[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þröstur Ólafsson fæddist á Húsavík 4.10. 1939: „Í þann tíð var ekki venja að börn svæfu á sig lús. Ég var farinn að stokka línu fyrir fermingu, vinna á síldarplani, var í sveit og kúskur í vegavinnu.

Þröstur Ólafsson fæddist á Húsavík 4.10. 1939: „Í þann tíð var ekki venja að börn svæfu á sig lús. Ég var farinn að stokka línu fyrir fermingu, vinna á síldarplani, var í sveit og kúskur í vegavinnu. Foreldrar mínir keyptu Heiðarbót í Reykjahverfi 1952 og þar naut ég lífsins innan um búsmalann, rjúpuna og sveitungana og hef ætíð haft sterkar taugar til sveitarinnar. Við fluttum síðan suður 1955.“

Þröstur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1960 en á sumrin var hann á síld, í vinnumennsku eða vegavinnu. Hann fór í hagfræðinám í Vestur-Berlín 1961: „Þá var nýbúið að reisa múrinn og skriðdrekar stórveldanna stóðu hvorir gegn öðrum á borgarmörkunum. Andrúmsloftið var kunnuglegt að heiman, innilokað og einangrað, með fortíðarþrá og þörf á utanaðkomandi viðurkenningu. Kannski voru Berlínarárin frjóustu og skemmtilegustu ár ævi minnar. Afkróun borgarinnar, mikil pólitísk spenna og erjur á borgarmörkunum sem og stórkostlegt menningarlíf gerðu borgina einstaka.“

Heim kominn aðstoðaði hann Magnús heitinn Kjartansson í iðnaðarráðuneyti 1971, varð framkvæmdastjóri Máls og menningar 1973, aðstoðarmaður Ragnars Arnalds fjármálaráðherra 1980-83, framkvæmdastjóri Dagsbrúnar 1983, aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Jóns Baldvins, 1991-94, og var framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitarinnar 1998-2009.

Þröstur var formaður SÍNE, sat níu ár í bankaráði Seðlabankans og formaður þess 1994-99, formaður KRON, sat í stjórn Granda, formaður Máls og menningar 1991-2008, í stjórn SÍS, formaður Íslensks markaðar hf.og ÞSSÍ, sat í stjórnarráði CEB bankans París í níu ár, formaður Félagsbústaða hf., formaður Eddu útgáfu, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur 2007-2018 og hefur setið í ótal stjórnum, nefndum og ráðum. Hann er formaður Minjaverndar hf. og varaformaður Votlendissjóðs.

Helstu áhugamál Þrastar eru samfélags-, menningarmál og pólitík. Auk þess er honum skógrækt, náttúruvernd, áhugavert lesmál og sígild tónlist hugleikin. „Ég fer alltaf á tónleika hjá Sinfóníunni og er formaður Áslaugarsjóðs sem styrkir hljómsveitina til utanfarar. Ég fer líka af og til í leikhús.“

Þau hjón eiga sumarhús í Lækjarbotnum þar sem þau hafa ræktað nokkurra hektara skóg um árabil. Þröstur er virkur greinahöfundur og sinnir enn ýmsum trúnaðarmálum. „Ég hef mikið verið að sinna náttúruvernd og auk þess að vera varaformaður Votlendissjóðs er ég formaður Auðlindar náttúrusjóðs sem Guðmundur Páll bróðir minn og Vigdís Finnbogadóttir stofnuðu.“

Fjölskylda

Eiginkona Þrastar er Þórunn Klemenzdóttir, f. 29.1. 1945, framhaldsskólakennari. Foreldrar hennar voru hjónin Klemens Þórleifsson, f. 5.7. 1896, d. 12.9. 1982, kennari, og Guðríður Árný Þórarinsdóttir, f. 1.2. 1915, d. 23.4. 1995, húsfreyja.

Fyrri kona Þrastar var Monika Büttner, f. 13.10. 1940, d. 13.2. 2013.

Sonur Þrastar og Moniku: Eilífur, f. 2.1. 1966, d. 3.4. 1983.

Sonur Þórunnar af fyrra hjónabandi er Valtýr Björn Thors, f. 29.3. 1965, vaktmaður í Reykjavík, en kona hans er Emma I. Valsdóttir og á hann tvö börn.

Börn Þórunnar og Þrastar eru Klemens Ólafur, f. 27.10. 1975, sérfræðingur á sendiskrifstofu ESB í Reykjavík og á hann tvö börn:Brynjar Snær, f. 2.8. 1977, ljósmyndari í Reykjavík, og á hann eina dóttur: Guðríður Lára, f. 4.2. 1982, lögfræðingur hjá Rauða krossinum, en maður hennar er Grímar Jónsson og eiga þau þrjú börn; Eilífur Örn, f. 23.4. 1984, leikstjóri í Reykjavík.

Hálfsystkini Þrastar af fyrra hjónabandi móður hans og Karls Leifs Guðmundssonar: Guðrún Pálína, f. 3.8. 1929, d. 10.11. 2012, prentari; Ástríður, f. 15.2. 1931, d. 9.12. 2003, hjúkrunarfræðingur; Guðmundur Stefán, f. 20.3. 1932, vélstjóri.

Alsystkini Þrastar: Hrafnhildur Snædal, f. 19.5. 1926, húsfreyja í Reykjavík; Hanna Jórunn, f. 26.12. 1937, íþróttakennari í Ohio í Bandaríkjunum; Guðmundur Páll, f. 2.6. 1941, d. 30.8. 2012, rithöfundur og náttúrufræðingur í Stykkishólmi.

Foreldrar Þrastar voru hjónin Ólafur Friðbjarnarson, f. 26.2. 1900, d. 6.11. 1966, búfræðingur á Húsavík og síðast húsvörður í Reykjavík, og Brynhildur Snædal Jósefsdóttir, f. 3.9. 1902, d. 3.11. 1991, barnakennari á Látrum og Húsavík en síðast í Reykjavík.