Ég veit ekki hversu oft ég hlustaði á hin ýmsu ævintýri sem amma átti á plötum og hljóðsnældum þegar ég var yngri. Endurtekningarnar voru kannski skorti á úrvali að kenna en ekki leiddist mér.

Ég veit ekki hversu oft ég hlustaði á hin ýmsu ævintýri sem amma átti á plötum og hljóðsnældum þegar ég var yngri. Endurtekningarnar voru kannski skorti á úrvali að kenna en ekki leiddist mér. Ég átti mér ýmis uppáhaldsævintýri þegar ég var yngri eins og Jói og baunagrasið, Tumi þumall, Hans og Gréta, kýrin Huppa og fleira í þeim dúr. Það eru hins vegar tvö ævintýri sem lifa góðu lífi enn þann dag í dag og eiga sér sinn stað í mínu hjarta. Boðskapur þeirra virðist nefnilega aldrei úreldast.

Fyrra ævintýrið er Úlfur, úlfur. Boðskapurinn virkar alls staðar og ekki síst í þingstörfunum því þar skiptir trúverðugleiki mjög miklu máli. Ef við glötum traustinu þá hlustar enginn og úlfurinn étur þig. Nú vill svo til, hins vegar, að sumir eru ansi góðir í að plata og kalla ekki alltaf úlfur, úlfur. Næst kalla þeir kannski þjófur, þjófur eða eitthvað annað og ná þannig að fela gabbið sitt aftur og aftur án þess að missa getuna til þess að kalla eftir viðbrögðum.

Seinna ævintýrið er Nýju fötin keisarans. Nýlega hefur mikið borið á þeirri gagnrýni að það megi nú ekki nota börn í pólitískri baráttu og vísað í loftslagsverkföll Gretu Thunberg. Það var nefnilega þannig í sögunni um nýju fötin að allir vissu að einungis þeir sem voru gáfaðir og góðir gætu séð fötin. Enginn þorði því að segja neitt, nema barnið. Allir aðrir duttu í klassíska meðvirkni og létu undan hópþrýstingi. Enginn þorði að upplýsa um meinta fávisku eða illmennsku sína.

Þó svo það sé rétt að það eigi ekki að nota börn í pólitískri baráttu þá er það ekki sjálfkrafa rétt í öllum tilfellum þar sem barn er að berjast fyrir réttindum sínum. Við erum nefnilega með mjög fallegan samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins en í annarri grein barnasáttmálans er tryggt að barni sé ekki mismunað eða refsað vegna sjónarmiða sem það lætur í ljós eða vegna skoðana sinna. Það þýðir að það á að hlusta á gagnrýni barna og mæta þeim á málefnalegum nótum, ekki hunsa orð þeirra af því að þau eru börn sem mega ekki taka þátt í pólitískri umræðu eða, enn verra, skamma þau fyrir að taka þátt.

Ef ég yfirfæri þennan áróður á söguna um nýju fötin keisarans þá væri þetta eins og að fullorðna fólkið myndi strax skamma foreldra barnsins fyrir að það uppljóstraði um þröngsýni þeirra og trúgirni. Það er ekki ævintýrið sem ég ólst upp við, það er eitthvað nýtt og miklu verra. Það yrði líklega flokkað sem hryllingssaga en ekki ævintýri.

Hvað gerist ef enginn segir neitt? Engin Rosa Parks? Enginn Wang Weilin, Ghandi, Mandela, Malala eða helvítis fokking fokk? Ekkert „vér mótmælum allir“? Nei Jón, sestu niður. Fundurinn er búinn.

Hættum að skamma börn fyrir að vera börn. Skömmum fullorðna fyrir að haga sér eins og... bjornlevi@althingi.is

Höfundur er þingmaður Pírata

Höf.: Björn Leví Gunnarsson