Geðþekkur Luka Okros er viðkunnanlegur píanóleikari sem hefur getið sér gott orð á heimsvísu. Hann kveðst þakklátur fyrir að fá tækifæri til að spila í Hörpu en Okros hefur spilað á mörgum virtustu tónleikastöðum heims.
Geðþekkur Luka Okros er viðkunnanlegur píanóleikari sem hefur getið sér gott orð á heimsvísu. Hann kveðst þakklátur fyrir að fá tækifæri til að spila í Hörpu en Okros hefur spilað á mörgum virtustu tónleikastöðum heims. — Ljósmynd/Egor Matasov
Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Georgíski píanóleikarinn Luka Okros, sem kallaður hefur verið einn efnilegast píanóleikari sinnar kynslóðar, heldur tónleika í Kaldalóni Hörpu föstudaginn 4. október kl. 20.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Georgíski píanóleikarinn Luka Okros, sem kallaður hefur verið einn efnilegast píanóleikari sinnar kynslóðar, heldur tónleika í Kaldalóni Hörpu föstudaginn 4. október kl. 20.

Okros er búsettur í Lundúnum en er um þessar mundir á tónleikaferðalagi. Hann mun meðal annars troða upp í Hollandi, Eistlandi, Hong Kong, Lúxemborg, Bretlandi og Frakklandi á þessu ári.

Á tónleikunum í Hörpu mun Okros leika „Impromptu op. 90“ eftir austurríska tónskáldið Franz Schubert, „Sex lítil stykki op. 16“ eftir Sergei Rachmaninoff og „Ungverska rapsódíu nr. 2 S244“ eftir Franz Liszt.

Okros, sem er einungis 29 ára gamall, hefur nú þegar unnið fyrstu verðlaun í átta alþjóðlegum píanókeppnum og haldið tónleika víða um heim.

Liszt í miklu uppáhaldi

Okros var staddur á Spáni þar sem hann hélt fjölda tónleika þegar blaðamaður náði tali af honum en Okros reyndist vera hógvær og glaðlyndur ungur maður þrátt fyrir að vera orðinn heimsþekktur svo ungur að árum.

Okros þekkir verkin þrjú sem hann mun spila í Hörpu mjög vel og hefur spilað þau margoft. „Ég valdi verk Schuberts því það er eitt af síðustu verkunum sem hann samdi og mér finnst það bæði mjög dramatískt og fallegt. Þetta er mjög frægt verk. Hvað varðar Rachmaninoff þá er það yngra en verk Schuberts. Það er sömuleiðis mjög fallegt og frægt. Ég reyndi að sameina mjög rómantíska tónlist og þekkt verk í dagskránni. Lizst er svo í miklu uppáhaldi hjá mér og þetta er eitt af hans þekktustu verkum svo ég taldi heppilegt að ljúka tónleikunum með því,“ segir Okros.

„Ég er virkilega hrifinn af tímabilinu sem verkin voru samin á og ég tel að verkin komi á framfæri þeim píanóleik sem ég vil að heyrist,“ segir Okros en öll verkin eru frá nítjándu öld. Þó svo að tónleikarnir sem Okros spilar á séu fjölmargir þá segir hann tónleikaferðalagið alls ekki það stærsta sem hann hefur farið í. „Nei, þetta er í raun bara venjuleg dagskrá. Núna fer ég meira að segja heim til Lundúna á milli tónleika og er ekki að spila á hverju einasta kvöldi.“ Okros hefur gefið út tvær plötur og vinnur nú að plötu með sínum eigin tónsmíðum.

Innblásturinn í tónsmíðarnar kemur meðal annars frá tónskáldunum sem hann spilar tónverk eftir í Hörpu.

„Ég held að það sé óhjákvæmilegt að sum verkanna sem ég vinn að hafi áhrif á mínar tónsmíðar. Stundum eru verkin sem ég sem samt mjög ólík því sem ég hef áður spilað. Stundum sæki ég mér innblástur í náttúruna og stundum í fólkið í kringum mig. Það fer allt eftir því í hvaða hugarástandi ég er. Sama hvað gengur á eru tónsmíðarnar mínar alltaf í rómantískum stíl,“ segir Okros.

Ísland númer 41 í röðinni

Hann kveðst spenntur fyrir því að koma til Íslands en vonar að það verði ekki of kalt. „Ég ákvað að spila á Íslandi af margvíslegum ástæðum. Ég hef heyrt margt gott um landið og náttúru þess en ég er mjög hrifinn af fallegri náttúru. Ég hef sömuleiðis heyrt ýmislegt jákvætt um Hörpu og það er frábært að fá tækifæri til að spila þar. Þetta er í fyrsta skipti sem ég kem til Íslands en landið verður það 41. sem ég hef spilað í. Ég hef ferðast mikið í gegnum árin,“ segir Okros og hlær.

Hann hóf píanónám þegar hann var fjögurra ára gamall og hélt fyrstu einleikstónleikana sína ári síðar. Okros lagði stund á bakkalárnám í tónlistarflutningi í Moskvu og meistaranám í London Royal College of Music.

Okros mun ræða við gesti tónleikanna eftir flutninginn.

„Eftir flesta tónleika er ég með listamannaspjall og ég verð með slíkt spjall eftir tónleikana í Hörpu og það væri virkilega gaman að sjá sem flesta þar.“

Tónleikarnir hefjast kl. 20 í Kaldalóni. Miða má nálgast í miðasölu Hörpu, á Harpa.is eða á Tix.is.