Innan fárra ára munu fáir bera vörur út úr verslunum í pokum og síst af öllu þeim sem gerðir eru úr undraefninu plasti. Þótt ótrúlegt megi virðast verður það ekki umhverfisráðherranum geðþekka að þakka eða kenna.

Innan fárra ára munu fáir bera vörur út úr verslunum í pokum og síst af öllu þeim sem gerðir eru úr undraefninu plasti. Þótt ótrúlegt megi virðast verður það ekki umhverfisráðherranum geðþekka að þakka eða kenna. Og skiptir þá engu máli þótt hann hafi tryggt að landslög banni blásaklausu fólki að nýta það fyrirbæri í sína þágu. En af hverju ekki?

Tækniframfarir hafa orðið þónokkrar. Til dæmis hafa bændur fyrir löngu hætt að nota hestaflið beislað í sinni upprunalegu mynd eins og áður var nauðsynlegt. Nýrri aðferðir og tækni blífa. Að heyja með orfi og ljá heyrir sögunni til og lesa má um þau jarðnyt í Þjóðháttum Jónasar Jónassonar.

Mannaðir afgreiðslukassar í verslunum dagsins í dag eru orf og ljár hins liðna tíma. Hratt og örugglega þoka þeir fyrir nýrri tækni, sjálfsafgreiðslunni. Innan fárra ára munu svo netverslanir taka yfir sjálfsafgreiðslukassana og enginn mun þurfa að ráfa milli rekkanna þar sem hrísgrjónin og heilsufæðið er geymt á einum stað en súkkulaðið og sælkeramaturinn á öðrum. Enginn með sultardropa á nefbroddi mun þurfa að klöngrast í gegnum kæliskápana í leit að viðbiti og mjólkurfernu.

Það er óskemmtileg reynsla að bera vatn í poka milli staða. Slíkt uppátæki telst nærri því jafn heimskulegt og það sem bræðurnir þrír brugðu á hér um árið þegar þeir bisuðu við að bera dagsbirtuna inn undir húsþak í húfum sínum.

Sífellt sjáum við dæmi um stjórnmálamenn sem reyna að hafa vit fyrir fólkinu í landinu, stýra neyslu þess og hegðun. Nú á að gera það með veggjöldum. Sagt er að það sé gert til þess að fjármagna nýframkvæmdir í samgöngumannvirkjum. Í besta falli er það hálfsannleikur. Reynsla annarra ríkja er sú að stærstur hluti tekna sem aflað er með þessum hætti fari í rekstur kerfisins sjálfs! Hætt er við því að þeirra sem hæst láta í baráttunni fyrir upptöku slíks kerfis verði minnst með sama hætti og mannsins með vatnið í pokanum, eða bræðranna sem báru geisla sólar undir hendi – allt í góðri trú.