XL Airways réð ekki við núverandi aðstæður á flugmarkaði.
XL Airways réð ekki við núverandi aðstæður á flugmarkaði. — AFP
Gjaldþrot Franska flugfélagið XL Airways tilkynnti á mánudag að félagið hefði stöðvað allt flug félagsins í kjölfar þess að tilraunir til þess að bjarga því fóru út um þúfur um helgina.

Gjaldþrot

Franska flugfélagið XL Airways tilkynnti á mánudag að félagið hefði stöðvað allt flug félagsins í kjölfar þess að tilraunir til þess að bjarga því fóru út um þúfur um helgina. Í tilkynningu félagsins segir að núverandi aðstæður á flugmarkaði hafi gert út af við XL Airways. Gjaldþrot fyrirtækisins virðist því óumflýjanlegt. XL hefur gert út fjórar Airbus-þotur sem fljúga að mestu til Norður-Ameríku en einnig til Kína. Flugfélagið flutti 730 þúsund farþega á síðasta ári. XL Airways hætti að selja miða þann 19. september og var tekið til skiptameðferðar en þá þegar var ljóst að félagið gat ekki staðið við skuldbindingar sínar. Dómstólar í Frakklandi gáfu fyrirtækinu frest til síðastliðsins laugardags en mál flugfélagsins verður tekið til meðferðar hjá frönskum dómstólum á ný í dag.

Forstjóri félagsins, Laurent Magnin, sagði í tilkynningu að félagið hefði þurft 35 milljónir evra til þess að lifa af og beindi spjótum sínum að norska flugfélaginu Norwegian. „Við sáum ekki fyrir komu Norwegian, með nýju flugvélarnar sínar og lággjaldamódel sitt á meðallöngu og löngu flugleiðunum,“ sagði Magnin við franska fjölmiðla. Talaði hann einnig um áhrif mótmælahreyfingar gulvestunga en oft hefur komið til átaka á mótmælum þeirra, sem hefur að mati Magnin fælt ferðamenn frá því að koma til Frakklands.

XL Airways leitaði meðal annars til Air France til þess að bjarga félaginu en forstjóri síðarnefnda félagsins sagði við fjölmiðla að Air France hefði engan hag af því að bjarga XL Airways. XL bætist þar með í hóp með Aigle Azur, næststærsta flugfélags Frakklands, sem stöðvaði starfsemi sína á föstudag, en Aigle gerði út 11 flugvélar sem flugu að mestu til Alsír.