Vínbóndi Murre Sofrakis hugar að vínviði á vínekru sinni á Skáni.
Vínbóndi Murre Sofrakis hugar að vínviði á vínekru sinni á Skáni. — AFP
Lomma, Svíþjóð. AFP. | Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur vínyrkja verið í vexti í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi á síðustu árum.

Lomma, Svíþjóð. AFP. | Þrátt fyrir erfiðar aðstæður hefur vínyrkja verið í vexti í Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi á síðustu árum. Loftslagsbreytingar eru ekki meginástæðan, heldur er þetta rakið til nýrra afbrigða af þrúgum sem henta í Norður-Evrópu vegna þess að þær þurfa ekki mikinn hita til að þroskast, að sögn Svenerics Svenssons, formanns samtaka sænskra vínyrkjumanna. Hann segir að loftslagsbreytingarnar hafi hins vegar orðið til þess að uppskeran hafi batnað.

Á meðal norrænu vínyrkjumannanna er Murre Sofrakis, 51 árs Svíi sem á tveggja hektara vínekru á Skáni, syðsta hluta Svíþjóðar. Þegar hann hóf vínyrkjuna árið 2001 framleiddi hann 100 lítra af víni úr sautján þrúgutegundum. „Þetta tekur langan tíma í byrjun þangað til maður finnur réttu tegundirnar,“ sagði hann. „Maður þarf að læra að rækta þær, við búum ekki að gömlum hefðum hérna.“

Leita til sérfræðinga

Sofrakis framleiðir núna um 20.000 flöskur af víni á ári, eða um þriðjung af allri vínframleiðslunni í Svíþjóð. Hún er þó aðeins eins og dropi í hafið þegar litið er til allrar vínframleiðslunnar í heiminum. Í Svíþjóð eru aðeins 100 hektarar nýttir til vínyrkju en 750.000 í Frakklandi.

Þótt velta sænsku vínekranna sé lítil í samanburði við víngarðana í Frakklandi og fleiri suðlægum löndum voru meðaltekjur sænskra vínyrkjumanna um 600.000 sænskar krónur árið 2016, jafnvirði 7,5 milljóna íslenskra, að sögn samtaka sænskra bænda.

Sofrakis rekur nú tvær vínekrur. Önnur þeirra er nefnd Klagshamn, þar sem hann vinnur ásamt eiginkonu sinni og tveimur öðrum starfsmönnum, og hin nefnist Flädie. Á þeirri síðarnefndu hefur hann notið aðstoðar um hundrað sjálfboðaliða sem leggja honum lið í frístundum.

Norrænu vínyrkjumennirnir voru flestir sjálflærðir áhugamenn í fyrstu en sumir þeirra hafa nú fengið til liðs við sig sérfræðinga í faginu, oft frá öðrum löndum. Sofrakis hefur ráðið 31 árs kínverskan vínsérfræðing sem hjálpar honum að bæta framleiðsluna.

Hentug þrúga

Norrænu vínekrurnar framleiða aðallega hvítvín úr þrúgunni solaris , sem er þýskur blendingur og hentar vel í tiltölulega svölu loftslagi þar sem þrúgurnar þurfa að þroskast fljótt.

Í Svíþjóð eru um 30 vínyrkjumenn sem selja vín og nær 100 í Danmörku. Norrænu vínin eru að mestu leyti seld innanlands. Dönsku vínframleiðendurnir geta selt framleiðsluna á vínekrum sínum en slík sala er ekki leyfð í Svíþjóð og Finnlandi þar sem ríkisreknar áfengisverslanir eru þær einu sem mega selja vín.