Nanna Guðrún Zoëga fæddist 24. september 1951 í Reykjavík. Hún lést 30. september 2019 á Hjúkrunarheimilinu Droplaugarstöðum.

Foreldrar Nönnu Guðrúnar voru Sveinn Zoëga forstjóri, f. 8. október 1913, d. 4. desember 1989, og Guðrún Sigríður Jónsdóttir Zoëga húsfreyja, f. 8. janúar 1918, d. 5. febrúar 1995.

Nanna giftist 11. desember 1971 Lárusi Johnsen Atlasyni, flugvélstjóra, f. 22. september 1951 í Reykjavík, en hann er sonur hjónanna Atla Helgasonar skipstjóra, f. 7. júlí 1926, d. 18. september 2001, og Sifjar Áslaugar Johnsen húsfreyju, f. 25. ágúst 1926, d. 12. maí 2006.

Nanna Guðrún var yngst fjögurra systkina: Hanna Sveinsdóttir Zoëga, f. 1939, húsfreyja í Kópavogi, d. 2015, Jón Gunnar Zoëga, f. 1943, hæstaréttarlögmaður í Reykjavík, Anna Sigríður Zoëga, f. 1947, hjúkrunarfræðingur í Reykjavík.

Börn Nönnu Guðrúnar og Lárusar eru: 1) Una Marsibil, f. 6. nóvember 1970, eiginmaður hennar er Þorsteinn Þórsteinsson, dætur þeirra eru Alexandra Dís, f. 12. maí 1992, hennar sonur er Nóel Gunnar, f. 30. maí 2017,og Bergrós Lilja, f. 16. maí 1997, hennar sonur er Gunnar Steinn, f. 7. desember 2018, 2) Atli Sveinn, f. 8. nóvember 1972, synir hans eru Matthías Breki, f. 3. nóvember 2004, og Ernir Lárus, f. 30. nóvember 2007. 3) Kristinn Ingi, f. 19. desember 1973, kvæntur Ingibjörgu Þormar Sigfúsdóttur, börn þeirra eru: Kristófer Ingi, f. 7. apríl 1999, Arnór Ingi, f. 23. júní 2001, og Sigríður Svava, f. 26. desember 2005. 3) Lárus Helgi, f. 29. maí 1978, kvæntur Maríu Stefaníu Dalberg, sonur þeirra er Hilmar Andri, f. 18. desember 2006. 4) Sigurjón Örn, f. 2. júlí 1981, kvæntur Berglindi Þórðardóttur, börn þeirra eru: Anna Sif, f. 25. ágúst 2007, Heimir Halldór, f. 24. júní 2009, og Rúnar Örn, f. 5. nóvember 2013. 5) Guðjón Hrafn, f. 2. júlí 1981, í sambúð með Önnu Friðrikku Jónsdóttur, börn þeirra eru: Dagur Kári, f. 25. ágúst 2013, og Nanna Sigrún, f. 30. maí 2016. Nanna Guðrún ólst upp í Reykjavík og stundaði nám við Miðbæjarskólann og Lindargötuskólann þar sem myndaðist vinkvennahópur sem hefur haldið hópinn til dagsins í dag. Nanna Guðrún lærði til hárgreiðslu og öðlaðist meistararéttindi. Síðar lauk hún stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 1989. Nanna stundaði nám við guðfræðideild Háskóla Íslands þar sem hún útskrifaðist sem guðfræðingur BA og djákni. Nanna Guðrún vígðist til Garða- og Bessastaðasóknar sem djákni árið 1995 og starfaði þar til margra ára.

Nanna Guðrún tók virkan þátt í félagsstörfum, m.a. Djáknafélagi Íslands þar sem hún var formaður, Oddfellow-stúkunni Rbst.12 Barböru og Lionsklúbbnum Eik í Garðabæ.

Nanna og Lárus hófu búskap vestur í Bandaríkjunum árið 1971, árið 1972 fluttu þau til Lúxemborgar en árið 1974 fluttu þau aftur heim til Íslands og keyptu sína fyrstu íbúð á Njálsgötu. Á árunum 1976 til 1986 voru þau oft langdvölum erlendis, m.a. í Kenía og á Möltu. Árið 1982 flutti fjölskyldan í Garðabæ þar sem þau svo bjuggu til ársins 2017 en þá fluttu hjónin í Kópavog.

Útför Nönnu Guðrúnar fer fram frá Vídalínskirkju í dag, 4. október 2019, klukkan 15.

Elsku Nanna mín, núna ertu loksins búin að fá kærkomna hvíld eftir erfið síðustu ár. Ég er lánsöm að hafa kynnst þér. Þú varst svo hjartahlý, alltaf með opinn faðm og alltaf hægt að leita til þín.

Þú varst alltaf tilbúin í að aðstoða við hvaða verkefni sem var, sauma kjóla, baka púðursykurköku, þrífa heimili manns eða vera með barnabörnin þín.

Það var einstakt að vera í kringum þig, kærleikurinn var alltaf til staðar og samband þitt við syni þína endurspeglar það og var það alveg einstakt. Það sem þú varst þakklát fyrir að fá nöfnu, litla ömmu gullið hana Nönnu Sigrúnu. Allt fram á síðustu stundu sá maður gleðina í andliti þínu þegar Nanna Sigrún og Dagur Kári komu í heimsókn til þín.

Við eigum eftir að geyma allar fallegu minningarnar í hjörtum okkar og munum ávallt sakna þín.

Takk fyrir allt elsku, Nanna mín.

Anna Friðrikka Jónsdóttir.

Elskuleg vinkona hefur kvatt jarðvistina eftir harða raun í sjúkdómsbaráttu sem braut hana niður á fáum árum. Við höfum átt gjöfular gæðastundir saman bæði á heimilum okkar, í ferðalögum, félagsstarfi og á vettvangi kirkjunnar. Allir mættu mildi og hlýju viðmóti og ómældum kærleika í þessari einstöku konu sem Nanna Guðrún var.

Nanna Guðrún starfaði sem djákni í Vídalínskirkju og annaðist starf meðal eldri borgara. Áberandi var að þeim þótti vænt um hana og löngu eftir að hún lét af störfum spurðist fólk fyrir um hana, fólk sem hún hafði starfað fyrir eða stutt með öflugri kærleiksþjónustu sinni.

Nanna var fundvís á ýmsar lausnir og naut sín vel í safnaðarstarfinu og fór vel með öll sín verk í kirkjunni.

Augljóst var að hún átti náið kærleikssamband við syni sína og fjölskyldu, sem hún studdi og hvatti með ráðum og dáð. Hlýjan í samskiptunum var augljós og snart strengi í hjartanu. Einnig var hún gestrisin og gamansöm.

Við hjónin sendum Lárusi og fjölskyldunni allri innilegar samúðarkveðjur og þakkir fyrir gæðastundir og vináttu og biðjum þann sem öllu ræður að vaka yfir og allt um kring.

Anna Nilsdóttir.

Horfin er okkur langt um aldur fram eftir erfið veikindi Nanna Guðrún frænka mín. Við áttum mikið saman að sælda sem börn. Árið 1930 reisti Jón Brynjólfsson afi okkar, sem fæddur var á Hreðavatni 1865, sér hús þar sem hann nefndi Æskuminni. Á þeim unaðsreit dvöldum við frændsystkinin mörg sumur frá fjögurra og fimm ára aldri með mæðrum okkar, systrunum Önnu Margréti og Guðrúnu Sigríði, og voru þar sannarlega okkar æskuminni. Hreðavatn og umhverfi er skreytt öllu því fegursta sem íslensk náttúra hefur upp á að bjóða.

Við vorum sem systkini og lékum okkur saman daga langa á þessum unaðsreit. Vorum þó ekki há í loftinu þegar við unnum verk dagsins, sem var að sækja mjólk á Hreðavatnsbæinn og burðast með brúsann fullan til baka. Frænka mín var ákaflega ljúf og glaðlynd og við uppátækjasöm eins og búast má við af ungum krökkum. Hennar er sárt saknað. Elsku Lassi, Una Marsibil, Atli Sveinn, Kristinn Ingi, Lárus Helgi, Sigurjón og Guðjón, mínar innilegustu samúðarkveðjur til ykkar og allra ykkar.

Kristinn Karlsson.

HINSTA KVEÐJA
Elsku besta amma, ég sakna þín rosa mikið. Ég elska þig, elsku amma. Þú varst alltaf svo góð við mig og alltaf svo flott og sterk. Ég á eftir að sakna þín mikið. Guð mun passa upp á þig.

Dagur Kári Guðjónsson.