Forritið
Fólkið á bak við Beeken veit að markaðslínurit gera aðeins takmarkað gagn. Það getur verið fróðlegt að sjá hvernig verðmæti fyrirtækis hefur sveiflast upp og niður frá degi til dags eða frá ári til árs, en það sem vantar á línuritið er hverjar forsendurnar voru fyrir því að hlutabréfaverðið lækkaði eða hækkaði. Sá sem ekki veit hvað olli því að verðið rauk upp, eða þaut niður, er engu nær um það hvernig reksturinn hefur gengið eða hvað það er sem hefur mótað almenningsálitið.
Það er einmitt það sem starf markaðsgreinenda gengur út á; að liggja yfir fréttum og ná að tengja saman hvernig atburðir dagsins móta verðbréfamarkaði. Beeken gerir þetta á sjálfvirkan hátt, en forritið skimar helstu fréttaveitur og tengir það sem þar er sagt við þróun verðbréfa stakra fyrirtækja.
Framsetningin er þannig að í einni svipan er hægt að átta sig vel á þróuninni yfir langt tímabil, en hugbúnaður Beeken er svo snjall að hann getur m.a. gert greinarmun á því hvort orðalag frétta er jákvætt, neikvætt eða hlutlaust.
Í fyrstu nær þjónustan aðeins yfir bandarísk og kanadísk hlutabréf en til stendur að bæta erlendum gjaldmiðlum og rafmyntum við. ai@mbl.is