Breyttir tímar Jökullinn Ok er nú horfinn en í sumar var minningarskildi komið fyrir þar sem hann var áður.
Breyttir tímar Jökullinn Ok er nú horfinn en í sumar var minningarskildi komið fyrir þar sem hann var áður. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Á öllum þeim árum sem ég hef fengist við útgáfu held ég að það hafi aldrei gerst að slegist hafi verið um óútkomna bók með þeim hætti sem nú er að eiga sér stað,“ segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins.

Mikil eftirvænting er í bókaheiminum vegna nýrrar bókar Andra Snæs Magnasonar sem kemur út í dag. Bókin nefnist Um tímann og vatnið og umfjöllunarefnið er loftslagsmál, stærsta viðfangsefni sem jarðarbúar hafa staðið sameinaðir frammi fyrir eins og það er orðað í kynningu bókarinnar. Andri vakti sem kunnugt er mikla athygli fyrir skrif sín um íslenska náttúru í Draumalandinu sem kom út 2006 en sú bók seldist í hátt í 30 þúsund eintökum hér á landi. Því bíða margir spenntir eftir skrifum hans um loftslagsmálin sem brenna á mörgum þessi dægrin.

Kaupa bókina ólesna

„Það er nær óheyrt að óútkomin bók njóti jafnmikillar athygli og Um tímann og vatnið er að fá núna frá erlendum útgefendum,“ segir Egill. Réttindastofa Forlagsins sendi fyrir skömmu út kynningarefni um bókina, umfjöllunarefni hennar og höfundinn. „Nú þegar hafa farið fram uppboð milli útgefenda í tveimur löndum um það hver hreppir hnossið og bókin hefur samtals verið seld til sjö landa áður en hún kemur út á Íslandi. Þar á meðal til stærstu markaðssvæðanna; Bretlands, Bandaríkjanna og Þýskalands,“ segir útgefandinn en rétt er að geta þess að öll erlendu bókaforlögin eru að kaupa bókina ólesna.

Mikill áhugi á loftslagsmálum

„Loftslagsmálin eru auðvitað eins og allir vita heitasta mál samtímans og áhugi erlendra útgefenda að sjálfsögðu til marks um það. Hins vegar er fjöldi bóka um umhverfismál að koma út um allan heim um þessar mundir sem gerir árangurinn með bók Andra Snæs enn merkilegri,“ segir Egill Örn.