Á ferð Arnór Sigurðsson í baráttu við David Lopez í Moskvu í gærkvöld.
Á ferð Arnór Sigurðsson í baráttu við David Lopez í Moskvu í gærkvöld. — AFP
Rúnar Már Sigurjónsson skoraði glæsimark í Evrópudeildinni í fótbolta í gær þegar fjórir íslenskir landsliðsmenn voru á ferðinni í 2. umferð riðlakeppninnar.

Rúnar Már Sigurjónsson skoraði glæsimark í Evrópudeildinni í fótbolta í gær þegar fjórir íslenskir landsliðsmenn voru á ferðinni í 2. umferð riðlakeppninnar. Hörður Björgvin Magnússon studdi sig aftur á móti við hækju eftir leik og enginn Íslendinganna fagnaði sigri.

Rúnar hefur þar með skorað fimm mörk í átta leikjum í Evrópudeildinni í ár, ef leikirnir í forkeppninni eru taldir með, en mark hans í gær reyndist aðeins sárabót í 2:1-tapi Astana á heimavelli gegn Partizan Belgrad. Astana er því enn án stiga því liðið tapaði á Old Trafford í fyrstu umferð. Í hinum leik riðilsins gerðu AZ Alkmaar og Manchester United markalaust jafntefli í afar bragðdaufum leik, þar sem Albert Guðmundsson var fjarri góðu gamni vegna alvarlegra meiðsla. Albert þarf að treysta á liðsfélaga sína til þess að spila meira í Evrópukeppni í vetur, með því að komast í útsláttarkeppnina sem hefst í febrúar.

Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin léku allan leikinn í 2:0 tapi á heimavelli gegn Espanyol og eru því án stiga í H-riðli, eftir flotta framgöngu í Meistaradeildinni fyrir ári. Hörður sást styðja sig við hækju eftir leik og því óvíst að hann geti tekið sæti í íslenska landsliðshópnum sem kynntur verður í dag, fyrir leikina við Frakkland og Andorra.

Jón Guðni Fjóluson lék sem aftasti miðjumaður hjá Krasnodar í heimaleik gegn Getafe en var tekinn af velli eftir fyrri hálfleik. Getafe var þá 1:0 yfir og vann leikinn 2:1, svo Krasnodar er án stiga. Arnór Ingvi Traustason og félagar í Malmö náðu hins vegar í sitt fyrsta stig, með 1:1-jafntefli á heimavelli í grannaslag við FC Köbenhavn. Arnór kom inn á snemma í seinni hálfleik.

Arsenal rúllaði yfir Standard Liege og er með fullt hús stiga í F-riðli. Brasilíski táningurinn Gabriel Martinelli skoraði tvennu á fyrsta korteri leiksins og lagði upp lokamark leiksins fyrir Dani Ceballos, eftir að hinn tvítugi Joe Willock hafði skorað. sindris@mbl.is