Burrata Salatdiskurinn lítur vel út með osti sem rekur ættir sínar til Ítalíu.
Burrata Salatdiskurinn lítur vel út með osti sem rekur ættir sínar til Ítalíu.
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki er að hefja framleiðslu á burrata, kúlum úr ferskum mozzarellaosti með fyllingu úr rjómaosti.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Mjólkursamlag Kaupfélags Skagfirðinga á Sauðárkróki er að hefja framleiðslu á burrata, kúlum úr ferskum mozzarellaosti með fyllingu úr rjómaosti. Þessi nýja vara hefur verið til sölu í Skagfirðingabúð en í gær fór fyrsta sendingin til MS sem dreifir henni til valinna veitingastaða á höfuðborgarsvæðinu. Burrata fer í almenna sölu í kjölfar þess.

Uppsetningu nýrra tækja til að framleiða ferskan mozzarellaost er lokið í mjólkursamlaginu. Vélarnar koma frá Ítalíu og þeim fylgdu fulltrúar framleiðandans til að kenna starfsmönnum mjólkursamlagsins notkun þeirra.

Möguleikar nýrra tækja

Mjólkursamlag KS hefur framleitt ferskan mozzarella í rúm 17 ár. Mikil aukning hefur verið í sölunni og hún er nú kominn í um 100 tonn á ári. Jón Þór Jósepsson, framleiðslu- og gæðastjóri mjólkursamlags KS, segir að kominn hafi verið tími til að uppfæra búnaðinn. Við það aukist gæðin og geymsluþol ostsins og möguleikar til framleiðslu á nýjum vörum glæðist.

Burrata er fyrsta nýjungin sem kemur á markað. Þetta er vara sem upprunnin er í Suður-Ítalíu, upphaflega gerð úr mjólk vatnabuffala, en er framleidd úr kúamjólk víða um heim. Rjómaostsfylling er í mozzarellakúlum sem gerir þær að burrata. Varan er notuð sem ábót ofan á tilbúnar pizzur eða í saltöt, auk annars.

„Fyrsta sendingin fer frá okkur í dag. Hún fer til valinna veitingastaða fyrir sunnan. Við erum á fullu að ljúka við að þjálfa upp fólkið. Mér heyrist að íslenskir veitingastaðir séu spenntir fyrir því að prófa burrata sem framleitt er úr íslenskri mjólk,“ segir Jón Þór. Vonast hann til þess að varan verði fljótlega á boðstólum í verslunum.

Fleiri nýjungar eru í undirbúningi. Jón Þór segir að verið sé að huga að framleiðslu á kúlum úr ferskum mozzarellaosti með kryddi. Tækin bjóði upp á þann möguleika og marga fleiri. „Það eru spennandi tímar framundan hjá okkur og aðdáendum fersks mozzarella,“ segir Jón Þór.