Grímur Hvammsfjörð Leifsson fæddist í Galtarvík, Skilmannahreppi, 26. desember 1936. Hann lést á Landspítalanum Fossvogi 23. september 2019.

Foreldrar hans voru Leifur Grímsson, f. 1896, d. 1983, bóndi í Galtarvík, Skilmannahreppi, og kona hans, Hólmfríður Sigurðardóttir húsfreyja, f. 1892, d. 1968.

Grímur er yngstur sjö systkina en þau eru: Jóhannes, f. 1920, Ásgerður, f. 1921, d. 2018, Sigmundur, f. 1923, d. 1995, Sigurður, f. 1926, d. 2013, Ingiríður Helga, f. 1928, d. 2017, og Hákon, f. 1931, d. 1994.

Grímur kvæntist Önnu Jeppsen kennara, f. 4. maí 1939, d. 15. desember 2015, hinn 13. júní 1959.

Börn Gríms og Önnu eru: 1) Emil, f. 8. apríl 1960. Maki Rikke Elkjær Knudsen. Börn þeirra eru Emma Soffía og Anna Björk. 2) Leifur, f. 26. maí 1962. Maki Elsa Hrönn Reynisdóttir. Börn þeirra eru: a) Matthías. Sambýliskona Kristjana Kristjánsdóttir. b) Anna Björg. Maki Kristinn Jóhann Lund. Börn þeirra eru Davíð Leó, Daníel Snær og Aníta Ruth. c) Steinunn. d) María. e) Bjarki Már. Maki Unnur Ósk Steinþórsdóttir. Barn þeirra er Valgerður Elsa. f) Tinna Karen. g) Thelma Lind. 3) Sigríður Sif, f. 19. febrúar 1969. Maki Árni Arnórsson.

Börn þeirra eru: a) Helena. Sambýlismaður Davíð Þór Ágústsson. Börn þeirra eru Hrafnhildur Eyrún og Brímir Alexander. b) Ellen Rún. c) Arnór Gauti.

Grímur ólst upp í Galtvarvík, Skilmannahreppi, þar til hann flutti til Reykjavíkur og hóf búskap með Önnu. Grímur lærði rafvirkjun hjá Sigurði bróður sínum. Að námi loknu, árið 1960, fluttu þau Anna til Húsavíkur og stofnuðu þar Raftækjavinnustofu Gríms & Árna með vinafólki sínu Árna Vilhjálmssyni rafvirkjameistara og Helgu Magnúsdóttur málarameistara. Bjuggu þau þar til 1985 en fluttu þá aftur til Reykjavíkur.

Grímur var félagi í Frímúrarareglunni og stofnfélagi Lionsklúbbs Húsavíkur ásamt Árna Vilhjálmssyni og Ásgeiri Höskuldssyni. Hann var virkur félagi í Lions-hreyfingunni allt til síðasta dags. Á þeim tíma sem Grímur og Anna bjuggu á Húsavík tóku þau bæði virkan þátt í starfi Leikfélags Húsavíkur.

Útför Gríms fer fram frá Fríkirkjunni í Reykjavík í dag, 4. október 2019, klukkan 13.

Pabbi, ég elska þig. Annað var ekki hægt. Þú lést þó stundum reyna vel á þá ást þegar maður var krakki því þú gast verið helvíti harður og ákveðinn við okkur Emma bróður á sínum tíma. Gast verið „Óli Þórðar“ pabbanna, en þá samlíkingu skilja fótboltaáhugamenn og þá sérstaklega Skagamenn.

Ég veit að þú skilur ekkert hvað ég meina, þótt þú hafir alist upp í næsta nágrenni við Skagann, sem er jú heimavöllur fótboltans. Fótboltinn var nefnilega ekkert fyrir þig. En af hverju nenntirðu samt ekki fótboltaiðkun okkar bræðra? Eða bara íþróttaáhuga okkar almennt? Þú vissir ekki einu sinni að Völsungar spila í grænu! Það hefði nú ekki drepið þig að sýna smá áhuga. Já, eða sýna smá áhuga á einhverju öðru í okkar lífi en hvað við vorum lengi að skipta um kló!

Ég held samt að þú hafir verið þokkalega stoltur af okkur og við staðið sæmilega undir kröfum þínum þrátt fyrir allt. Einhvern veginn fann maður það alltaf. Og þér að segja þá stóðst þú, þrátt fyrir þetta kvabb í mér núna, mínar kröfur til þín sem pabba og miklu meira en það.

Ég var alltaf með þig á stalli. Þú varst algjör klettur og áreiðanlegasti maður sem til var. Ég var líka drullumontinn af þér. Þér gekk vel í því sem þú tókst þér fyrir hendur svo eftir var tekið og ég veit að þú reyndist mörgu fólki vel.

Auðvitað skil ég betur núna að á mínum uppvaxtarárum hafðir þú kannski ekki mikinn tíma fyrir bolta og bull, þar sem þú varst að byggja upp fyrirtæki af miklum myndarbrag sem þú stofnaðir með Árna Vill vini þínum. Svo þegar þú varst kominn yfir erfiðasta hjallann þar þá gast þú allt í einu verið mjúki maðurinn sem Sif systir fékk svo að kynnast.

Þótt ég geti ekki gefið þér 10 fyrir uppeldið verð ég samt að gefa þér toppeinkunn fyrir það veganesti sem þú gafst okkur krökkunum út í lífið. Þú vildir ekki heyra neitt væl og aumingjaskap og lagðir gríðarlega áherslu að maður „stæði sína plikt“ eins og þú orðaðir það. Reyndir að innprenta í okkur dugnað og ósérhlífni. Held að þú hefðir fílað Óla Þórðar.

Þegar þið mamma fluttuð suður sagðist þú ætla að taka það rólega og dunda þér eitthvað. Því trúði auðvitað enginn. Enda kom það á daginn að það var alltaf eitthvað í gangi. Hver man ekki eftir ljósalampaframleiðslunni, Greiðabílnum, farsímaleigunni, síldar- og rækjusölunni, sælgætisheildsölunni og ég veit ekki hvað.

Þú varst einstaklega handlaginn og gast alltaf lagað alla hluti. Það gat reyndar verið smá pirrandi stundum. T.d. þegar mömmu langaði að endurnýja gamalt raftæki. Biluð brauðrist að morgni var klár að kvöldi.

Elsku pabbi. Nú ertu kominn til Önnu þinnar, þangað sem þú hefur alltaf vilja vera. Þegar maður fór að eldast fór maður að taka betur eftir því hvað þið mamma voru flott hjón. Virðingin ykkar á milli, sjálfstæði ykkar og það sást úr flugvél hvað þú varst alltaf skotinn í mömmu. Það er vel gert. Hún var líka óskaplega skotin í þér.

Takk kærlega fyrir allt, elsku pabbi, og skilaðu kveðju til mömmu. Þið eruð best.

Þinn sonur

Leifur.

Hann Grímur Frændi með stóru effi er farinn og Jói, sá elsti af sjö systkinum, er einn eftir. Grímur var yngstur og ég leit alltaf á hann sem stóra frænda minn, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Þegar ég var að alast upp á Seyðisfirði ætlaði ég að vera eins stór og Grímur frændi, það tókst og ég varð mjög stoltur af því. Mér eru minnisstæðar ferðirnar frá Seyðisfirði til Reykjavíkur vegna þess að það var alltaf komið við hjá Grími og Önnu á Húsavík og dvalið í einn til tvo daga í góðu yfirlæti. Síðar meir þegar fjölskyldan flutti til Reykjavíkur var gott fyrir mig, stamandi sveitastrákinn, að komast undir verndarvæng Karls, bróður Önnu, sem var umsjónarkennari minn í barnaskóla. Grímur tengdist mér bæði í gegnum pabba og mömmu. Í gegnum pabba sem bróðir og í gegnum mömmu sem sonur systur ömmu, mömmu mömmu minnar, þannig að stóra effið á vel við. Síðustu árin bauð Grímur mér á þorrablót í Lionsklúbbnum sínum sem voru haldin um miðjan dag á laugardegi í Hörpunni og eftir það síðasta keyrði ég hann heim þar sem við sátum dágóða stund og spjölluðum. Það var góð stund sem því miður verður ekki hægt að endurtaka. Ég mun sakna Gríms en ég á góðar minningar sem hægt verður að ylja sér við. Farvel Frændi.

Guðjón L. Sigurðsson.