Þetta voru jafnframt fjórðu gullverðlaun hennar í 100 metra hlaupi en hún kom í mark á tímanum 10,71 sekúndu. Fraser-Pryce var einni sekúndu frá sínum besta tíma í greininni en heimsmetið í 100 metra hlaupi kvenna er 10,49 sekúndur. Það var hin bandaríska Florence Griffith Joyner heitin sem setti metið árið 1988.
Að vinna fern gullverðlaun í sömu greininni á heimsmeistaramóti í frjálsum íþróttum er ekki fyrir hvern sem er. Usain Bolt, fljótasta manni heims, tókst það í 200 metra hlaupi en ekki í 100 metra hlaupi. Goðsögnin Michael Johnson gerði það líka í 400 metra hlaupi en hann er hálfgerður holdgervingur hlaupagreinanna, fyrir mína kynslóð í það minnsta, í gullskónum sínum, hnarreistur eins og hani á brautinni.
Það sem mér finnst hins vegar fáránlega merkilegt við afrek Fraser-Price er að hún eignaðist sitt fyrsta barn í ágúst 2017. Hún mætti aftur til leiks á hlaupabrautina í ágúst 2018 og tók því gullið í Katar rúmum tveimur árum eftir að hún eignaðist sitt fyrsta barn. Það er alvöruafrek að mínu mati. Ég þurfti ekki einu sinni að fæða barnið mitt í desember 2018 en samt sem áður hef ég ekki ennþá komið mér í ræktina síðan, sökum almennrar þreytu og leti.