem skipt er út fyrir togbátinn Helga SH, má í raun segja að skipastóll bæjarins sé gjörbreyttur.

Vestfirðir og norðurmið

Tíu manns verða í áhöfn Runólfs SH og undir skipstjórn Arnars Kristjánssonar verður í þorsk, ýsu, ufsa, karfa og flatfisk. „Við erum með tvö skip í útgerð, Hring SH og núna Runólf, og þau eru gjarnan á fiskislóðinni hér á Breiðafirði, úti af Vestfjörðum og norðan landið. Það eru okkar heimamið,“ segir Smári og bætir við að með kaupunum á Runólfi SH sé ætlunin að styrkja hráefnisöflun fyrir nýtt og fullkomið fiskvinnsluhús GRUN. Starfsemi í því hófst snemma á þessu ári og í gegnum vinnsluna þar fara um 500 tonn á mánuði; fiskur sem að stærstum hluta er fluttur ferskur til kaupenda í Evrópu.