Kjaramál Í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni sitja menn sveittir yfir kjarasamningum stéttarfélaga við sveitarfélög landsins.
Kjaramál Í húsakynnum ríkissáttasemjara í Borgartúni sitja menn sveittir yfir kjarasamningum stéttarfélaga við sveitarfélög landsins. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Launafólk í stéttarfélögum opinberra starfsmanna hefur mátt sýna mikla biðlund og þolinmæði vegna hægagangsins sem verið hefur á kjaraviðræðum á opinbera markaðinum á umliðnum vikum og mánuðum. Liðið er rúmlega hálft ár frá því að flestir samningar á opinbera markaðinum runnu út en alls losnuðu 153 kjarasamningar um mánaðamótin mars og apríl sl.

Fréttaskýring

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Launafólk í stéttarfélögum opinberra starfsmanna hefur mátt sýna mikla biðlund og þolinmæði vegna hægagangsins sem verið hefur á kjaraviðræðum á opinbera markaðinum á umliðnum vikum og mánuðum. Liðið er rúmlega hálft ár frá því að flestir samningar á opinbera markaðinum runnu út en alls losnuðu 153 kjarasamningar um mánaðamótin mars og apríl sl.

Ýmsir héldu því þá fram að lífskjarasamningarnir á almenna vinnumarkaðinum myndu marka stefnuna og greiða fyrir gerð samninga hjá öðrum stéttarfélögum en ljóst er orðið, nú þegar hálft ár er líka liðið frá undirritun þeirra, að sú hefur ekki orðið raunin.

Á yfirstandandi ári losna alls 174 kjarasamningar á vinnumarkaðinum og deilumálum sem vísað er til sáttamiðlunar fjölgar á borði ríkissáttasemjara. Á síðustu dögum hafa embætti ríkissáttasemjara borist 19 vísanir nýrra sáttamála aðildarfélaga BSRB gagnvart þremur viðsemjendum; ríkinu, samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) og Reykjavíkurborg. Eru nú komin inn á borð ríkissáttasemjara samtals 27 óleyst sáttamál. Fyrir voru átta óleystar kjaradeilur til sáttameðferðar hjá embættinu, þ.ám. deilur flugfreyja og Icelandair sem vísað var til sáttasemjara í aprílbyrjun, flugumferðarstjóra og Isavia sem vísað var 13. apríl og atvinnuflugmanna og Air Iceland Connect sem vísað var í maí. Og alvarleg staða er komin upp í deilu Blaðamannafélags Íslands og Samtaka atvinnulífsins eftir að BÍ sleit viðræðunum í seinustu viku.

Óbreytt staða, engin hreyfing

Ákveðið hefur verið að boða samninganefndir BSRB og ríkisins, Reykjavíkurborgar og SNS til þriggja sáttafunda næsta mánudag. Viðræðurnar eru tvískiptar og nokkuð flóknar. BSRB-félögin fólu bandalaginu umboð til að semja um sameiginleg mál, sem eru einkum stytting vinnuvikunnar og jöfnun launa á milli markaða en félögin fara svo hvert fyrir sig með önnur mál og þarf því væntanlega að halda sáttafundi með sameiginlegri samninganefnd BSRB og einstökum félögum á næstunni gagnvart þremur samninganefndum ríkis, borgar og sveitarfélaganna.

Kjarasamningar félaga háskólamanna í BHM hafa einnig verið lausir frá því í vor og samningar ekki í sjónmáli. ,,Óbreytt staða og engin hreyfing“ var lýsandi svar forystumanns innan BHM á gangi kjaraviðræðna háskólamanna í samtali í gær. Ekki hefur þó verið ákveðið hvort deilunum verður vísað til sáttasemjara.

Þá mun svipuð staða vera uppi meðal hjúkrunarfræðinga og viðsemjenda þeirra. Hjúkrunarfræðingar hafa verið samningslausir frá 31. mars sl. þegar gerðardómur um launakjör þeirra rann út og óvíst er hvaða stefnu mál þeirra taka.

Stór hópur félagsmanna í stéttarfélögum innan vébanda ASÍ starfar hjá ríki og sveitarfélögum og er einnig með lausa samninga. Eftir harðar deilur í sumar um lífeyrismál sammæltust Starfsgreinasamband Íslands, Efling-stéttarfélag og SNS um að endurskoða viðræðuáætlunina og stefna að gerð nýs kjarasamnings fyrir 20. október nk. Jafnframt drógu SGS og Efling til baka vísun kjaradeilunnar til ríkissáttasemjara. Efling vísaði hins vegar deilu félagsins við Reykjavíkurborg til ríkissáttasemjara.

Vinnutíminn flöskuhálsinn

Stytting vinnuvikunnar er flöskuhálsinn í viðræðunum við BSRB núna, segir Inga Rún Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga sem er í forsvari fyrir samninganefnd þeirra (SNS). Nú þurfi menn að einbeita sér að því að reyna að losa um hann. SNS er alls með 63 viðsemjendur. BSRB hefur barist fyrir styttingu vinnuvikunnar í 35 stundir án launaskerðingar. Ekki er ágreiningur um markmiðið að stytta vinnutímann en finna þarf leiðina til þess að sögn Ingu Rúnar.

Þegar líður á haustið og veturinn mun vaxandi þungi færast í kjaraviðræður en kennarafélög sem semja við sveitarfélögin náðu á dögunum samkomulagi við SNS um að fresta formlegum viðræðum fram í október með það að markmiði að ná samningum fyrir 30. nóvember.