[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*Landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson verður frá keppni næstu 4-5 mánuðina vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leik með AZ Alkmaar gegn Heracles um síðustu helgi, í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta.

*Landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson verður frá keppni næstu 4-5 mánuðina vegna meiðslanna sem hann varð fyrir í leik með AZ Alkmaar gegn Heracles um síðustu helgi, í hollensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Bein í ökkla Alberts brotnaði og er það mat lækna AZ að hann spili ekki aftur fótbolta fyrr en í febrúar.

* Sigurður Egill Lárusson hefur skrifað undir nýjan samning til þriggja ára við knattspyrnudeild Vals. Hann kom til félagsins frá Víkingi árið 2012.

* Gestur Ólafur Ingvarsson , leikmaður Aftureldingar í handbolta, sleit krossband í hné þegar hann meiddist í leik gegn FH á sunnudagskvöld. Hann spilar því ekki meira á þessari leiktíð. Þetta er í annað sinn á rúmu ári sem Gestur slítur krossband í hné.

* Sigurður Gunnar Þorsteinsson , landsliðsmaður í körfubolta, mun ekki leika með franska liðinu Orchies í vetur eins og til stóð. Hann hefur fengið samningi sínum við félagið rift. Þetta kemur fram á vefmiðlinum karfan.is en þar segir að ástæðan sé fjárhagserfiðleikar franska félagsins. Orchies hafi ekki getað teflt Sigurði fram í leikmannahópi sínum vegna sektar frá franska körfuknattleikssambandinu. Sigurður hyggst spila erlendis í vetur og er því ekki á leiðinni aftur heim í Dominos-deildina. Hann átti frábæra leiktíð með silfurliði ÍR á síðustu leiktíð en leitar nú að nýju félagi erlendis.

* Þórhallur Siggeirsson og aðstoðarmaður hans, Halldór Geir Heiðarsson , munu ekki stýra karlaliði Þróttar R. í fótbolta lengur. Knattspyrnudeild Þróttar hefur ákveðið að finna nýjan þjálfara en liðið slapp með miklum naumindum við fall úr 1. deild í haust, á fyrstu og einu leiktíð sinni undir stjórn Þórhalls.

* Gunnar Magnús Jónsson verður áfram þjálfari kvennaliðs Keflavíkur í fótbolta en hann hefur skrifað undir samning til tveggja ára við félagið. Undir stjórn Gunnars, sem stýrt hefur Keflavík í fjögur ár, komst liðið upp í úrvalsdeild í fyrra en féll þaðan í ár.

* Valdís Þóra Jónsdóttir var í 105. sæti eftir fyrsta hring á Hero Women's Indian Open, á Evrópumótaröðinni í golfi. Hún lék á 8 höggum yfir pari.